Fara í efni

Kirkjan

Á Skeggjastöðum við Bakkafjörð á Langanesströnd stendur elsta kirkja Austurlands, reist árið 1845.

Árið 1995 kom út bókin Skeggjastaðir: Kirkja og prestar eftir sr. Sigmar I. Torfason, sem þjónaði á Skeggjastöðum frá 1944-1988, lengst allra presta þar. Bókin er í raun saga Skeggjastaða frá öndverðut til okkar daga. Taldar upp kirkjur sem þar hafa verið byggðar og heimildir eru til um. Í bókinni er einnig prestatal Skeggjastaða og ítarlega rakin æviatriði þeirra presta sem setið hafa staðinn, eftir því sem heimildir entust, en ljóst er að Sigmar hefur verið ötull við að finna þær og safna saman. Prestatalið hér á síðunni byggir nær alfarið á samantekt Sigmars en einnig á íslenzkum æviskrám. Í umfjöllun um kirkjuna er sömuleiðiseinkum stuðst við bók Sigmars. Þeir sem vilja kynna sér nánar sögu staðarins og æviatriði einstakra presta sem þar sátu er bent á hina 200 blaðsíðna bók Sigmars.

Skeggjastaðaprestakall er vegna legu sinnar númer eitt í Skálholtsstifti og er talið frá því réttsælis suður á land yfir í Hólastifti alla leið til Þórshafnar. Erfitt er að segja til um hvenær saga Skeggjastaðakirkju byrjar. Líklegt er að kirkja hafi verið á Skeggjastöðum allt frá því eftir kristnitöku árið 1000. Jörðin er landnámsjörð og í landnámi Hróðgeirs hvíta Hrappssonar. Séra Sigmar Torfason, sá prestur sem lengst gegndi prestþjónustu á Skeggjastöðum, taldi að Hróðgeir hvíti hafi verið kristinn maður og færa mætti fyrir því ýmis rök. Fátt segir hins vegar frá sögu kirkju á Skeggjastöðum í öndverðu, því lítið er um heimildir. Í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá 1200 er kirkju á Skeggjastöðum getið og er það líklega elsta heimild um kirkju á Skeggjastöðum.

Næst er getið um kirkju á Skeggjastöðum á Langanesströnd í svonefndum Oddgeirsmáldaga, sem er frá árinu 1367. Hann ber að þakka Oddgeiri Skálholtsbiskup Þorsteinssyni. Oddgeir var erlendur maður. Hann var fyrstur þeirra sem kunnugt er að hafi gefið til Skeggjastaðakirkju, en máldaginn segir hann hafa gefið kirkjunni 6 ær. Í máldaganum eru eignir Skeggjastaðakirkju raktar. Er þar m.a. nefnt Þorlákslíkneski, en kirkjan var helguð Þorláki helga biskupi í Skálholti. Árið 1984 útnefndi páfi Þorlák helga verndardýrlíng alls Íslands.

Sr. Björn Jörundarson, fyrir 1496

Björn er fyrsti einstaklingurinn sem heimildir herma að hafi mögulega verið prestur á Skeggjastöðum, þá væntanlega kaþólskur. Heimildir segja ekki beinlínis að hann hafi verið prestur þar, en hann er sagður hafa verið bóndi þar og átt 7/8 hluta jarðarinnar. Því er erfitt að fullyrða um prestþjónustu hans. Heimildir segja að systir hans, Kristín Jörundardóttir hafi erft jörðina eftir hann, en hún mun hafa verið auðug. Hún gaf hana Jóni djákna Jónsssyni. Jörðin mun hafa farið mjög illa meðan hún var í eigu djákans, fé og ræktun eyðst.

Sr. Pétur Freysteinsson, 1591-1594

Ekkert er vitað um ætt eða uppruna og lítið um æviferil. Hann er a.m.k. orðinn prestur á Skeggjastöðum árið 1591, en virðist fara yfir á Refsstað í Vopnafirði árið 1594 og skipta þannig við Sturlu Finnbogason á embætti. Í harðindunum 1602 missti hann allt sem Refsstaður átti og gaf. Mun hann þá hafa farið að Ási í Fellum, verið þar til 1606 og síðan verið prestur að Skriðuklaustri til 1622. Síðan uppgjafaprestur árið 1635. Dáinn fyrir 1637.

Sr. Sturla Finnbogason, 1594-1601

Ekkert er vitað um ætt eða uppruna og lítið um æviferil. Líklega fæddur á Hofi í Vopnafirði og dáinn á Skeggjstöðum. Skipti á brauði við sr. Pétur Freysteinsson, svo sem rakið er, en vandsvarað hvað olli því að þeir skiptu á embættum. Mögulega réð frændsemi sr. Péturs við biskupinn Odd Einarsson, en Refsstaður þótti betri staður. Frá tíð sr. Sturlu á Skeggjastöðum segir lítið annað en það að í hans tíð gekk Skoruvík undan prestakallinu. Það var síðar leiðrétt með dómi Brynjólfs biskups Sveinssonar.

