Þjóðsögur
Sagan segir að á mitt Langanes hafi hamar goðsins Þórs verið settur og höfn héraðsins nefnd eftir honum, Þórshöfn. Þórshöfn stendur við austanverðan Lónafjörð, innsta hluta Þistilfjarðar, við dálitla vík. Þar er frá náttúrunnar hendi allgóð bátalending og hlé fyrir norðan- og norðaustanátt, sem er aðal hafáttin á þessum slóðum. Þykir bæjarstæðið fara vel í landslaginu og mikið og fagurt útsýni að sjá yfir Þistilfjarðarflóann, sveitirnar, heiðarlöndin, Þistilfjarðarfjöllin, Langanesfjöllin og Íslandshaf .
Þjóðsögur
Stór hluti menningar okkar Íslendinga eru þjóðsögurnar. Þó að innihald nýrra sagna breytist í takt við tíðarandann, eins og lesa má í bókinni Kötturinn í örbylgjuofninum, þá lifa drauga- og álfasögurnar enn góðu lífi. Bakkafjörður er engin undantekning í þeim efnum og hér látum við flakka tvær þekktar sagnir úr sveitinni. Sú fyrri er um drauginn Tungubrest en sú seinni fjallar um beinakastið í Höfn.
Tungubrestur
Tungubrestur er, að öllum öðrum ólöstuðum, þekktasti draugsinn úr sveitinni og hefur sennilega lifað hvað lengst allra héðan, því fjöldi sveitunga hans sem enn eru á lífi kannast vel við kauða, sem kvað sér fyrst hljóðs um miðja 19. öldina. Uppruni stráksins er reyndar eitthvað á reiki en munnmælasögur hér í sveit segja m.a. að Tungubrestur hafi verið vinnumaður eða niðursetningur hjá Páli þeim sem hann hefur jafnan verið fyrst kenndur við, sem hafi hlotið það illa meðferð hjá honum að hún hafi dregið hann til dauða á einhvern hátt. Hann hafi eftir það ofsótt Pál og fylgt honum í Kverkártungu. Þar virðist strákurinn allavega hafa kunnað vel við sig því eftir að Páll flúði þaðan fylgdi Tungubrestur öðrum ábúendum Kverkártungu og er síðan kenndur við hana. Tungubrestur hefur verið mesta meinleysisgrey því engar sagnir eru til um það að hann hafi gert þeim mein sem hann fylgdi eða þeim sem hans hafa orðið varir, þ.e.a.s. eftir að hann hætti að angra Pál sjálfan. Þess má geta að enginn hefur séð Tungubrest því hann gerir einungis vart við sig með hljóðum, einhvers konar smellum, höggum eða brestum og þaðan er nafnið komið. Sumir hafa lýst hljóðinu þannig að það sé eins og þegar dropar falla í stálvask.
Í bókinni Gráskinna hin meiri II er talað um að í Kverkártungu hafi búið Páll nokkur bókbindari, ættaður úr Þingeyjarsýslu eða lengra að. Hann hafi viljað hefna bróður síns sem talið var að hefði látist af manna völdum og vakið upp draug. En fyrir mistök eða kunnáttuleysi Páls hafi draugurinn snúist gegn honum.
Þannig er sagt frá Tungubresti í Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri sem tekin er saman af Jóni Árnasyni (Yfirleitt talað um þjóðsögur Jóns Árnasonar) : Í hittiðfyrra (sagan er rituð 1862) var þannig varið að á Kverkártungu var tvíbýli; hét annar bóndinn Stefán Hansson, kominn úr Skagafirði, en hinn Páll Pálsson bókbindari. Á þorra flosnaði Stefán upp og var tekinn þaðan með öllu, en nokkru fyrr hafði Páll bágra kringumstæða vegan látið konu sína á annan bæ og börnin og var því orðinn einn eftir á bænum.
