Starfsemin Ísfélagsins hér og þar
2. sept.2007
Starfsemi í frystihúsi Ísfélagsins í Vestmannaeyjum hófst aftur á mánudaginn eftir venjubundna sumarlokun. Fram að síldarvertíð verður keyrt á bolfiskvinnslu í frystihúsinu en á vertíðinni verður að venju fryst síld í húsinu. Í frystihúsinu á Þórshöfn var líka lokað megnið af ágúst en vinnsla á kúffiski hefst þarf aftur í byrjun september og verður unnið í honum fram eftir hausti.
Starfsemi í FES hefur verið með minnsta móti í sumar vegna mikilla endurbóta á tækjabúnaði og aðstöðu í verksmiðjunni. Áætluð verklok eru um miðjan október en þá ætti síldarvertíðin að vera rétt að hefjast. Undanfarnar vikur hefur verið brædd norsk-íslensk síld í bræðslunni á Þórshöfn og er búið að taka samtals á móti um 50.000 tonnum af hráefni frá áramótum.
Í byrjun september fær félagið fyrrum Þórunni Sveinsdóttur VE afhenta til rekstrar og fær hún nafnið Suðurey VE 12. Suðurey eldri fær nafnið Bjarnarey VE 25.
Ný Álsey VE 2 var afhent á Kanaríeyjum í byrjun ágúst. Eftir sandblástur og málun lagði hún af stað áleiðis heim til Vestmannaeyja síðastliðinn laugardag og er væntanleg til heimahafnar næstkomandi laugardagskvöld. Skipið verður til sýnis á sunnudag milli kl. 14:00 og 16:00.
Gamla Álsey eða Álsey II eins og hún heitir í dag og Antares VE verða afhent til kaupenda fljótlega upp úr mánaðamótum. Skipin fara bæði til veiða við strendur Afríku og reynast þau nýjum eigendum sínum vonandi happadrjúg.
Frá áramótum hefur félagið gengið í gegnum skipulagsbreytingar í kjölfar kaupanna á Hraðfrystistöð Þórshafnar hf og hefur skipafloti félagsins meðal annars breyst talsvert. Samþætting rekstrareininganna hefur gengið vel og hafa markmið félagsins með kaupunum á HÞ gengið eftir.
Reksturinn á fyrstu sex mánuðum ársins gekk ágætlega að teknu tilliti til óhagstæðrar gengisþróunar og versnandi aðstæðna á mjölmörkuðum á síðari hluta tímabilsins. Til viðbótar við þessar neikvæðu ytri aðstæður varð félagið fyrir mikilli skerðingu vegna minni úthlutunar á þorski á næsta fiskveiðiári. Alls skerðast samanlagðar aflaheimildir félaganna í bolfiski um rúm 1.000 þorskígildistonn en til samanburðar þá fylgdu um 900 þorskígildistonn af bolfiski með í kaupunum þegar Ísfélagið keypti Hraðfrystistöð Þórshafnar. Kvótaskerðingin jafngildir tekjusamdrætti upp á um 200 milljónir.