Fara í efni

Athugasemdir vegna hugmynda um niðurskurð aflaheimilda.

Fundur
Á fundi hreppsnefndar Langanesbyggðar fimmtudaginn 5. júlí 2007 var sveitarstjóra falið að koma meðfylgjandi athugasemdum á framfæri við Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra.Atvinnulíf í Langane

Á fundi hreppsnefndar Langanesbyggðar fimmtudaginn 5. júlí 2007 var sveitarstjóra falið að koma meðfylgjandi athugasemdum á framfæri við Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra.


Atvinnulíf í Langanesbyggð hefur verið með ágætum um árabil, ef til heildarinnar er litið.  Því valda ekki öflugar stuðningsaðgerðir frá ríkisvaldinu, líkt og raunin hefur verið á ýmsum öðrum dreifbýlissvæðum, því óvíða eru samgöngur jafn erfiðar og þar og þau störf sem til voru vegna ríkisfyrirtækja hafa horfið eitt af öðru á síðastliðnum árum án þess að ástæða hafi þótt til að gefa gaum aðfinnslum heimamanna vegna þessa (ratsjárstofnun, pósturinn, síminn o.fl.). 

Þrátt fyrir þetta hefur atvinnulíf haldið áfram að dafna og er þar eingöngu þrautseigju og frumkvæði íbúa svæðisins fyrir að þakka.  Einstaka útgerðaraðilar hafa fjárfest í veiðiheimildum og þróað eigin landvinnslu auk þess sem ungt fólk hefur hafið rekstur fyrirtækja innan, ferðaþjónustu, verslunar, veitingarekstrar, viðskiptaþjónustu, framleiðsluiðnaðar m.m.  Uppbygging samfélagsins hefur síðan miðað að því að skapa íbúunum, sem þannig hafa með frumkvæði sínu drifið atvinnulífið áfram, eins aðlaðandi rekstrar- og íbúðarumhverfi og frekast hefur verið unnt, með því að leggja áherslu á eflingu nærþjónustunnar í sem víðustum skilningi. 

 

Fari ríkistjórn Íslands að fyrirliggjandi tillögum Hafrannsóknarstofnunar verður í einni svipan tilverugrunninum kippt undan stórum hluta atvinnulífs innan Langanesbyggðar.  Þeir aðilar sem hafa, vegna trúar sinnar á framtíðina, fjárfest í veiðiheimildum á undanförnum árum munu sjá þá fjárfestingu hverfa í einu vetfangi en eftir standa skuldirnar sem verða ill- ef ekki óviðráðanlegar m.a. vegna óskiljanlegrar hávaxtastefnu Seðlabanka Íslands.  Fyrir slíka aðila er um aðeins eitt að velja og það er að selja frá sér veiðiheimildirnar og hætta þeirri erfiðu baráttu sem hefur þó hingað til blásið öðrum íbúum svæðisins kapp í kinn.  Með þessum, tiltölulega fáu, frumkvæðismönnum er hætt við að framtíðarneisti smærri byggðalaganna hverfi og þau líði undir lok!

 

Ýmsir hafa orðið til þess að benda á að margt sé aðfinnsluvert við þá vísindamennsku sem stunduð er innan Hafrannsóknarstofnunar, sem leggja á til grundvallar við ákvörðun ríkisstjórnarinnar!

 

Til dæmis hefur verið bent á það að niðurstöðurnar úr sk. netaralli séu ekki teknar með þegar að þróun fiskistofnanna sé metin.  Netarallið hafi sýnt verulega aukningu í þorskstofninum, sérstaklega á þessu ári og því síðasta.  Ástæða er til að varpa fram þeirri spurningu hvers vegna ekki er tekið tillit til þessara gagna?

 

Upplýsingar úr afladagbókum fiskiskipa eru heldur ekki teknar með í þann gagnabanka sem notaður er.  Hvers vegna ekki?

 

Upplýsingar úr sk. togararalli eru einu gögnin sem hljóta náð fyrir augum þeirra er leggja til þann mikla niðurskurð sem um er rætt.  Bent hefur verið á að þær aðferðir sem þar eru notaðar séu langt frá því að vera yfir gagnrýni hafnar og nægir þar að benda á tvennt:

 

1.      Á undanförnum 20 árum hefur rannsóknarsvæðið verið óbreytt, þ.e. togaðar eru sömu togleiðir ár eftir ár, þrátt fyrir sannanlega breytt göngumynstur fiska m.a. vegna breytinga á hitastigi sjávar.

2.      Mörg dæmi eru um það að veiðirannsóknirnar hafi verið framkvæmdar við afar erfið veðurskilyrði þrátt fyrir það að vitað sé að slíkt hafi neikvæð áhrif á árangur.

 

Þau dæmi sem hér hafa verið týnd til ættu að nægja til þess að vekja ráðamenn til umhugsunar um hvort ekki sé ástæða til að setja spurningamerki við trúverðugleika þeirrar ráðgjafar sem þeim er ætlað að fylgja.  Efasemdirnar ættu að nægja til þess að menn legðu niðurskurðarhnífinn frá sér að sinni og hugsuðu sitt mál.

 

Hreppsnefnd Langanesbyggðar leggur til að ríkisstjórn Íslands grípi til eftirfarandi aðgerða og tryggi með því stöðugleika í sjávarútvegnum og um leið viðgang þeirra fyrirtækja sem hafa með eljusemi verið að skapa sér rekstrargrundvöll á undanförnum árum:

 

·        Óvissu um framtíð fiskveiðistjórnunarkerfisins verði eytt með yfirlýsingu um að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi standi um ókomna framtíð án grundvallarbreytinga að því undanskildu að nýliðun í kerfinu verði gerð möguleg með því m.a. að ráðstafa til þess veiðiheimildum sem nýttar hafa verið í byggðakvóta og séraðgerðir s.s. línuívilnun.

·        Ákveðinn verði jafnstöðuafli til næstu þriggja ára en að þeim tíma liðnum verði tekin ákvörðun um hvort auka megi veiðiheimildir eða hvort þörf verði á skerðingu.  Jafnstöðuafli miðist við því sem næst óbreyttar veiðiheimildir yfirstandandi fiskveiðiárs.  Jafnframt verði teknar upp nýjar rannsóknaraðferðir og rannsóknir stórefldar.

·        Heimildir til hvalveiða verði auknar stórlega þar sem fyrir liggur að hvalastofnarnir við landið hafa vaxið verulega og að þau skörð er þeir höggva í bæði bolfisk- og uppsjávarfiskstofna eru tilfinnanleg.

 

Þess er vænst að ríkisstjórn Íslands hafi þor til að ganga gegn ráðgjöf er byggir á vafasömum forsendum og stuðla með því að áframhaldandi viðgangi og þróun minni sjávarbyggða og eflingu þjóðarhags. Slíkt verður aðeins gert með því að fyrirtækin í sjávarbyggðunum fái áfram að dafna á eigin forsendum en ekki með því að deyfandi dúsu verði stungið upp í deyjandi byggðalög með t.d. jafn fráleitum hugmyndum eins og þeim að afhenda þeim takmarkaðar veiðiheimildir til útleigu.

 

Virðingarfyllst.

f.h. Langanesbyggðar

 

 

__________________________

Björn Ingimarsson

Sveitarstjóri