Saga Þórshafnar
Upphaf fastrar búsetu
Suðvestur úr jörðinni Syðralóni gengur tangi út í sjóinn. Sunnan á honum er sandfjara sem liggur í austur og áður en mannvirki voru reist á tanganum gekk hún líka langt suður eftir honum. Innan tangans er vík sem er í skjóli við hann. Hún hefur frá fornu fari verið kölluð Þórshöfn. Þar var besta skipalægið á Langanesi og eini staðurinn á nesinu þar sem hægt var að tala um höfn frá náttúrunnar hendi. Þangað beindist því sigling og þar byggðist kauptún.
Fyrsta fólkið sem skráð var til heimilis á Þórshöfn í opinberum gögnum voru hjónin Helgi Eymundsson bóndi og trésmiður og Hólmfríður Jónsdóttir. Árið 1880 dvöldust þau sem búleysingjar á Syðribrekkum en á árunum 1881-1882 eru þau í bókum hreppsins skráð búlaus til heimilis á Þórshöfn. Ekki er sagt hvar þau héldu sig á staðnum en vart er um aðrar vistarverur að ræða en svokallaða Skemmu Jóns Benjamínssonar á Syðralóni sem hann byggði niður við Þórshöfn árið 1880 til að geyma í vörur fyrir Gránufélagið. Af stuttorðri lýsingu frá um 1920 og góðri endingu hússins má ráða að það hafi verið nokkuð traustlega byggt en ekki reisulegt. Það er þá sagt vera lítill timburkofi með risi, klæddur tjörupappa. Fullvíst verður að telja að Skemman hafi verið fyrsta íbúðarhúsið á Þórshöfn og Helgi og Hólmfríður fyrstu hjónin sem þar bjuggu. Árið 1883 fluttust þau frá Þórshöfn vestur um haf til Kanada og með þeim 19 ára stúlka, Konkordía Sófíasdóttir.
Elsta húsið á Þórshöfn
Árið 1902 voru byggð tvö íbúðarhús á Þórshöfn, eitt timburhús og þurrabúð. Timburhúsið hét Sandvík. Því var valinn staður nálægt Hafnarlæk. Það var byggt af Friðriki beyki Stefánssyni sem þá var farinn að vinna í Beykisbúð sem var við hliðina á Sandvík. Hann hafði fram að því búið á Hlein. Hið nýja hús hans var ein hæð, kjallari og ris, 5x4,40 metrar og 3,76 metrar á hæð.2° Þetta hús stendur enn, er nú Fjarðarvegur 14, elsta húsið á Þórshöfn.
Heimild: Langnesingasaga
Friðrik G Olgeirsson
Sagan segir að á mitt Langanes hafi hamar goðsins Þórs verið settur og höfn héraðsins nefnd eftir honum, Þórshöfn. Þórshöfn stendur við austanverðan Lónafjörð, innsta hluta Þistilfjarðar, við dálitla vík. Þar er frá náttúrunnar hendi allgóð bátalending og hlé fyrir norðan- og norðaustanátt, sem er aðal hafáttin á þessum slóðum. Þykir bæjarstæðið fara vel í landslaginu og mikið og fagurt útsýni að sjá yfir Þistilfjarðarflóann, sveitirnar, heiðarlöndin, Þistilfjarðarfjöllin, Langanesfjöllin og Íslandshaf .
Kauptúnið Þórshöfn var byggt í landi Syðra-Lóns. Syðra-Lón er jörð í stærra lagi og á land að sjó sunnarlega á Langanesinu vestanverðu, frá Fossá sunnan Þórshafnar til norðurs eða norðausturs á miðja Háubakka, norðan Markvatns.
Næst sjónum er land mishátt og með ýmsu móti, með vel grónum mýrum og túnum. Þá taka við hallandi mýrar frá Fossá norður fyrir bæinn Syðra-Lón og þar fyrir norðan taka við svonefnd Flaga, norður að landamerkjum Sauðaness, en meðfram henni eru mýrar að ofanverðu, en sjávarmegin eru lyng- og viðarmóar. Er þarna mikið af ræktanlegu landi. Þegar fjær dregur sjó, fer landið nokkuð hækkandi. Skiptast þar á víði vaxnir móar, stórgrýttir melar, lækjardalir vaxnir smágresi og flóar með stórgerðari gróðri. Landið er fremur snjólétt og allgott til beitar á vetrum. Sumarhagar góðir, a.m.k. fyrir sauðfé. Fjörubeit er nokkur.
Til skamms tíma var allmikið heyjað á útengi, svo sem örnefni eins og Engidalur og Sláttuflói bera vott um.Hafnarlækur kemur upp í Stóraflóa, en rennur til suðurs um mýrarnar neðanverðar til sjávar í kauptúninu. Yfir hann liggja tveir vegir úr þorpinu. Sjávarmegin við Hafnarlæk er "Holtið", sem svo er nefnt, lág melalda milli Þórshafnar og Háubakka. Á holti þessu er hluti af þorpinu nú orðið. Þar er einnig bærinn Syðra-Lón.
Milli bæjar og sjávar er lón, er jörðin dregur nafn af. Þar er æðarvarp á hólma í vatninu og á töngum sem ganga út í vatnið, en kríuvarp í mölinni milli sjávar og vatns. Trjáreki er á jörðinni og svarðartekja, sem til skamms tíma var mikið notuð af þorpsbúum. Kauptúnið var í fyrstu byggt sunnan við og sunnan í holtinu, sem fyrr var nefnt, en það gengur til norðurs frá höfninni. Hefur byggðin svo teygt úr sér á tvo vegu, austur með höfninni og inn með henni að austan, allt suður undir Fossá og norður á holtið í áttina að Syðra-Lóni.