 

 

Kirkjan er líklega bændakirkja og staðurinn í bændaeign fram yfir 1500, a.m.k. að 7/8 hlutum og átti kirkjan sjálf 1/8 hluta jarðarinnar. Rétt fyrir aldamótin mun hafa dáið þar Björn prestur Jörundarson í plágunni miklu 1495 þeirri síðari. Líklegt er að hann hafi verið prestur þar. Kristín Jörundardóttir, systir hans, erfði jörðina, en hún var forrík kona. Kristín gaf Jóni nokkrum Jónssyni jörðina en mun ekki hafa rætt þá gjöf við mann sinn, svo sem skylt var. Jón þessi var á Skeggjastöðum um 1500. Hann var hinn mesti óreiðumaður og átti í einhverju frændsemis og mægðaspelli. Hann komst í miklar skuldir við Hóladómkirkju og kirkjuna, sem hann gat ekki greitt. Ekki höfðu verið greidd lögboðin gjöld af jörðinni til kirkjunnar. Varð Jón að láta jörðina upp í skuld við Hóla, en þá var þar biskup Gottskálk hinn grimmi Nikulásson.

Jón fór síðan suður í Skálholt og gaf Skálholti einnig staðinn, en með því skilyrði að hann fengi að vígjast þangað og „bliva“ kennimaður með réttu. Ekki liggur fyrir hvort af því varð. Hitt liggur fyrir, að hafið var mál til að skera úr um hver ætti Skeggjastaði. Hinn 28. júní 1504 var útnefndur dómur til að skoða afl tilkalls og ákæru Stefáns biskups í Skálholti til Skeggjastaða á Ströndum. Fyrst kom fyrir dómendur vitnisburður tveggja presta um að þeir hafi verið viðstaddir fund Jóns djákna Jónssonar príorsbróður og Stefáns biskups. Þar tilkynnti Jón biskupi að hann hafði heitið og lofað guði að Skeggjastaðir skyldu vera ævinlegt beneficium og undirgefið Skálholtskirkju og heilögum Þorláki nú og að aldaöðli en hann mætti sitja staðinn og þjóna kirkjunni til dauðadags. Þetta var samþykkt af Stefáni biskupi. Næst kom fyrir dómsmenn vitnisburður skjallegra dándimanna um að Runólfur Jónsson hafi gefið Stefáni biskupi Skeggjastaði til ævinlegrar eignar og frjáls forræðis með samþykki konu sinnar Kristínar Jörundsdóttur sem hafði erft jörðina eftir skilgetinn bróður sinn. Að lokum var lagður fyrir dóminn vitnisburður skilvísra dándimanna um að Skeggjastaðir væru í eyði og að þar væri enginn ábúnaður á. Að þessu yfirveguðu voru Skeggjastaðir dæmdir í í vernd og forsjá Stefáns biskups. Nánar segir af þessu máli og aðdraganda þess í áðurnefndri bók Sigmars Torfasonar.

 

Sr. Pétur Hallsson, 1602-1618

Ekki er vitað nákvæmlega um fæðingarár, en hann er líklega dáinn á Skeggjastöðum 1618. Nokkuð er vitað um ætt hans, m.a. var hálfbróðir hans hertekinn af Tyrkjum (alsírskum sjóræningjum) 1627. Talið er að sr. Pétur hafi verið í Görðum á Álftanesi áður en hann tók vígslu. Engum sögum fer af prestskaparárum hans á Skeggjastöðum, nema 1611 og 1613 greiðir hann sektir fyrir þrenn lausaleiksbrot. Hann virðist hafa verið ókvæntur, en þrjár dætur hans hafa verið nafngreindar.

Sr. Jón Runólfsson, 1618-1626

Talinn fæddur um 1584 og dáinn tæplega öld síðar, árið 1682. Önnur heimild segir hann hafa orðið 102 ára. Ekkert er vitað um prestverk hans á Skeggjastöðum þau átta ár sem hann þjónaði þar. Hann kom ókvæntur til Skeggjastaða en gekk að eiga Sigríði Einarsdóttur frá Eyrarlandi árið 1618. Þau eignðust þrjú börn, en Sigríður lést árið 1623. Frá Skeggjastöðum fór Jón til Svalbarðssóknar í Þistilfirði og var þar prestur til 1650. Hann varð sprestur í Munkaþverárklausturs-prestakalli og síðar prófastur. Börnum Jóns farnaðist öllum vel í lífinu.

Sr. Marteinn Jónsson (fyrri), 1627-1660

Ekki hafa fundist heimildir um fæðingarár eða stað Marteins, en hann er talinn dáinn að Skeggjastöðum 1660. Tekur við prestakallinu af Jóni Runólfssyni. Marteinn sat staðinn í 33 ár, þrátt fyrir að hann væri alls ekki talinn með þeim eftirsóknarverðari í landinu. Marteinn er í þjóðsögum talinn fjölkunnugur, en einungis framkvæmt "hvítagaldur", þ.e.a.s. til góðs. Hann er þannig sagður hafa afstýrt ógurlegum músafaraldri Miðfirði með því að syngja messu á Messumel við Miðfjörð. Einnig að hann færi gandreið yfir Bakkaflóa til að messa á Skálum.

Sr. Jón Marteinsson, 1660-1691

Sonur sr. Marteins Jónssonar. Ekki er vissa um fæðingarár Jóns, en hann þjónaði sem aðstoðarprestur föður síns meðan sá lifði. Hann þjónaði í 31 ár sem prestur. Jón fékk byggingabréf árið 1654 fyrir jörðina Höfn í Bakkafirði og gerðist þar leiguliði á hálfri jörðinni, þeim helmingi er Brynjólfur biskup Sveinsson átti. Þá var hann enn aðstoðarprestur. Líklega hefur Jóni þótt þröngt um sig á Skeggjastöðum, en ekki er þó vitað um fjölskylduhagi hans. Líklega bjó hann 6-7 ár í Höfn og tekið við Skeggjastöðum á fardögum 1661, eftir að faðir hans andaðist.