Á þorraþrælinn vildi svo til að Páll var að taka hey í kumli. Heyrði hann þá högg úti sem hann ætlaði í fyrstu að væri misheyrn, en þegar hann heyrði að það var ekki, ímyndaði hann sér að hestar væru að berjast í hesthúsi sem þar var. Þegar hann kom út heyrði hann ekkert. Sama kvöldið eða litlu síðar heyrði hann barið ofan í baðstofuna og upp frá því það sem eftir var vetrarins heyrðist þetta öðru hvoru nótt og dag. Annað veifið heyrðust inni um leið og höggin úti brestir líkt og þegar votar spýtur brenna; þetta var allt í kringum hann. Einu sinni sat hann t.d. á stól; heyrðist honum það vera undir stólnum. Af þessu fór svo að hann varð svo hræddur að hann þorði varla eða ekki að sofna. Bráðum fékk hann sér mann af öðrum bæjum til þess að hann gæti sofnað og eins til að komast eftir hvað þetta væri, en það tókst ekki. Maðurinn var þar tvær eða þrjár nætur í senn, nokkuð hugarhress þó eitthvað ábjátaði. Einu sinni var hann inni hjá Páli um dag og var heldur kalt. Sagði þá Páll við hann: Máske þú viljir fara fram í dyr og mala ögn þér til hita? Þetta gjörði hann, en þegar hann var farinn að mala kom högg í þil sem var innan við kvörnina. Þá sagði maðurinn: Berðu, bölvaður. En hvort sem það hefur verið af hlýðni eða þykkju lét draugsi ekki segja sér þetta tvisvar; hann fór að berja, og það svo óþyrmilega að manninum þókti [nóg] um og hætti malverkinu. Í öðru sinni var sami maður inni hjá Páli um eða eftir dagsetur. Heyrðu þeir þá að barið var ofan í baðstofuna. Þá sagði aðkomumaðurinn: Berðu nú. Draugsi gerði þegar í stað eins og honum var sagt og danglaði til miðnættis hér um bil. Svo var hann þá þunghöggur að allt skalf undir og rúmið sem á var setið þókti hristast. Þó fór hann næst um það að brjóta ekki og ekki láta bresta í viðum hússins.
.............Hér á milli koma meiri frásagnir af látum í kringum Pál og nokkrum skiptum sem Tungubrestur gerir vart við sig á öðrum bæjum............Á mörgum bæjum þar sem Páll hefir komið þykjast menn lítils eða einskis verða varir; helzt hefir það viljað til í Miðfirði. Seinast var það nú fyrir skemmstu að tvö högg afar mikil heyrðust um nótt svo allt fólk fullorðið hrökk upp af svefni. Heyrði það þá litlu síðar tvö mikið minni. Um morguninn kom tengdafaðir Páls frá Gunnarsstöðum. Þetta er víst stórkostlegasta athöfn draugsa síðan fyrsta veturinn þegar hann tók til spánnýr og ólúinn nema ef vera skyldi af ferðaslarki um hávetur.
Jón Illugason hefir þannig sagt frá tildrögunum til þessarar sögu: Það er að sönnu ekki þörf að greina frá tilgátum þeim sem um þetta eru. Sumir hafa sagt það væri ekkert annað en einhver maður, aðrir að það mundi vera sending og Páll hafi sagt sér mundi helzt hafa verið ætlað þetta. Mér sagði hann frá að tvisvar hefði þetta komizt nærri sér í svefni. Í öðru sinni svaf hann fyrir framan mann og sagðist hann hafa sofnað athugalaust. Hefði hann þá heyrt brestina gegnum svefninn, en þegar hann hefði getað vaknað hefði það verið fast við rúmbríkina hjá andlitinu á sér. Öðru sinni hefði hann sofnað með sama hætti fyrir ofan mann og þá hefði sér fundizt líkt og tekið væri utan að barkanum báðumegin og hann ei ætlað að ná andanum.
Seinast ætla ég að minnast á eina getu: Hann fékk sama daginn og hann varð þessa fyrst var bréf austan úr sveitum er sagði lát föður hans. Nóttina rétt áður dreymdi pilt, meina ég í Seli, að til sín kæmi strákur sem sagðist ætla að finna Pál. Ég man ekki meira af draumnum, en víst er að hann er sannur; pilturinn er greindur og að öllu leyti vandaður. Páll faðir Páls þessa bjó fyrir eina tíð í Eyjafirði; hann átti auk Páls annan son til. Þeir voru báðir á mis Sigurði nokkrum til fjárgeymslu um sumartíma, sína vikuna hver. Einn sunnudag sat bróðir Páls yfir og átti von á lausn um kvöldið, en Páll kom ekki svo drengurinn mátti aftur fara angraður með ánum til að sitja yfir þeim um nóttina. Hleypti hann þeim þá í nes eitt sem átti að verja fyrir skepnum sem engi. Kom þá Sigurður frá kirkju og var honum sagt þetta, en hann fór á stað í bræði. Stefán nokkur sem þar var fór litlu síðar að vitja um. Þeir komu báðir aftur Sigurður og Stefán, en pilturinn hefir ei sézt síðan og var hans þó leitað rækilega.
Þessi saga mun mörgum kunn í Eyjafirði og er hún greinilegri til en þetta. Geta nokkrir til að þetta muni af þeim rótum runnið; þar legg ég ekkert til.
