Hreinsunarátak á Bakkafirði og á Þórshöfn í maí.
10.05.2007
Umhverfis-, skipulags- og bygginganefnd ákvað á fundi sínum 8. maí sl. að árlegur hreinsunardagur fjölskyldunnar verði laugardaginn 19. maí nk. Fyrirkomulagið verður með sama hætti og áður og munu íbúarnir fá nánari tilkynningar þar um í næstu viku.
Dagana 12. - 18. maí eru forráðamenn fyrirtækja og lóða hvattir til að taka rækilega til á eignum viðkomandi og munu starfsmenn áhaldahúsa aðstoða við að koma rusli á förgunarstaði eftir föngum.
Gerður hefur verið samningur til næstu fimm ára við fyrirtækið Hringrás um móttöku á ákveðnum úrgangsflokkum til ýmist endurvinnslu eða förgunar og er stefnt að því að taka upp flokkun úrgangs með hliðsjón af samningnum síðar á þessu ári. Fyrsta skrefið verður þó stigið nú og lýtur það að móttöku brotajárns. Starfsmenn Hringrásar eru væntanlegir á svæðið upp úr 20. maí nk. til að undirbúa brotajárn til flutnings frá Þórshöfn með skipi í byrjun júní. Hringrásarmenn munu hafa aðstöðu við grjótnámuna á Þórshöfn og eru nú allir þeir sem hafa t.d. dregið við sig að koma frá sér gömlum bílhræjum hvattir til að koma slíku á staðinn. Söfnun brotajárns á Bakkafirði verður á hefðbundnum stað við ruslahauga. Eigendum bílhræja er bent á að vera í sambandi við starfsmenn áhaldahúsa vegna losunar spilliefna og skráningar vegna skilagjalds o.fl.
TÖKUM NÚ ÆRLEGA TIL HENDINNI OG LOSUM OKKUR VIÐ BROTAJÁRNSHAUGANA SEM ALLT OF VÍÐA ERU OKKUR TIL VANSA!