Menning
Þórshöfn
Kauptúnið Þórshöfn byggðist upp á láglendi við austanverðan Lónafjörð, innsta hluta Þistilfjarðar. Þar er frá náttúrunnar hendi besta skipalægi við Langanes og hlé fyrir norðaustanátt, sem er aðal hafáttin á þessum slóðum.
Þórshafnar er getið í leyfisbréfum erlendra kaupmanna frá því á 16. öld en löggildingu sem verslunarstaður fékk staðurinn árið 1846. Úr því fóru lausakaupmenn að sigla þangað og seinna skip frá Gránufélaginu.
Um og upp úr 1880 voru fyrstu húsin reist á Þórshöfn, vörugeymsluhús, en fram að þeim tíma hafði verið verslað um borð í skipunum. Danska verslunarfélagið Örum & Wulf hóf starfsemi á Þórshöfn 1897. Það hætti þar verslun 1918.
Kaupfélag Langnesinga var stofnað 1911 og stóð lengi fyrir fjölbreyttum rekstri. Nokkrar aðrar verslanir hafa starfað á staðnum. Framan af stunduðu menn í þorpinu vinnu við verslanirnar og nokkurn landbúnað jafnframt. En útvegur fór þar vaxandi og á síðari hluta síðustu aldar átti sér stað mikil uppbygging.
Þar er nú rekin afkastamikil fiskimjölsverksmiðja, frystihús og kúfiskvinnsla. Atvinnulífið byggist á útgerð nokkurra dagróðrarbáta, skelfiskskips og nótabáta. Lengi framan af voru ekki önnur hafnarmannvirki á Þórshöfn en smábátabryggjur úr timbri. Árið 1937 var byggður 100 m langur hafnargarður og síðan steinbryggja. Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað við höfnina síðan og teljast nú hafnarskilyrði góð. Gistihús eru á Þórshöfn og veitingastaðurinn Eyrin er skemmtilega staðsettur nálægt höfninni. Glæsilegt íþróttahús er á staðnum með yfirbyggðri sundlaug og heitum pottum.
Afmarkað svæði er fyrir tjaldvagna og tjöld.
Látnir listamenn
Örn Arnarson (1884-1942)
-Magnús Stefánsson-
Magnús Stefánsson fæddist í Kverkártungu á Langanesströnd. Foreldrar hans urðu að bregða búi vegna fátæktar, og skömmu síðar missti hann föður sinn. Þá var Magnús tveggja ára gamall, og eftir það ólst hann upp í skjóli móður sinnar, sem var vinnukona á Þorvaldsstöðum. Í æsku vandist hann sveitastörfum og sjósókn. Liðlega tvítugur fór hann í skóla, lauk gagnfræðaprófi við Flensborgarskólann og tók síðan kennarapróf. Veturinn eftir kenndi hann í átthögum sínum, en hætti þá kennslu og stundaði aðallega skrifstofu- og verzlunarstörf á ýmsum stöðum. Á sumrin var hann stundum í vegavinnu. Árið 1918 fluttist hann til Hafnarfjarðar, þar sem hann átti heima til dauðadags. Bókavörður var hann ráðinn við bókasafnið þar 1938.
Þegar Magnús birti fyrstu kvæði sín í Eimreiðinni 1920, tók hann sér skáldanafnið Örn Arnarson. Ljóðasafn hans, Illgresi, kom fyrst út árið 1924.
(Skólaljóð. Ríkisútgáfa námsbóka)
Meðal ljóða Arnar Arnarsonar er ljóðið Sigling sem flestir Íslendingar hafa einhvern tímann sungið:
Hafið, bláa hafið, hugann dregur.
Hvað er bak við ystu sjónarrönd?
Þangað liggur beinn og breiður vegur.
Bíða mín þar æskudrauma lönd.
Beggja skauta byr
bauðst mér aldrei fyrr.
Bruna þú nú, bátur minn.
Svífðu seglum þöndum,
svífðu burt frá ströndum.
Fyrir stafni haf og himinninn.
Örn Arnarson
Kristján frá Djúpalæk
Kristján fæddist þann 16. júlí árið 1916 á Djúpalæk í Skeggjastaðahreppi. Þar sleit hann barnsskónum í nokkuð stórum systkinahópi, eins og gjarnan vildi verða á þessum árum og mikilli fátækt. Þannig lýsir Kristján þessu sjálfur af sinni alkunnu kaldhæðni:
Við systkinin fæddumst fjórtán,
en fjöldinn af okkur dó
úr bráðasótt strax í bernsku
en björguðumst nokkur þó,
sem efalaust öll hefðu kosið
við ævinnar fyrstu stig
að jarðast í jesúnafni,
- Ég segi fyrir mig.
Foreldrar Kristjáns voru Einar Vilhjálmur Eiríksson (f. 28.4.1871 - d. 9.4.1937) og Gunnþórunn Jónasdóttir (f. 26.2.1895 d. 6.3.1965), sem var seinni kona Eiríks. Þau eignuðust saman sex börn, en með fyrri konu sinni hafði Einar eignast átta.
