Menningarlíf í Langanesbyggð
Það hefur alltaf verið blómleg menning í sveitarfélaginu enda getur menning verið afar víðtæk. Hér er starfandi Leikfélag Þórshafnar, Kvenfélagið Hvöt, Björgunarsveitin Hafliði, auk þess sem ýmsir tilfallandi viðburðir svo sem bridskvöld, bar-svar, þorrablót, dansleikir, tónleikar ofl. gengur allt árið um kring.
Bókasafnið á Þórshöfn
Bókasafnið á Þórshöfn er í íþróttahúsinu Veri. Bókavörður er Líney Sigurðardóttir
Opnunartímar:
Mánudagar kl. 17-19
Fimmtudagar kl. 17-19
Ekkert árgjald er fyrir börn á grunnskólaaldri en 2000 kr árgjald fyrir aðra. Netfang er liney@thorshafnarskoli.is
Bryggjudagar
Á hverju sumri er haldin samfélags- og menningarhátíðin Bryggjudagar og hefur þriðja helgin í júlí verið föst í sessi í mörg ár. Dagskrá er mismunandi hverju sinni en jafnan má þar finna tónlistarviðburði, hagyrðingakvöld, útimarkað og ýmislegt fleira. Dagskrá má finna á heimasíðu Kátra daga á facebook og í fréttum á heimasíðu Langanesbyggðar þegar nær dregur hátíðinni.
Sauðaneshús
Opið daglega yfir sumartímann og er á Sauðanesi á Langanesi, um 7 km frá Þórshöfn. Til sýnis eru ýmsir gamlir og sögufrægir munir frá Langanesi og nágrenni.
Umsjón með húsinu er í höndum Menningarmiðstöðvar Þingeyinga - husamus.is / safnahus (hjá)husmus.is
Sími: 464-1860
Gamla prestssetrið á Sauðanesi hefur verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1989. Það var þá mjög illa farið, og var unnið að viðgerðum á því í liðlega áratug. Samningur var undirritaður árið 2002 við heimamenn um að nýta húsið í þágu menningartengdrar ferðaþjónustu og var húsið formlega opnað í sumarið 2003.
Sr. Vigfús Sigurðsson (1811-1889) kom til Sauðaness 1869 og hafði áður þjónað á Svalbarði í Þistilfirði. Hann lét reisa fyrir sig íbúðarhús úr tilhöggnum steini á árunum 1879-81, eitt örfárra steinhlaðinna húsa á landinu, og önnuðust verkið þeir bræður Björgólfur snikkari og Sveinn múrsmiður Brynjólfssynir, sem þá voru búsettir á Sauðanesi. Gríðarstór tekkbolur, sem rak á Langanesfjörur, var notaður í útidyraumbúnað og hurðir. Eftir að sr. Vigfús lést tók sr. Arnljótur Ólafsson (1823-1904) við Sauðanesi og gegndi brauðinu til dauðadags. Hann var landskunnur fyrir stjórnmálaafskipti og ritstörf. Síðast var búið í gamla íbúðarhúsinu 1955 og var þá tekið í notkun nýtt prestssetur, skammt frá því gamla.
Sauðanes var áður í miðju byggðar á Langanesi, en fólksflutningar hafa verið miklir á síðustu öld. Sauðanes hefur verið annálað og eftirsótt prestssetur frá alda öðli með miklum landkostum, m.a. æðarvarpi, reka, silungs- og selveiði.