Sr. Marteinn Jónsson (síðari), 1691-1729

Sonur sr. Jóns Marteinssonar og barnabarn sr. Marteins fyrri. Er hann lést höfðu feðgarnir þrír setið staðinn í 102 ár samtals. Marteinn telst fæddur 1661 og deyr á Skeggjastöðum. Minna er vitað um Martein síðari og prestverk hans heldur en föður hans og afa. Eitt af því sem veldur er að þá var Brynjólfur biskup Sveinsson dáinn, en hann var nákvæmur skjalasafnari. Í tíð eftirmanns Brynjólfs voru allar kirkjur á Austurlandi vísiteraðar, utan kirkjunnar á Skeggjastöðum. Marteinn og eiginkona hans eignuðust eina dóttur, en ekki er vitað mikið um hana.

Sr. Sigurður Ketilsson, 1729-1730

Fæddur á Svalbarði í Þistilfirði um 1689, dáinn á Skeggjstöðum. Aðstoðarprestur á Hofi í Vopnafirði, bjó þar á Ljótsstöðum. Sótti um á Skeggjastöðum eftir sr. Martein og fékk brauðið. Fyrsta ár hans þar er ekki til frásagna, en næsta árið syrtir að. Sr. Sigurður andast í desember 1730, rúmlega fertugur. Hann lætur eftir sig eiginkonu og þrjá syni, sem flytjast burt af staðnum árið eftir, en ekkjur fengu svonefnt "náðarár" eftir lát eiginmanna sinna í embætti. Sigurður var skáld gott og orti bæði á íslensku og latínu.

 

 

Um 1500 og fram til 1600 er lítið vitað um sögu kirkjunnar. Nöfn presta frá þessum tíma eru til en ekki fer miklum sögum af störfum þeirra eða ævi. Þeir sem setið hafa staðinn eru eins misjafnir og þeir eru margir. Séra Marteinn Jónsson, er sat staðinn á tímum Tyrkjaránsins, var talinn göldróttur og hafi lagt við í stein í Stapavík og farið beint yfir Bakkaflóann til að messa á Skálum. Frá 1731 til 1768 var prestur á Skeggjastöðum Sigurður Eiríksson, en hann reisti fyrstu torfkirkjuna sem lýsing er til um og stóð sú kirkja fram til 1800. Árið 1775 flosnaði upp á jörðinni sr. Jón Brynjólfsson og kom hann allslaus í Skálholt. Hannes biskup kallaði hann hinn „aumasta prest á Íslandi og vesælastan í heimi“. Í tíð sr. Skafta Skaftasonar um 1800 var aftur byggð upp torfkirkja og í þriðja sinn 1823.

 

Sr. Sigurður Eiríksson, 1731-1768

Sigurður telst fæddur árið 1706 og deyr á Skeggjastöðum í embætti. Var stúdent frá Hólum. Réðst austur að Burstafelli í vinnu hjá Birni Péturssyni bónda árið 1730. Sama ár deyr Sigurður Ketilsson óvænt á Skeggjastöðum. Tveimur mánuðum síðar fær nafni hans Eiríksson Skeggjastaði. Gerðist það því furðufljótt. Sigurður þjónaði lengi á Skeggjastöðum, við misjafnan orðstír. Hætti þremur mánuðum fyrir andlát sitt. Kom þar til heilsuleysi hans, en einnig ákæra fyrir að versla við hollenskan skipstjóra, sem var bannað.

Sr. Jón Brynjólfsson, 1768-1776

Talinn fæddur um 1735 á Suðurlandi. Deyr um 1800. Fyrst prestur að Hjaltastað frá 1760. Ekki fer sögum af honum þar, en árið 1768 fékk hann Skeggjastaði. Ekki er vitað hvers vegna hann flutti sig um set. Stór harðindi urðu í Múlasýslu vorið 1774 og talið er að sr. Jón hafi flosnað upp af jörðinni vegna fátæktar og harðinda. Eftir það dvaldist hann víða, fékk viðurnefnið "20 býla Brynki." Bjó síðast á Ormsstöðum, hjáleigu frá Eiðum. Börn hans eru sögð hafa verið 13, en 10 hafa verið nafngreind.

Sr. Sigurður Vigfússon, 1776-1791

Sr. Sigurður tekur við Skeggjastöðum sama ár og Bandríki Norður-Ameríku lýsa yfir sjálfstæði. Hann er talinn fæddur 1749 á Grenjaðarstað. Útskrifaður stúdent úr Skálholtsskóla, er djákn í Odda og fær Skeggjastaði 1776. Er þar prestur í 15 ár, fram yfir móðuharðindin. Árið 1784 var mikið manndauðaár í Skeggjastaðasókn. Kvænist árið 1790 Guðrúnu Eymundsdóttur frá Skálum. Flutti sig að Hofi í Álftafirði 1791 og þjónaði þar til dauðadags 16. maí 1798, talinn hafa dáið úr ofdrykkju. Hagmæltur og eftir hann hafa varðveist ljóð og vísur.