Samkvæmt þessu síðasta hefur Tungubrestur verið bróðir Páls Pálssonar en hver sannleikurinn um uppruna hans raunverulega er mun sjálfsagt aldrei koma í ljós.......Hvað heldur þú??
Nútíma draugasaga
Þegar verið var að setja söguna um Tungubrest inn í ritvinnsluna þá fraus tölvan sem verið var að vinna á í miðjum klíðum. Það væri nú ekki í frásögur færandi nema fyrir það að skjárinn varð blóðrauður þegar hún fraus! Þá var slökkt á tölvunni og kveikt aftur en skjárinn virkaði ekki fyrr en nokkrum tímum seinna!
Beinakastið í Höfn
Gráskinna hin meiri I. Bókaútgáfan Þjóðsaga. 1979:
Það bar til í Höfn við Bakkafjörð, kvöld eitt í fyrstu viku jólaföstu, veturinn 1868 69, er fólk hafði lagt sig út af til rökkursvefns eins og víða tíðkaðist á bæjum á þeim árum að hundar ruku upp með gelti miklu og hlupu suður tún; bjuggust menn því við gestkomu og fóru að líta út í stafnglugga baðstofunnar, þann er vissi í suður. Tungl var að mestu fullt þetta kvöld, en skýjafar mikið í lofti; sást því mjög glöggt til hundanna annað kastið, en svo skyggði að á milli. Sást til hundanna alla leið suður fyrir túngarð og fram á veg, og fóru þeir geyst með látlausu gelti og urri, en smáþokuðust svo heim aftur, með sömu ólátunum, og sagði faðir minn sál., sem var einn af sjónarvottunum, að aðfarir þeirra hefði verið líkastar því, er þeir standa framan í stórgripum, hlaupa þetta sitt á hvað, en verða þó að hörfa undan. Færðist svo leikur þessi smám saman heim túnið aftur, alla leið heim á hlað, og hættu þeir þá gelti öllu og ólátum, en enginn sást gesturinn koma, og þótti fólki þetta hálfkynlegt. Var þá liðinn rökkursetutíminn, og var farið að kveikja ljós og hefja tóvinnu, eins og þá var títt.
Eldhússtúlkan, Ingveldur að nafni, hafði verið að störfum frammi í eldhúsi; kemur þá inn með fasi miklu og biður karlmenn koma fram, því að einhverjir muni vera komnir, er vilji hræða sig, því að nú sé í óða önn verið að kasta hvalbeinum inn um eldhússtrompinn. Um þessar mundir var von á tveimur bændum, heyásetningarmönnum; voru það gamansamir náungar, sérstaklega annar þeirra, Jón Bergvinsson að nafni. Taldi fólkið nú sjálfsagt, að þeir hefði komið, þegar hundarnir þutu upp, og myndi þeir hafa skotizt heim að bænum, þó að fólk sæi þá ekki, einhverju sinni, er ský dró fyrir tunglið og skugga bar á túnið, og var þeim vel trúðað til að hefja þessar glettingar, og var talið líklegt, að þeir héldi til uppi í sundum milli bæjarhúsanna.
Þeir fóru svo fram, Gunnar bóndi, faðir minn og einhverjir fleiri, til að heilsa upp á glettingamenn þessa. Er þeir komu í eldhúsið, sáu þeir, að saga eldabusku var sönn, því að enn var verið að kasta beinum niður um strompinn. Fóru þeir þá út og upp á bæinn og hugðust að finna bændur þessa, enda þótt nú væri algjörlega dregið fyrir tungl, því að mjög hafði þoku borið í loft á síðustu stundu. En engan mann gátu þeir fundið á bænum, og taldi Gunnar bóndi þá líklegt, að þeir myndi hafa orðið þeirra varir og hafa skotizt inn í Austurbæ, sem kallaður var og þá var í eyði, og myndi þeir svo ætla að hefja þaðan atlögu aftur. Hyggst því Gunnar að launa þeim lambið gráa og sækir nú vatn í fötu, fer upp á Austurbæjar-dyramæninn og sezt þar og ætlar að demba yfir þá vatninu, er þeir komi út. En ekki hefur hann setið þar nema litla stund, þá er honum sagt heiman úr bænum, að nú sé aftur farið að kasta inn um strompinn, og hljóti sökudólgarnir því að vera uppi á bænum. Fer hann því enn og tveir aðrir að leita betur á bænum, því að enn þá héldu menn fastlega, að þetta væri af manna völdum, en fundu ekkert sem fyrr. En með því nú var orðið mjög dimmt úti, var ekki talið óhugsandi, að þeir leyndist einhvers staðar, þó að þeir fyndist ekki. Hleður því Gunnar byssu sína með púðurskoti, fer inn í eldhús og kallar út, að nú skuli þeir vara sig, því að nú skjóti hann út um strompinn. En í sama bili og skotið reið af, var kastað inn beini, og virtist þá beinahríðin magnast um tíma á eftir. Fóru þá tveir menn enn upp á bæinn og stóðu sinn hvorum megin við strompinn, en þegar beinakastið viðhélzt enn, þó að mennirnir stæði þar, sáu menn, að hér var eitthvað það á ferðinni, sem ekki varð útskýrt eða skilið á eðlilegan hátt, og gáfust menn því upp við frekari rannsóknir.
