Stóri Karl og útsýnispallur
Á Skoruvíkurbjargi er einstakur útsýnispallur staðsettur þar sem sjá má yfir klettadranginn Stóra Karl en þar er fágætt súluvarp. Þar má einnig sjá fjölda bjargfugla í návígi eins og álku, langvíu, stuttnefju og lunda. Í maí má jafnvel sjá bjargsigsmenn við eggjatínslu. Hér áður fyrr var það mikilvæg björg í bú að geta sótt sér fugl og egg í sjávarbjörgin.
Útsýnispallurinn var vígður árið 2014 og hlaut nafnið Járnkarlinn. Hann stendur út af bjarginu, traustbyggður og býður ferðafólk velkomið. Frá Þórshöfn tekur um 45 mínútur að keyra að pallinum. Athugið að vegurinn er ekki fyrir litla bíla.