Sr. Skafti Skaftason, 1792-1804

Sr. Skapti tók við eftir að prestlaust hafði verið á Skeggjastöðum í rúmlega ár. Fæddist 1761 á Hofi í Vopnafirði. Vígðist fljótlega eftir stúdent til Skeggjastaða tæplega þrítugur. Dæmdur frá prestskap 1797 fyrir of bráða barneign með konu sinni, en með konungsúrskurði síðar fékk hann að halda embættinu. Byggði nýja kirkju og endurbyggði öll staðarhús. Sat staðinn með mestu prýði og var talinn í góðum efnum. Lifði rúm 8 ár í hjónabandi, en dó úr gulu í nóvember 1804. Lét eftir sig fjögur börn.

Sr. Stefán Þorsteinsson, 1805-1816

Fæddur 9.10.1778 á Brúnum í Aðaldælahreppi. Dáinn 12.2.1846 á Völlum í Svarfaðadal. Er djákni á Grenjaðastað og fær Skeggjastaði sem prestur 1805. Hann og Guðrún, ekkja sr. Skapta sem sat staðinn á undan, voru systrabörn. Stefán gekk samt að eiga Guðrúnu og eignuðust þau fjögur börn saman. Sækir um prestsembætti að Völlum í Svarfaðadal og fær 1815. Stefán var faðir Skapta Timotheusar Stefánssonar, sem drukknaði vofeiflega í Kaupmannahöfn. Skapti, líklega var fæddur að Skeggjastöðum, var afburða námsmaður og stóð framar Jóni Sigurðssyni forseta sem leiðtogaefni.

Sr. Jón Guðmundsson, 1816-1828

Fæddur 3.2.1786 í Eyjafirði. Dáinn 30.4.1866 á Kleppjárnsstöðum í N-Múlasýslu. Er í námi fyrir sunnan. Fer 1811 norður að Grenjaðastað og gerist djákni. Sækir 1815 um Skeggjastaði þegar sr. Stefán hættir og fær embættið. Gengur í hjónaband 1816 með Margréti Stefánsdóttur prests á Sauðanesi Einarssonar. Byggði síðustu torfkirkjuna á Skeggjastöðum 1823. Fær veitingu fyrir Hjaltastað 1827 og flytur þangað árið eftir. Var prestur þar í 28 ár og lét þar af prestskap sjötugur að aldri, árið 1856. Margt hefur varðveist af kveðskap hans.

 

 

Árið 1838 kom í Skeggjastaði Hóseas Árnason til að taka við embætti. Á þessum tímum áttu söfnuðir ekki kirkjurnar, heldur varð presturinn að endurreisa kirkjur þegar við lá, en hann tók við öllum tekjum. Sr. Hósas virðist hafa farið að huga fljótlega að kirkjubyggingu og í þetta skiptið ekki torfkirkju heldur timburkirkju. Hann skrifaði biskupi eftir fjárstyrk „svo kirkjan mætti verða varanleg og guðsþjónustu samboðin“. Biskup svaraði hins vegar, að það yrði að vera komið undir tekjum Hóseasar hvort kirkjan yrði byggð af torfi eða timbri. Sr. Hósas valdi síðari kostinn. Hins vegar gekk illa að fjármagna framkvæmdina, þótt víða hefði verið leitað. Sóknarbörn munu ekki hafa stutt kirkjuna, ekki einu sinni Þorsteinn ríki á Bakka, sem var stórauðugur maður. Hins vegar er ljóst að presturinn á Hofi í Vopnafirði, Guttormur Þorsteinsson sem þá var orðinn blindur en gengdi enn þjónustu, studdi verkið með ráðum og dáð. Hofskirkja átti þá Skoruvík á Langanesi. Sr. Guttormur gaf úr Skoruvík nánast allan rekavið sem notaður var í bygginguna.

Samkvæmt heimildum Sigmars Torfasonar virðast kirkjusmiðir hafa verið á vegum Ólafs Briem á Grund í Eyjafirði, en heyrst hefur að hann hafi teiknað kirkjuna. Yfirsmiður var Guðjón snikkari Jónsson frá Akureyri. Við endurnýjun kirkjunnar á 7. áratug síðustu aldar kom í ljós blýantsáletrunin „Guðjón“ á einni stoðinni. Með honum kom Jón Jónsson smíðapiltur. Voru þeir 14 vikur að ljúka smíðinni. Með þeim vann í 12 vikur Þorlákur Bergvinsson smíðapiltur frá Eiðum og í rúma viku Jón hreppstjóri Illugason á Djúpalæk, faðir Jóns smíðapilts. Verkið hófst líklega í byrjun maí og því lauk 12. ágúst 1845. Þann dag vísiteraði prófasturinn á Valþjófsstað og lýsti kirkjunni. Sú lýsing er varðveitt orðrétt. Í lýsingunni segir m.a. að öll smíð sé mjög vönduð og kirkjan snoturlega og hagleikslega gerð af útlærðum snikkara.

Kirkjan kostaði 745 ríkisdali og 87 skildinga, en til er nákvæmt bókhald yfir kostnaðinn. Sr. Hóseas lagði sjálfur fram 342 ríkisdali. Þá fjárhæð fékk hann endurgreidda að fullu þann tíma sem hann var að Skeggjastöðum.

