Ályktun stjórnar Eyþings
Ályktun stjórnar Eyþings
Í tilefni af ákvörðun ríkisstjórnarinnar um niðurskurð á aflaheimildum í bolfiski vill stjórn sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum koma eftirfarandi á framfæri.
Stjórn Eyþings lýsir yfir áhyggjum af þróun atvinnulífs á svæðinu, verði ekki gripið strax til raunhæfra mótvægisaðgerða af hálfu stjórnvalda. Nauðsynlegt er að þær feli í sér skýr skilaboð, til bæði sveitarfélaga og atvinnulífsins, um að þeim samdrætti sem óhjákvæmilega mun gæta verði mætt með öflugum aðgerðum.
Nú þegar eru fyrstu viðbrögð atvinnulífsins komin í ljós í formi fjöldauppsagna starfsfólks í fiskvinnslu og er ástæða til að ætla að frekari fregna af slíku sé að vænta.
Hlutfall vinnandi fólks í fiskvinnslu- og útgerð er mjög hátt á svæðinu, og því ljóst að markvissra aðgerða er þörf eigi ekki að skapast ófremdarástand.
Aðalfundur Eyþings hefur mörg undanfarin ár lagt áherslu á úrbætur og tækifæri í fjarskipta-, heilbrigðis-, mennta- og samgöngumálum sem geta skapað, bæði fyrirtækjum og einstaklingum, möguleika til þróunar á jafnræðisgrunni óháð búsetu.
Í ljósi ákvarðana ríkisstjórnarinnar leggur stjórn Eyþings áherslu á eftirfarandi:
SAMGÖNGUR
Vaðlaheiðargöng: Ráðstafað verði til verkefnisins nauðsynlegum fjármunum svo að bjóða megi framkvæmdina út þegar í haust. Göngin eru lykillinn að því að byggðirnar við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum nái að virka sem eitt atvinnusvæði þannig að t.d. fyrirhuguð stóriðja við Húsavík efli allt svæðið.
Almennt verði lögð áhersla á að samgöngur innan svæðisins verði komið í viðunandi horf m.a. með stórátaki í lagningu bundins slitlags á milli byggðakjarna.
Lenging Akureyrarflugvallar: Þeirri framkvæmd verði flýtt með vísan til mikilvægis tilkomu alþjóðaflugvallar á Akureyri fyrir þróun ferðaþjónustu á svæðinu og þörf fiskvinnslunnar á svæðinu fyrir hagkvæmari útflutningsleið en býðst í dag.
MENNTUN OG NÝSKÖPUN
Háskólinn á Akureyri og jöfnuður til náms: Auknu fé verði varið til HA þannig að skólanum verði gert kleift að mæta þeirri menntunarþörf sem til staðar er á svæðinu og verði þess sérstaklega gætt að fjarnámsmöguleikar við skólann verði efldir stórlega. Jöfnunarstyrkir vegna framhaldsnáms verði uppfærðir í samræmi við raunkostnað og fjarskiptanetið verði fært til þess horfs að það tryggi öflugan gagnaflutning vegna náms óháð búsetu.
Vaxtarsamningar og atvinnuþróunarfélög: Vaxtarsamningur Eyjarfjarðar verði framlengdur og framlög til hans verði aukin, auk þess sem vaxtarsamningur við Þingeyjarsýslur verði gerður. Jafnframt verði framlög til atvinnuþróunarfélaganna á svæðinu aukin verulega frá því sem nú er þannig að hægt verði að sinna þeirri sérfræðiþjónustu sem þörf verður á næstu árin.
Frumkvæði heimamanna: Lögð er áhersla á að stjórnvöld gefi alvarlega gaum þeim hugmyndum um atvinnuþróun sem einstök sveitarfélög leggja fram og kunna að vera vel til þess fallin að draga úr neikvæðum áhrifum aflasamdráttar. Sem dæmi um þetta má nefna byggingu þjónustuhafnar á NA-landi vegna olíurannsókna á sk. drekasvæði á Jan Mayen hryggnum.
OPINBER STÖRF
Heilbrigðisþjónusta: Fjármagn til uppbyggingar Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar (FSA) verði tryggt og brugðist verði við fjárþörf til eflingar heilsugæslustöðva og heilbrigðisstofnana á svæðinu.
Flutningur opinberra verkefna: Stjórnvöld eru hvött til að grípa þegar til aðgerða er miða að fjölgun opinberra starfa á svæði Eyþings.
Almennt: Tekið er undir ályktanir annarra landshlutasamtaka varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, flutningskostnað, atvinnuleysistryggingasjóð o.fl.
Stjórn Eyþings er reiðubúin til að vinna með stjórnvöldum að framgangi ofangreindra mála og annarra er kunna að verða til þess að draga úr neikvæðum áhrifum á búsetu við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum.
Akureyri 12. júlí 2007.
Virðingarfyllst
f.h. stjórnar Eyþings.
____________________________
Björn Ingimarsson
Formaður
Sent til:
Ráðherra í ríkistjórn Íslands
Þingmanna NA-kjördæmis
Aðildarsveitarfélaga í Eyþingi
Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga
Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar
Landshlutasamtaka
Fjölmiðla