Samningur um menningarmál og menningartengda ferðaþjónust
Samningur um samstarf menntamálaráðuneytis og samgönguráðuneytis við 16 sveitarfélög á Norðurlandi eystra um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu var undirritaður á Húsavík í dag.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra undirritaði samninginn fyrir hönd ríkisins en Björn Ingimarsson, formaður sveitarfélaganna í Eyþingi, undirritaði samninginn fyrir hönd sveitarfélaganna.
Þetta mun vera í fyrsta sinn sem gengið er til slíks samstarfs við Norðurland eystra en áður hafði svipaður samningur verið gerður við Austurland árið 2001 og Vesturland árið 2005. Í tilkynningu segir að tilgangur menningarsamningsins sé að efla menningarstarf á Norðurlandi eystra og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaganna við slíkt starf í einn farveg. Jafnframt séu áhrif sveitarfélaga á forgangsröðun verkefna aukin. Menningarráð Eyþings sem skipað verður 7 fulltrúum, verður samstarfsvettvangur sveitarfélaganna.
Framlög ríkisins til samningsins verða 25 m.kr. á árinu 2007, 30 m.kr. árið 2008 og 31 m.kr. árið 2009 en sveitarfélögin leggja jafnframt fram fé til sameiginlegra verkefna hvort heldur er með framlögum frá einkaaðilum eða með eigin framlögum. Gildistími samningsins er til ársloka 2009.