 

Sr. Guðmundur Jónsson, 1828-1838

Fæddur 21.8.1774 að Bakkakoti í Stafholtstungum í Mýrarsýslu. Djákni á Grenjaðastað frá 1816. Fær Skeggjastaði 1827 og vígist þangað í mars 1828. Guðmundi lét lítt búskapur og leigði hálfa jörðina öðrum ábúanda. Svo þröngur varð fjárhagur hans að hann varð að segja Skeggjastöðum lausum vegna fáktækar 1838 og fer þá að Svalbarði. Eftirmaður hans átti að vera Árni Guttormsson, sonur prestsins á Hofi. Hann neitaði að taka við vígslu til Skeggjastaða og stóð prestakallið óveitt um skeið. Á meðan þjónaði sr. Guðmundur frá Svalbarði.

Sr. Hóseas Árnason, 1839-1859

Fæddur 20.5.1806 að Þverá í Axarfirði, dáinn 20.1.1859. Aðstoðarprestur að Garði í Kelduhverfi frá 1834 og var veitt Skeggjastaðaprestakall 1838. Öll hús voru tekin mjög að hrörna þegar Hóseas kemur á staðinn. Kom fátækur frá Garði. Óskar eftir fjárstuðningi frá biskupi til að reisa timburkirkju en fær synjun. Ræðst í bygginguna engu að síður og stendur kirkjan enn, elst kirkna á Austulandi. Lagði sjálfur út fyrir kostnaðinum. Gerði ýmsar aðrar endurbætur á jörðinni og hjáleigunni Gæsagili. Fékk Berufjarðarprestakall 1858 og dó árið eftir í litlum efnum.

Sr. Bergvin Þorbergsson, 1859-1861

Fæddur 13.8.1804 að Ási í Kelduhverfi. Dáinn 24.7.1861 á Skeggjstöðum. Afi hans var Þorbergur Þórarinnson bóndi í Miðfirði, Bakkafirði. Flyst 1829 að Hjaltatað í Hjaltastaðasókn og hefur starf sem umboðsmaður eigna Skriðuklausturs. Sækir síðar um Eiðaprestakall og fær veitingu fyrir því 1839. Tekur vígslu 1840. Prestur þar í 15 ár. Síðan aðstoðarprestur á Valþjófsstað til vors 1859 er hann vígðist til Skeggjastaða. Kona hans lést vorið 1861. Tíu dögum eftir andlát hennar fermir Bergvin dóttur þeirra. Tíu dögum það lá hann sjálfur á líkbörum.

Sr. Siggeir Pálsson, 1862-1866

Fæddur 15.7.1815 í Hróarstungu. Dáinn 6.7.1866 á Skeggja-stöðum. Ættstór maður. Bjó samt hér og þar við nokkra fátækt, sleit samvistir við konu sína 1854. Eftir ítrekaðar umsóknir hér og þar fékk hann Skeggjastaði 1862. Lét stækka kirkjugarðinn og smíða loft yfir tvö fremstu stafgólf í framkirkju, þar sem í dag er aðstaða fyrir söngkór og hljóðfæri. Annars fer ekki miklum sögum af prestverkum hans. Grafinn í kirkjugarðinum á staðnum.

Sr. Jens Vigússon Hjaltalín, 1867-1873

Fæddur 12.1.1842 í Litla-Langadal á Snæfellsnesi. Dáinn 18.1.1930. Gekk í Lærða skólann. Sækir um á Skeggjastöðum að ráði frænda síns, Jóns Hjaltalín landlæknis, sem lýsti Skeggjastöðum sem "bújörð hinni bestu". Fékk embættið árið 1867. Ritaði endurminningar sínar um "útlegð" sína á Skeggjastöðum. Fer frá Skeggjastöðum 1874, er eftir það prestur í Staðarstaðarprestakalli, síðan á Búðum, þá í Nesþingi og loks Setbergi í Eyrarsveit. Andast þar.

Sr. Gunnlaugur Halldórsson, 1874-1884

Fæddur í Glaumbæ í Skagafirði 3.10.1848. Dáinn á Beiðabólsstað í Vesturhópi 9.3.1893. Annar tveggja bræðra sem urðu prestar að Skeggjastöðum. Aðstoðarprestur föður síns á Hofi í Vopnafirði frá 1872. Var veittir Skeggjastaðir á 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar, árið 1874. Hafði sæmilega stórt bú og góða afkomu. Eignaðist tvö börn en missti konu sína. Fékk Breiðabólsstað í Vesturhópi 1883, fluttist þangað árið eftir. Kvæntist aftur 1885. Lést úr lungnabólgu 1893.

 

 

Frá því kirkjan reis hafa verið unnar á henni ýmsar endurbætur og breytingar.

Árið 1849 voru smíðaðir tveir nýir sætabekkir í kórinn. Þeir eru enn til, ófóðraðir.

Hinn 10. október 1864 lét sóknarpresturinn, sr. Siggeir Pálsson, leggja geymsluloft í kirkjuna. Sætisbekkirnir baklausu voru síðan hafðir þar, en ekki í kórnum. Loftið hefur ekki verið notað til geymslu síðan 1944 og í um hálfa öld hefur þar verið aðstaða fyrir hljóðfæri og söngfólk og er góður hljómburður þaðan.

