Fara í efni

Dreifibréf frá Landsbjörg 1. oktober 2007

Meðal efnis:Landsæfing 2007Umsjónarmenn unglingadeildaSleðamessaFélagatal uppfærslaTilboð frá Ingvari HelgasyniLeiðbeinendur BjörgunarskólaÁlyktanir frá Landsþingi....................................

Meðal efnis:
Landsæfing 2007
Umsjónarmenn unglingadeilda
Sleðamessa
Félagatal uppfærsla
Tilboð frá Ingvari Helgasyni
Leiðbeinendur Björgunarskóla
Ályktanir frá Landsþingi


..................................................................

Landsæfing 2007

Landsæfing björgunarsveita verður haldin laugardaginn 20. október n.k í samvinnu við björgunarsveitir á suðurlandi. Verkefni verða við allra hæfi þ.a.m fjallabjörgun, rústabjörgun, leitartækni, hundar, fyrstahjálp og almenn verkefni. Æfingin verður skipulögð í nágreni Skóga undir Eyjafjöllum.

Boðið verður upp á gistingu að Skógum, bæði á föstudag og laugardag. Að æfingu lokinni býður Slysavarnafélagið Landsbjörg þátttakendum til veislu.

Skráning er hafin í síma 570-5900 á skrifstofu tíma eða á netfangið landsaefing@landsbjorg.is

Athugð að aðeins ein skráning komi frá hverri sveit. Takið fram; frá hvaða sveit, gerð hóps (t.d. skyndihjálp, almennur, sleðar), fjöldi þátttakenda og fjöldi tækja. Einnig þarf að koma fram hvort og hvenær hópar vilja gistingu.

..................................................................


Fundur umsjónarmanna unglingadeilda

Minnum á umsjónarmannafundinn á Gufuskálum helgina 5.-7. okt. Er fólk beðið að skrá sig á heimasíðu SL undir liðnum á döfinni eða hringja í síma 570 5900.

Boðið verður upp á ferðir á Gufuskála frá skrifstofu SL í Skógarhlíð. Vinsamlegast takið fram við skráningu hvort ætlunin er að nýta sér boðið.

..................................................................


Sleðamessa

Þann 3. nóvember 2007 verður haldin sleðamessa í húsnæði Hjálparsveitar skáta í Garðabæ. Hefst hún með setningu sleðamessunnar klukkan 10:00 en þátttakendur mæti með tæki sín á staðinn klukkan 9:30.

Dagskráin er svohljóðandi:


    10:00 Sýning á tækjum og tólum
    12:00 Grillveisla
    13:30 Fyrirlestrar hefjast
    Lexi með kynningu á námskeiði fyrir sleðamenn björgunarsveita
    Hugmynd að nýju leitarskipulagi fyrir allt landið
    Flutningur slasaðra á sleðum
    LHG - Samskipti við sleðamenn í leitum
    112 Neyðarlínan TETRA kerfið
    Fyrirlestur um ofkælingu
    Hnéspelkur
    Kynning á belgingur.is
    Umræða um áframhald og fyrirkomulag sleðamessunar

Sleðafólk björgunarsveitanna, sem og aðrir sem áhuga hafa, er hvatt til að mæta, sýna sig og sjá aðra og læra margt gagnlegt í leiðinni.

..................................................................

Félagatal

Aðildareiningar Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru minntar á að fara yfir félagatal sitt. Hafi orðið breytingar á því þarf að koma þeim til skrifstofu, skrifstofa@landsbjorg.is Á skrifstofunni má nálgast félagatalið eins og það er skráð núna í kerfið hjá SL.

Þegar breytingar eru gerðar er mikilvægt að merkja þá sem eiga að fara út með rauðu, breytingar eru merktar með gulu (eingöngu breytingar, ekki allur dálkurinn), og nýjir meðlimir eru merktir með grænu.

Mjög mikilvægt er að félagatalið sé uppfært reglulega því félagsmenn eru ekki tryggðir hjá SL nema þeir séu skráðir í félagatalið á skrifstofu

..................................................................


Björgunarskólinn óskar eftir leiðbeinendum

Björgunarskólinn leitar eftir áhugasömum leiðbeinendum til að kenna námskeið í vetur í fyrstu hjálp, rötun, ferðamennsku, leitartækni, fjallamennsku ofl.