Beinakast þetta varaði svo allt fram á einmánuð, en þá tók fyrir það eins skyndilega og þess varð fyrst vart. Allan þennan tíma bar meira og minna á þessu á hverjum sólarhring, þó mjög misjafnlega mikið. Langmest brögð, sagði faðir minn, hefði verið að þessu þrjú kvöld um veturinn. Kvöldið, sem það byrjaði, svo í annað skipti rétt fyrir jólin; þá sagði hann áður nefnd Ingveldur hefði ekki haldizt við frammi, fyrir hræðslu sakir. Það kvöld var krapahríðarveður, en flest beinin, sem inn var kastað, voru þurr, og þótti það mjög kynlegt, því að líklegt var talið, að beinin væri tekin í svo kölluðum Öskubakka utan við bæinn þangað var þeim alltaf hent út úr eldhúshlóðunum en þar hlutu þau auðvitað að vera blaut í slíku veðri. Þriðja skiptið, seint á góunni, voru álíka mikil brögð að beinakastinu eins og í hin tvö skiptin, og flúði Ingveldur þá einnig eldhúsið. Mest virtist mönum bera á þessu, þegar þessi stúlka var í eldhúsinu, og einu sinni að kvöldlagi í myrkri, er hún var að bera matarílát frá búri til baðstofu, var kastað þéttfast í bakið á henni frosnum moldarhnaus framan úr bæjardyrunum, er hún var á leið til baðstofu. Var álitið, að það hefði staðið í sambandi við beinakastið, því að þar gat engum manni verið um að kenna. Talaði þá húsmóðirin, Katrín sál. amma mín, þungum ávítunarorðum til þess eða þeirra, er þessa væri valdandi, og fyrirbauð, að slíkt kæmi fyrir aftur, enda varð þess ekki vart nema í þetta eina sinn. Öldruð húsmennskukona, Guðbjörg að nafni, átti heima í Höfn, er þetta gerðist, mjög einbeitt og skapmikil kona, og var það eitt af því undarlega við þetta allt, að aldrei var kastað beinum, ef hún var stödd í eldhúsi; annars horfðu allir heimamenn á beinakastið, og það oft og mörgum sinnum, og fjölda margir aðkomumenn, því að í Höfn hefur alla jafna verið gestkvæmt, og ekki varð þetta til þess að draga úr aðstreyminu, því að marga fýsti að kynnast þessu af eigin sjón. En allir fóru jafnófróðir um það, hvað þetta væri. En helzt mun þetta hafa verið eignað huldufólki, af öllum þeim, sem annars trúðu því, að það væri til. 1
1 Haustið 1868 dreymdi Ingveldi, sem var eldhússtúlka í Höfn, að henni þykir koma til sín kona og biðja hana að sjá til, að drengur, sem Ingveldur átti, þá 8 ára gamall, hætti að kasta steinum í klett, sem er fyrir sunnan túnið í Höfn. Konan sagði Ingveldi, að það væri bærinn sinn, og sonur hennar bryti glugga og gerði sér ýmsan skaða og ónæði með grjótkasti þessu. Dreymdi Ingveldi þennan sama draum nokkurum sinnum, an aðvaraði drenginn ekki neitt, og hélt hann áfram leik þessum. En litlu síðar hófst beinakastið, og varð Ingveldur mest fyrir því. Var álitið, að það væri hefnd frá draumkonunni. (Viðbót Sigurðar Bjarnasonar, eftir sögnum í Höfn, sem Gunnlaugur bendir til í niðurlagi sögu sinnar.)
Sögur þessar (innsk. ritara: Einnig Andlát Björns) eru skrásettar af Gunnlaugi A. Jónssyni, verzlunarstjóra í Höfn við Bakkafjörð, eftir tilmælum fróðleiksmannsins Sigurðar Bjarnasonar frá Snæbjarnarstöðum í Fnjóskadal (nú til heimilis á Grund í Eyjafirði), er hann fekk þær mér í hendur. Gunnlaugur hefur sögurnar frá föður sínum, Jóni Sigurðssyni, bónda í Höfn. S.N.