Árið 1882 var smíðuð ný ytri hurð fyrir kirkjuna og kirkjan er þá sögð máluð, utan og innan. Sama ár var gert við kólf eldri klukku, sem þó var aftur bilaður 1890 og var því keypt ný klukka 1894, en sú gamla geymd, biluð. Þær sem í lagi voru, önnur frá 1840 og sú nýja frá 1894 voru festar upp inni á kirkjulofti og voru þar síðan í 68 ár eða til 1962, er þær voru fluttar upp í turn viðbyggingarinnar og þar hjá var einnig uppsett elsta klukkan, eftir vandaða viðgerð Einars Guðjónssonar, eiganda Vélsmiðjunnar Bjargs, sem á þeim tíma var að reisa síldarverksmiðju á Bakkafirði. Klukkan frá 1840 var tekin úr notkun árið 2001.

Hinn 7. janúar 1887 veittu stiftsyfirvöld leyfi til að "verja mætti upphæð af fé Skeggjastaðakirkju til kaups á harmoninum handa henni, er svo sé brúkað við guðsþjónustugjörðina og við haldið sem öðru inventario kirkjunnar." Að þessu leyfi fengnu var keypt árið 1889 lítið harmonium frá Petersen & Stenstrup í Kaupmannahöfn. Engar heimildir skýra frá því hvar þetta hljóðfæri hefur staðið i kirkjunni. Heyrst hefur að það hafi verið uppi á loftinu. Næsta harmonium var keypt árið 1907, kaupverð um 300 kr. Það var bæði þungt og mikið fyrirferðar og var látið standa norðan megin í kór, því erfitt var að lyfta því upp á loft. Þetta hljóðfæri var notað í 42 ár eða til ársins 1949. Þá var keypt nýtt danskt harmonium, ekki eins þungt og hið fyrra og var það stundum haft uppi á lofti. Það var notað til ársins 1977 og þarfnaðist þá viðgerða. Þá var keypt lítið harmonium með rafblásara, sem hefur eingöngu verið notað síðan og ávallt verið haft á kirkjuloftinu.

Mestu breytingar á innréttingu kirkjunnar voru gerðar til þess að koma fyrir stórum kolaofni til að hita upp kirkjuna. Rifið var burt kórþilið norðan kórdyra og meðfylgjandi píláraverk og tekin brott sæti bæði innan og framan við kórþilið. Ofninum var svo komið fyrir þar sem kórþilið var áður og leiddi frá honum hlýju inn í kórinn og nokkuð fram í framkirkjuna. Reykrör lá frá ofninum upp úr mæni, sem var, er frá leið, margsprungið og bætt og stafaði af þvi íkveikjuhætta. Líklegt er að kolafofninn hafi verið settur í kirkjuna um eða rétt eftir 1910. Hann var aflagður 1945. Þá var keyptur hráolíuofn, lögð ný reyklögn og ofninn notaður til 1952. Þá voru kirkjunni gefnir 2 ofnar fyrir gashitun með öllu tilheyrandi og var kirkjan hituð þannig 20 ár til 1972. Þá var lagt í hana rafmagn frá RARIK bæði fyrir ljós og hita og það notað síðan. Árið 1951 hafði verið lögð raflögn í kirkjuna og þangað leitt rafmagn frá heimilisrafstöð prestsins, allt til 1972.

 

Sr. Jón G. Halldórsson, 1884--1906

Fæddur í Glaumbæ í Skagafirði 1.11.1849. Dáinn 14.1.1924 á Þórshöfn. Yngri bróðir Gunnlaugs, sem sat staðinn áður. Þjónustaði í 2 ár á Hofi eftir að faðir hans lést. Er nýr prestur kom að Hofi flutti Jón til Vopnafjarðar. Fékk Skeggjastaði eftir bróður sinn. Hófst handa við ýmsar framkvæmdir, sem enn sér stað. Tók unglinga á staðnum í kennslu, m.a. Halldór Runólfsson kaupmann á Bakkafirði. Stofnaði bindindis- og lestrarfélag. Fór til Sauðaness 1906.

Sr. Jón Þorsteinsson, 1906-1907

Fæddur á Hálsi í Fnjóskadal 22.4.1849. Dáinn 7.5.1930. Lauk prestaskólaprófi 1873. Var veitt Mývatnsþing 1977, var þar í tæp 2 ár, fór þaðan að Lundarbrekku í Bárðardal 1879 og gegndi prestþjónustu þar í 19 ár. Hætti og gerðist aðstoðarprestur á Sauðanesi 1899 vegna einhverra óefnismála. Fær Skeggjastaði eftir að sr. Jón Halldórsson kemur þaðan til Sauðaness. Hugði ekki á langdvöl og fékk Möðruvallarklausturs prestakall sama ár. Andaðist þar 1930.

Sr. Ingvar G. Nikulásson, 1907-1936

Fæddur í Múlaseli í Hraunhreppi í Mýrarsýslu 16.10.1866. Dáinn 14.11.1956 í Hafnafirði. Lauk embættisprófi frá prestaskólanum 1891. Aðstoðarprestur á Stokkseyri og síðar settur sóknarprestur þar. Prestur í Gaulverjabæjarprestakalli í 10 ár. Fluttist til Reykjavíkur og hóf kennslu, vegna heilsubrests. Sótti um Skeggjastaði og fékk 1907. Sinnti mörgum trúnaðarstörfum í hreppnum, var m.a. oddviti hreppsnefndar. Fékk lausn eftir lát eiginkonu sinnar 1936.