Haustið 1936 hóf Kristján nám við Eiðaskóla. Þar kynntist hann verðandi eiginkonu sinni Unni Friðbjarnardóttur frá Staðartungu í Hörgárdal, en það varð til þess að ári síðar hóf hann nám við Menntaskólann á Akureyri. Þau Unnur eignuðust einn son, Kristján, sem nú er prófessor í heimsspeki við Háskólann á Akureyri. Eftir einn vetur á Akureyri flutti Kristján í Staðartungu og bjó þar fram til ársins 1943 er þau hjónin fluttu til Akureyrar. Um skeið bjuggu þau í Reykjavík og Hveragerði en mestan part á Akureyri þar sem Kristján lést árið 1994.
Kristján gegndi ýmsum störfum um ævina, starfaði m.a. sem blaðamaður og kennari. Eftir hann liggur fjöldi ljóðabóka og má þar nefna Í þagnarskóg, Þrílækir, Óður steinsins og Fljúgandi myrkur. Fyrsta ljóðabók hans, Frá nyrztu ströndum, kom út árið 1943. Tvö ljóðasöfn hafa komið út eftir hann: Í víngarðinum (árið1966) og Dreifar af Dagsláttu (árið 1986). Flestir þekkja íslensku textana við lögin í barnaleikritunum Dýrin í Hálsaskógi og Kardemommubærinn en þá texta gerði Kristján. Einnig þýddi hann söngtexta í leikritunum Galdrakarlinn í Oz og Karamellukvörnin. Vísnabók æskunnar þýddi hann og endursamdi árið 1970 og 1974 þýddi hann Æfintýri í Mararþaraborg. En hann lét sér ekki nægja að þýða fyrir börnin heldur skrifaði hann bókina Píla Pína, ævintýri með söngvum, sem gefin var út 1980. Heiðdís Norðfjörð samdi lögin við söngtextana í bókinni. Kristján gerði nokkuð af því að semja dægurlagatexta, en hann byrjaði á því að eigin sögn vegna þess að honum fannst íslenskan fara halloka fyrir enskunni í dægurlagatextum 5. og 6. áratugarins. Hann samdi meðal annars texta við lög mágs síns Svavars Benediktssonar og æskuvinar síns Ágústs Péturssonar. Í því sambandi má benda á geisladiskinn Með sínu nefi þar sem Vilhjálmur Vilhjálmsson syngur einungis lög við ljóð eftir Kristján, þar á meðal lög eftir Svavar og Ágúst.
Heimildir:
Fjögur skáld í för með presti. Bókaútgáfan Skjaldborg. 1978.
Dreifar af dagsláttu. Bókaútgáfan Skjaldborg. 1986.
Ættartal. Hálfdan Haraldsson. 2001.
Ágúst Pétursson
Ágúst Metúsalem Pétursson fæddist þann 29. júní 1921 á Hallgilsstöðum í Þistilfirði, en ólst upp á bænum Höfnum við Finnafjörð. Foreldrar hans voru Pétur Metúsalemsson og Sigríður Friðriksdóttir. Árið 1940 fór Ágúst til Vestmannaeyja að læra húsgagnasmíði og við þá iðn vann hann upp frá því, lengst af hjá Gamla Kompaníinu í Reykjavík. Árið 1945 fluttist hann til Reykjavíkur með unnustu sinni, Guðrúnu Dagnýju Kristjánsdóttur frá Hvammi við Fáskrúðsfjörð, sem hann giftist svo 2. nóvember 1946. Þau bjuggu á Álftröð 3 í Kópavogi frá 1951 og eignuðust þrjú börn, Hörpu, Pétur Ómar og Ágústu Sigrúnu.
Ágúst lék á ýmis hljóðfæri. Hann lærði á orgel hjá föður sínum sem var organisti á Skeggjastöðum. Fyrstu harmonikuna, hnappanikku, eignaðist hann ungur að árum og sá að mestu leyti sjálfur um að ná tökum á henni. Í Vestmannaeyjum spilaði Ágúst á saxófón með lúðrasveit og einnig raddæfði hann og söng I.bassa í okett sem kallaði sig Smárakvartettinn. Hann spilaði á dansleikjum í Vestmannaeyjum lungann af þeim tíma sem hann bjó þar. Ágúst spilaði á dansleikjum með Jenna Jónssyni og Jóhanni Eymundssyni og um árabil léku þeir í Skátaheimilinu við Snorrabraut undir nafninu Hljómatríóið. Ágúst var einn af stofnendum Félags harmonikuunnenda í Reykjavík og fljótlega eftir stofnunina færði hann félaginu mars sem hann tileinkaði þeim, harmonikumarsinn.
Ágúst samdi fjöldan allan af dægurlögum og árið 2001 kom út diskur með nokkrum af þekktustu lögum hans m.a. Þórður sjóari og Pólstjarnan. Kristján frá Djúpalæk, æskuvinur hans, samdi texta við flest lög hans. Einnig sömdu Jenni Jónsson og Loftur Jónsson marga texta fyrir hann, en Ágúst átti það til að semja sjálfur texta við lögin sín og textinn við lagið Óskastund er eftir hann sjálfan.
Ágúst lést 28. júlí 1986.
Unnið úr upplýsingum á geisladiskinum:
Hittumst heil, lög eftir Ágúst Pétursson. Metúsalem-Útgáfan. 2001.