Þeir sem hafa áhuga er bent á að senda línu á oddur@landsbjorg.is

STÓRBÆTT LAUNAKJÖR

..................................................................


Tilboð frá Ingvari Helgasyni til sveita sem eru með Patrol

Þessar vikurnar er starfsfólk Ingvars Helgasonar að yfirfara og breyta afsláttarkjörum sem miðar að því að geta veitt mismunandi afslætti eftir vöruflokkum.

Þar til þessar breytingar eru komnar til framkvæmda býðst einingum félagsins sem eiga og reka Patrol bifreiðar 20% flatur afsláttur af vörum Ingvars Helgasonar og notaðar eru í björgunarsveitabíla. Þessi rausnarlega afsláttarprósenta er boðin einingum SL vegna eðli starfseminnar og því ekki í samræmi við veltu viðskiptannna. Farið er fram á að þessi kjör séu eingöngu notuð eins og áður segir, fyrir tæki í eigu björgunarsveita. Um leið og nýtt afsláttarkerfi verður sett inn hjá Ingvari Helgasyni mun afslátturinn verða breytilegur.


..................................................................


Ályktanir og punktar frá Landsþingi


Hér á eftir koma þær ályktanir sem settar voru fram í umræðuhópum á Landsþinginu í vor ásamt nokkrum málum sem var beint til skrifstofu og stjórnar til athugunar eða úrlausnar og staða málanna í dag.

Umræðuhópur um aðgerðamál:

Spurt um reikisamninga milli símafyrirtækja. Leitað til skrifstofu að skoða málið.

- Enn hefur ekki verið farið í þetta mál.

Hópurinn skoraði á starfsmenn að komast yfir drög að nýjum lögum um almannavarnir og senda á svæðisstjórnarmenn.

-Drögin sem fyrir lágu voru dregin til baka af ráðuneyti og því eru þau ekki enn komin á umsagnarstig.

Ályktun
Landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar, haldið á Suðurnesjum 18.-19.maí 2007 hvetur yfirvöld til þess að tryggja staðsetningu björgunarþyrlu víðar en á Suðvesturhorni landsins.

-Ályktunin hefur verið send til dómsmálaráðherra.

Umræðurhópur um óvirkar einingar

Ályktun:
Landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar, haldið í Reykjanesbæ 18.-19. maí 2007, skorar á stjórn félagsins að unnið verði að skilgreiningu á óvirkum einingum til að tryggja að fjármunum verði sem best varið og að björgunarsveitir standi undir nafni. Félagið bjóði upp á aðstoð til að loka óvirkum einingum.

-Tekið markvisst fyrir og fylgt eftir í erindrekstri til eininga félagsins.

Umræðuhópur um sjóbjörgun og harðbotnabáta

Eftirfarandi tillögur komu fram:
    Stofna nefnd/hóp til að skilgreina báta félagsins.
    Að vinna á prófunum á göllum verið kláruð og félagið niðurgreiði í framahaldi 1-2 tegundir af göllum.
    Að stofnaður verði faghópur í sjóbjörgun t.d. fimm manna hópur. Hópurinn yrði félögum innan handa með búnað og fleira ásamt því að flokka báta félagsins og prófa nýjan búnað.

    -Verið er að skoða stofnun nefndar/hops til að fara yfir tillögur 1-3.

    Að halda fleiri sameiginlegar sjóbjörgunaræfingar, kannski í hverjum landsfjórðungi.
    Að halda sjóbjörgunarráðstefnu svipaða og sleðamessur sem haldnar hafa verið.

-Búið er að halda landsæfingu um sjóbjörgun. Smærri æfingar eru á höndum félagseininganna sjálfra en ekki hjá skrifstofu.


Umræðuhópur um neyðarskýlamál

Ályktun
Umræðuhópur um neyðarskýlamál leggur til við Landsþing að stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar verði falið að hrinda í framkvæmd greinargerð og tillögum neyðarskýlanefndar SL.