Sr. Hólmgrímur Jósefsson, 1936-1942

Fæddur 12.3.1906 í Svalbarðshreppi. Lést 10.6.1946. Lauk embætt-isprófi í guðfræði frá HÍ 1936. Vígður sama ár til Skeggjastaða, þó ekki varanlega fyrr en 1938. Hugðist sækja um Svalbarðs-prestakall sem fyrst. Er presturinn þar fékk lausn sex árum síðar vegna aldurs sótti sr. Hólmgrímur um þar og fékk. Annaðist Skeggjastaði í aukaþjónustu í eitt ár eftir það. Missti heilsuna eftir að hafa orðið næstum úti og legið 16 stundir í fönn á fjöllum í blindhríð. Lést eftir það á spítala.

Sr. Sigmar I. Torfason, 1944-1988

Fæddur 15.8.1918 á Hofi í Norðfirði. Lést 4.2.1997 á Akureyri. Lauk embættisprófi í guðfræði frá Hí 1944. Sótti þá um Skeggjastaða-prestaskall og vígðist þangað sama ár. Þjónaði á Skeggjstöðum í 44 ár, lengst allra. Prófastur í Norður-Múlaprófastsdæmi, tímabundið frá 1963 og fast frá 1965 til 1988, er hann lét af prestsembætti. Gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í sveitarfélaginu, sat m.a. í hreppsnefnd og sinnti kennslumálum. Lét af þjónustu fyrir aldurs sakir 1988.

Sr. Gunnar Sigurjónsson, 1988-1995

Fæddur í Reykjavík 24. desember 1960. Embættispróf í guðfræði frá HÍ 1988. Sóknarprestur á Skeggjstöðum sama ár. Sinnti ýmsum trúnaðar-störfum í sveitarfélaginu meðan hann gegndi prestþjónustu, m.a. kennslu og kjörinn í hreppsnefnd 1990. Formaður Prestafélags Austurlands til þriggja ára. Rak tölvufyrirtækið Skeggja hf., sem vann m.a. að forritinu Garður, sem skrásetur legstaði í kirkjugörðum. Sóknarprestur í Digraneskirkju í Kópavogi frá 1995.

 

 

Sigmar Torfason rekur í bók sinni, að þegar kom að því að minnast 100 ára afmælis kirkjunnar hafi presti og söfnuði verið það ljóst, að ekki væri mögulegt vegna heimsstyrjaldarinnar að ráðast í miklar viðgerðir eða nýbyggingu, því byggingarefni var svo til ófáanlegt. Þak kirkjunnar að norðanverðu var klætt með pappa til að koma í veg fyrir leka. Kirkjan var máluð utan og minni háttar lagfæringar gerðar. Ein lagfæring var þó mest, að færa til fyrra horfs, svo sem mögulegt var, þa sem burt var tekið fyrum til að koma upp kolaofninum. Fyrst var ofninn sjálfur fjarlægður og svo upp sett kórþilið. Önnur ráð voru ekki en að nota til þess en að nota þilið aftan við kvensætið, sem var nákvæmlega eins og hið fyrra kórþil að gerð og stærð. Engir pílárar voru þó á því þili og þurfti því að smíða þá að nýju.

Næstu 14 ár liðu svo að ekkert var afráðið, hvort heldur skyldi byggja nýja kirkju eða gera við þá gömlu. Sigmar Torfason rekur í bók sinni þær hugmyndir sem ræddar voru á sínum tíma. Segir þar að nokkrir í söfnuðinum hafi viljað rífa kirkjuna og byggja nýja steinsteypta kirkju. Við atkvæðagreiðslu á almennum safnaðarfundi samþykkti meirihluti safnaðarins hins vegar að gera við kirkjuna og byggja við hana skrúðhús og forkirkju með turni. Herra Sigurbjörn Einarsson biskup visiteraði 9. ágúst 1959 og hafði sr. Sigmar áður beðið hann um að gefa álit sitt á málinu. Álit biskups var að kirkjuna bæri að varðveita, en hafa mætti þar litla viðbyggingu fyrir forkirkju og skrúðhús. Sr. Sigmar leitaði einnig álits Dr. Kristjáns Eldjárns þjóðminjavarðar á málinu. Hann kvaðst geta bannað að kirkjan yrði rifiin, en hefði þó ekkert fé til umráða til að styrkja viðgerð hennar. Taldi hann heppilegast að söfnuðurinn kostaði viðgerð og endurbætur. Það varð að ráði.

Biskup studdi endurbæturnar með ráðum og dáð, greiddi fyrir útvegun lána og útvegaði smið til að vinna verkið, Bjarna Ólafsson húsasmíðameistara og lektor í Reykjavík. Sumarið 1960 var sr. Sigurður Pálsson, síðar vígslubiskup, staddur á Skeggjastöðum og skoðaði þá kirkjuna. Hann taldi einsætt að vernda kirkjuna og varðveita og byggja mætti við hana. Hann réðst þegar í að mæla kirkjuna utan og innan og skráði öll mál. Síðan gerði hann tillögu að viðbyggingu í samráði við sr. Sigmar. Þessa tillögu fór Sigurður með til Bjarna Ólafssonar, sem útfærði meginefni hennar á teikningu, sem lögð var fyrir húsameistara ríkisins. Ragnar Emilsson arkitekt vann endanlega útfærslu að teikningum, sem samþykkt var og notuð með litlum breytingum.

