Staðhættir
Sauðanes
Kirkjustaðurinn Sauðanes er um 7 km norðan Þórshafnar. Þar eru landkostir miklir og hlunnindi svo sem æðarvarp, reki og silungsveiði. Staðurinn var því lengi eftirsóttur enda Sauðanes talið, á sínum tíma, eitt af þremur bestu prestaköllum landsins. Talið er að kirkja hafi staðið á Sauðanesi allt frá 12. öld.
Margir merkisklerkar hafa setið staðinn, en sá sem stóð þeim fremstur um framkvæmdir var séra Vigfús Guðmundsson. Hann var áður prestur á Svalbarði. Þrjú hús standa enn í Norður-Þingeyjarsýslu, sem hann lét reisa, þ.e. kirkjan á Svalbarði 1848, prestshúsið á Sauðanesi 1879 og Sauðaneskirkja 1889. Gamla prestshúsið er gert úr steini er fluttur var langt að og tilhöggvinn á staðnum.
Séra Vigfús lét smíða skip með þilfari og var það einkum ætlað til að flytja efni að byggingunum, meðal annars grjótið í íbúðarhúsið syðst af Langanesi.
Í gamla húsinu á Sauðanesi er í dag starfrækt minjasafn, upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn og veitingasala. Langnesingar áttu kirkjusókn að Sauðanesi allt til 1999 en þá var risin kirkja á Þórshöfn.
Fjallið stendur norðan Eiðisskarðs, um mitt Langanes. Hæsti staður fjallsins heitir Kálfshvammshyrna (266 m y.s.). Þar var áður radarstöð á vegum NATO, lögð niður 1970. Á fjallinu er afar þokusælt en í björtu veðri er útsýn þaðan mikil og víð, sér til að mynda út Langanesið og allt að ystu mörkum þess á Fonti. Þokkalegur vegur liggur upp á fjallið.
Skoruvík
Frá Þórshöfn eru um 38 km út í Skoruvík, þangað liggur jeppafær vegur, en þaðan út að vitanum á Fonti um 10-12 km. Skoruvík er ysti bær á Langanesi, nú í eyði. Lengi var þar veðurathugunarstöð. Þar er talið vera eitt mesta kríuvarp á landinu. Reki er þar meiri en víðast hvar við strendur landsins. Frá Skoruvík er ruddur vegur austur yfir nesið að Skálum, 4-5 km langur. Liggur leiðin um Vatnadal er dregur nafn af þremur vötnum. Í Skoruvíkurbjargi halda sig margar tegundir sjófugla svo sem langvía, rita og fýll. Sigið hefur verið í bjargið allt til þessa. Stórikarl heitir einstakur og aðskilinn drangur frá bjarginu. Í honum er einn af fáum varpstöðum hafsúlunnar á Íslandi. Stuðlaberg er að minnsta kosti á einum stað undir bjarginu.
Skálar
Skálar er eyðiþorp á austanverðu Langanesi. Þar var löggiltur verslunarstaður 1895 og hét sá Þorsteinn Jónsson er þar hóf að versla og gera út. Þar var kominn vísir að kauptúni og töluvert útræði á fyrri hluta 20.aldar. Voru 117 manns heimilisfastir þar 1924 auk lausafólks. Leituðu menn þangað úr ýmsum landshlutum til sjóróðra og jafnvel frá Færeyjum. Munu 50-60 áraskip hafa róið þaðan er flest var. Flestar minjar þessarar verstöðvar eru nú horfnar nema helst húsgrunnar og gamall grafreitur. Sunnan við Skála er Skálabjarg, fuglabjarg , rúmlega 130 m hátt y. s.
Langanesfontur
Oftast kallaður Fontur í daglegu tali, er ysti hluti Langaness. Þar er allhátt bjarg, 50-70 m y.s. Á því stendur viti, fyrst reistur 1910, en núverandi viti er frá 1950. Við Font hafa orðið meiriháttar sjóslys, hið síðasta að hausti 1907. Þá fórst þar norskt skip,sem var að koma frá Jan Mayen með 17 manna áhöfn. Að skipinu hafði komið leki nokkru eftir að það fór frá Jan Mayen svo ákveðið var að leita hafnar á Íslandi. Ekki tókst betur til en svo að skipið strandaði yst við Langanes. Allir mennirnir fórust nema einn. Hann komst upp undir bjargið, hélst þar við í skúta um nóttina en gat klifrað upp á bjargbrún daginn eftir. Þótti það einstakt þrekvirki. Flest líkin fundust rekin undir bjarginu og voru þau dregin í festi upp á bjargbrún. Að því búnu voru þau flutt í Sauðanes og jörðuð þar í einni gröf.
Norðan í bjarginu og stutt frá vitanum er rauf í bergið sem kölluð er Engelskagjá. Sagt er að áhöfn af ensku skipi, sem strandaði endur fyrir löngu undir Fontinum, hafi komist í land og klöngrast upp gjána. Af því dregur hún nafn. En á leiðinni til bæja urðu allir mennirnir úti, örmögnuðust af vosbúð og þreytu nema skipstjórinn einn sem komst lífs af. Stendur enn kross milli bæjanna Skoruvíkur og Skála, þar sem talið er að lík mannanna hafi fundist. Eru þau þar grafin. En á krossinum stendur:" Hér hvíla 11 enskir menn ".