Ísfélagið: Kaupir nýtt uppsjávarveiðiskip sem kemur í ágúst
13.7.2007
Í fyrrdag var skrifað undir samning um kaup Ísfélagsins á nýju uppsjávarskipi. Einnig var í undirritaður samningur um sölu Álseyjar VE, uppsjávarveiðiskipi félagsins, að því er fram kemur á sudurland.is.
Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri, staðfesti þetta í samtali við Fréttir í Vestmannaeyjum en sagði að samningarnir væru með eðlilegum fyrirvörum. Þetta er liður í breytingum á skipastól félagsins og kemur í framhaldi á kaupum okkar á Hraðfrystistöð Þórshafnar fyrr á árinu," sagði Ægir Páll. Nýja skipið heitir Delta, smíðað í Noregi 1987 og ber um 2000 tonn, það er 65,65 m langt, 12,6 m breitt og búið 4400 hestafla Bergen-vél. Það er með níu hráefnistanka, búna öflugu RSV-kælikerfi.
Delta var gerð út frá Noregi til ársins 2002 en síðan hefur það stundað veiðar við Afríkustrendur. Með þessu náum við hagræðingu sem felst í færri en stærri skipum. Einnig gerir öflugt kælikerfi það að verkum að við fáum betra hráefni sem kemur sér vel fyrir vinnslu okkar í Eyjum og Þórshöfn, bæði í bræðslu og frystingu," sagði Ægir Páll.
Nýja skipið er væntanlegt til nýrrar heimahafnar í næsta mánuði.