Vorið 1961 kom smiðurinn Bjarni Ólafsson til að líta á verkefnið og undirbúa það. Verkið hófst um sumarið en lauk ekki að fullu fyrr en rúmu árið síðar, hinn 13. ágúst 1962. Mánuði síðar kom Herra Sigurbjörn biskup og endurvígði hana. Hafði þá farið fram gagnger viðgerð á kirkjunni. Þakið norðanvert var allt endurnýjað, bæði rennisúðin og skarsúðin og nokkuð af ytri veggklæðningu þeim megin sem og á austurstafni öllum og að hluta á vesturstafni. Kirkjunni var lyft til að taka burt hlaðinn grjótgrunn og gera nýjan úr steinsteypu, sem er hærri svo kirkjan stendur 1/2 metra hærra en áður. Allir gluggar voru endurnýjaðir með tvöföldu gleri. Myndir á altaristöflu og stól voru hreinsaðar af frú Grétu Björnsson listmálara. Þá var byggt við kirkjuna forkirkja og skrúðhús. Yfir þaki viðbyggingarinnar stendur á súlum turn með krossi á toppnum. Viðbyggingin er tengd norðurhlið kirkjunnar vestast. Viðbyggingin er um 12,5 fermetrar. Taka varð burt aftasta sætið norðan megin í framkirkju vegna inngangs úr viðbyggingunni, en kvensætið og þau sæti sem því tilheyrðu, við norðurvegg og framan við kórþilið þeim megin voru sett upp líkt því sem upphaflega var. Klukkur kirkjunnar voru festar upp í turninn nýja.

 

Sr. Brynhildur Óladóttir, 1996-2019

Fædd 24.8.1964. Frá Jökuldal. Fyrsti kvenprestur Skeggjastaða-kirkju í þau 800 ár sem líða frá því kirkjunnar er fyrst getið í heimildum. Lauk embættisprófi frá HÍ 1994. Tók við prestþjónustu á Skeggjstöðum eftir sr. Gunnar Sigurjónsson. Er hún sat staðinn sameinaðist Skeggjastaðasókn í það sem nú heitir Langanesprestakall, en undir það heyra Skeggjastaðasókn, auk Svalbarðs- og Þórshafnarsóknir. Gegndi prestþjónustu á Vopnafirði í tvö ár. Sóknarprestur í Stafholtsprestakalli í Borgarfirði í eitt ár frá 2019. Sérþjónustuprestur í Breiðafjarðar- og Strandaprestakalli.

Sr. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir, 2019-

Fædd 21.11.1989. Frá Vopnafirði. Vígðist til Hofsprestakalls árið 2017. Þjónustar á Skeggjastöðum í dag.

 

 

Kirkjan á marga góða gripi.

Talið er að predikunarstóllinn í Skeggjastaðakirkju sé gerður í Danmörku á 18. öld. Árið 1763 kemur fram í vísiteringu Finns biskups Jónssonar um muni kirkjunnar: "Prédikunarstóll útlenzkur, rétt vænn". Þetta mun vera fyrsta skráða umsögn um stólinn. Einnig er umsögn um hann frá 1770. Ekki hefur tekist að finna hvenær eða nákvæmlega hvernig hann kom í kirkjuna. Munnmælasögn, sem fram að þessu hefur geymst í Skeggjastaðasókn segir að stóllinn sé áheit fransks skipstjóra. Skúta hans hafi strandað á Sigrúnarskerjum, norður af bænum Bakka, en mannbjörg varð og skipstjórinn stóð við áheit sitt.

Altaristaflan í Skeggjastaðakirkju kom í kirkjuna árið 1857, 12 árum eftir að nýja kirkjan reis. Líklega var engin altaristafla í kirkjunni þann tíma sem leið frá í nýja kirkjan reis, en munir úr eldri torfkirkjunni voru seldir á uppboði. Altaristaflan nýja var pöntuð frá Kaupmannahöfn, ásamt tveimur altarisstjökum. Myndin er Kristsmynd (málari O.Knippel). Á töfluna er skráð á latínu og íslensku: "ECO SUM VIA, VERITAS & VITA - Eg er vegurinn, sannleikurinn og lífið." "Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig." Taflan hefur því prýtt kirkjuna í tæp 160 ár.

Söngtöfluna í kirkjunni gaf sr. Hóseas sjálfur árið 1849. Skírnarfontur er úr tré með leirskál. Gréta Björnsson gerði teikningu af fontinum en Ólafur Guðmundsson, faðir Bjarna Ólafssonar kirkjusmiðs, smíðaði fontinn. Maður Grétu, Jón Björnsson, málaði skírnarfontinn. Ólafur og Jón gáfu skírnarskálina. Fonturinn var keyptur árið 1964 fyrir gjafafé sóknarfólks.

Kirkjan tekur nú um 100 manns í sæti.

Gamla kirkjan

Þótt fílabeinsturninn, sem trú manns dró
á tálar, sé löngu brenndur,
við kliðandi útsæ, með krossi á burst
enn kirkjan vor gamla stendur.

Og bjarg það hún reyndist, sem brotnar á,
hver bára fagnaðs og ama,
og holskefla breytinga, hraðfleyg stund,
en hún er ætíð hin sama.

Og lifendum jafnt eins og látnum enn
hin lágreista kirkja fagnar.
Og býður oss griðarstað, Guði vígð
í garði mikillar þagnar.

Kristján frá Djúpalæk
Tileinkað kirkjunni á Skeggjstöðum.

Uppfært 3. maí 2024
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?