Fara í efni

Djúpilækur

Bærinn Djúpilækur sem nú er eyðibýli er á Langanesströndinni í Bakkafirði. Við bæinn stendur minnisvarði um Kristján skáld frá Djúpalæk (1916-1994) en hann fæddist þar og ólst upp, í torfbænum sem var við hliðina á steinhúsinu. Kristján var í hópi þekktustu ljóðskálda Íslands á sinni tíð, óvenjulegur persónuleiki, margslunginn og dáður.
Hann samdi ljóð, dægurlagatexta og þýddi ljóðin úr leikritum eins og Kardemommubænum og Dýrunum í Hálsaskógi. Dægurlagatexti eftir Kristján sem margir kannast eflaust við er t.d. textinn við Vor í Vaglaskógi.

Áningarstaður og minnisvarði um Kristján er við Djúpalæk. Þar eru borð og bekkir og huggulegt að setjast niður, einnig er fallegt að ganga niður að ósi. Steinarnir þrír í minnisvarðanum tákna "fegurð, gleði og frið" sem eru lokaorðin í ljóðinu Mitt faðirvor eftir Kristján. Ljóðin sem eru á minnisvarðanum er einmitt Mitt faðirvor og Strengir úr barnasögunni um músina Pílu Pínu.