112. Dagurinn.
22.febrúar 2006
Það var mikið um að vera við íþróttahúsið á Þórshöfn laugardaginn 11. febrúar þegar viðbragðsaðilar neyðarvarna á staðnum héldu upp á 112 daginn. Eins og flestir vita er hann einkum til að kynna starfsemi 112 en aðilar á Þórshöfn tóku nú þátt í þvíí fyrsta sinn.
Strax um morguninn óku bílar með blikkandi ljós gegnum bæinn; það var m.a. slökkvilið, björgunarsveit og lögregla en ungir vegfarendur voru afar hrifnir af þessum farkostum.
Þessi hópur sem stendur að neyðarvörnum á Þórshöfn og nágrenni var settur saman eftir stóru flugslysaæfinguna sem haldin var fyrir þremur árum. Þetta er um þrjátíu manna hópur sem samanstendur af aðilum frá heilbrigðisstofnun, björgunarsveit, slökkviliði, Rauða krossinum, lögreglu, flugvallar -starfsmönnum auk sóknarprests og flestum ber saman um gagnsemi þess að koma saman við æfingar.
Björgunarsveit og slökkvilið sýndi tækjabúnað sinn og í sundlauginni var sviðsett nær drukknun og björgun. Slöngubátur Björgunarsveitarinnar Hafliða var í sundlauginni og að lokinni æfingu fengu yngstu sundlaugargestirnir salibunu í bátnum undir stjórn sundlaugarvarðar, sem dró bátinn með farþegunum um laugina við mikinn fögnuð þeirra.
Thorshofn.is
sjá myndir