-Tillögur sem neyðarskýlanefnd lagði fram koma ekki til framkvæmda fyrr en á fjárhagsári 2008. Einingar geta þó sótt um styrk vegna framkvæmda sem fram fóru á árinu 2007. Nefndin kemur til með að fylgja eftir sínum tillögum næstu tvö árin.

Umræðuhópur um slysavarnaverkefni

Ályktun
Landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar skorar á stjórnvöld að lögleiða hjálmanotkun allra hjólreiðamanna.

Greinargerð: Vaxandi noktun reiðhjóla kallar á aukið öryggi í umferðinni. Við teljum að lög eigi að ná til allra aldurshópa en ekki eingöngu til 14 ára aldurs, samanber lög um bílbelti.

-Ályktunin hefur verið send samgöngumálaráðherra.

Umræðuhópur um skiptingu fjármagns

Tillaga um gerð matskerfis um skiptingu fjármagns.
5. þing Slysavarnafélagsins Landsbjargar haldið í Reykjanesbæ 18.-19. maí 2007 samþykkir að stjórn félagsins láti semja matskerfi til að nota að hluta eða öllu leiti við úthlutun fjármangs til eininga. Skal fyrstu tillögum skilað til aðildareininga tveimur vikum fyrir fulltrúaráðsfund haustið 2007 og fá þar fyrstu umfjöllun. Skal stefns að því að nýja matskerfið verið lagt fram til samþykktar eða synjunar á 6. þingi Slysavarnafélagsins Landsbjargar árið 2009.

Greinargerð: Umræðuhópur telur að með þessari tillögu að láta vinna nýtt kerfi um skiptngu fjármagns þar sem fram munu koma styrkir og veikleikar sveita, ástæður og rök fyrir þeim styrkjum sem þeir fá. Einnig að fram komi með hvaða hætti sveitir hækki eða lækki innan kerfis. Í alltof langan tíma hefur núverandi kerfi verið látið viðgangast og full þörf á að gera nýtt og gegnsætt kerfi sem tekur tillit til ólíkra þátta sem sveitir búa við.

-Búið er að setja á laggirnar nefnd innan stjórnar um málið og er henni ætlað að skila tillögum fyrir fulltrúaráðsfund og formannafund. Í nefndinni eru eftirfarandi stjórnarmenn: Hannes, Smári, Gunnar og Kristinn.

Úr öðrum málum

Haukur Harðarson HSSR beinti til stjórnar að taka til umræðu í félaginu hvort stjórnarseta innan félagsins ætti að vera takmörkuð við ákveðin fjölda kjörtímabila og hvenær þing væru haldin.

-Vísað til laganefndar

Fríður Brina Stefánsdóttir Slysavarnadeild kvenna í Reykjavík fólst eftir því að hlutfall kvenna og karla í félaginu yrði skoðað og hafði ýmsar athugasemdir varðandi stefnumótun félagsins sjá undir önnur mál í fundargerð þingsins.

-Stefnumótun félagsins er í ferli og verða athugasemdir Fríðar Birnu teknar inn.

Björn Guðmundsson Björgunarfélagi Akraness benti á að björgunarsveitamál væru of fyrirverðamikil í félaginu og lítið bæri á slysavarnamálum. Félagið þyrfti því að spyrja sig hvert það stendi í slysavarnamálum.

-Tekið er á þessum málum í stefnumótunarvinnu fyrir félagið.


..................................................................

Fundarsköp

Komin er út ný útgáfa FUNDARSKAPABÓKARINNAR en rétthafar hafa ekki gefið hana út í æði mörg ár og er því löngu kominn tími á endurútgáfu. Bókin nýtist öllum - fyrirtækjun - félagasamtökum - skólum - sveitarfélögum og nefndum þeirra - húsfélögum og hvar sem fundir eru haldnir og er helstu stjórnendum gott hjálpartæki.

Tilboðsverð bókarinnar er kr. 1.890.- ef tekin eru 1 - 9 eintök
" 1.690.- " 10 - 49 eintök
" 1.490.- " 50 eintök og þar yfir.

Fullt verð mun verða 2.490.-

Þeir sem hafa áhuga á að eignast þessa bók hafi samband við Ólaf I. Hrólfsson í síma 562-6797, gsm 861-9407, netfang olibok@simnet.is

..................................................................



Skráning á póstlista