Fara í efni

Náttúran

Náttúra og landslag á Langanesströndinni er laust við stórbreytileika. Há fjöll eru fá og vatnsföll setja ekki mark sitt á landslagið svo nokkru nemi, þótt mörg séu. Undirlendi rennur án áberandi skila saman við víðáttumikil heiðarflæmi, sem yfir höfuð eru mýrlend og eru mýrarnar einkennandi fyrir landslagið. Milli grösugra mýrarflóa, mólendis og vallendis eru berir melhryggir. Syðsti og hæsti hluti þess svæðis sem áður var Skeggjastaðahreppur tilheyrir eldri grágrýtismynduninni en annarsstaðar er berggrunnurinn úr tertíeru blágrýti. Breiður sprungusveimur gengur upp frá þorpinu á Bakkafirði og nær suður á Sandvíkur- og Staðarheiði. Bergið á svæðinu er óþétt og veldur því m.a. að árnar hafa fremur lindáreinkenni en dragár og að landið er mýrlent. Hin lausu jarðlög á svæðinu eru mest jökulurð- ár og sjávarset.

Landslagi á Langanesströnd hefur verið lýst þannig, að bogadregnar mýrlendar hvilftir ganga inn af botnum fjarða og voga, en þýft valllendi næst sjó. Lágur melhryggur nefndur Jarðbakki takmarkar þetta undirlendi spölkorn til lands. Þar mun vera forn marbakki. Nokkrar ár falla innan af hálendinu, stærst þeirra Miðjfarðará. Úti fyrir Langanesi eru straumamót, Langanesröstin, þar sem mætast hlýir og kaldir hafstraumar og orsaka tíðum úrsvala þoku, sem heimamenn þekkja.

Gróðurfar er með heimskautablæ og hefur verið lýst sem "all sérstöku." Sveitin hefur vegna landslags þótt einkar vel fallin til sauðfjárræktar, þar sem landnæði er mikið og landið ekki mjög erfitt yfirferðar, sem og vegna grösugra heiðarlanda. Gunnólfsvík og Gunnólfsvíkurfjall eru á náttúruminjaskrá og njóta sérstakrar verndar vegna sjaldgæfra plöntutegunda sem þar vaxa. Afar góð berjalönd eru á Ströndinni, einkum til krækiberjatínslu, en bláber finnast einnig í ágætu magni.

Fuglalíf er mikið og finnast á svæðinu flestar tegundir fugla, m.a. sjaldgæfar tegundir eins og fálki, smyrill og ugla. Annars eru sjófuglar áberandi, svatfugl og mávur. Kríuvarp er fyrir ofan þorpið Bakkafjörð og telst það mikið. Oft er töluverður hávaði í fuglunum á vorin yfir varptímann. Æðarfuglinn heldur sig mikið á þessum slóðum, enda hánorrænn fugl. Einstök æðarvörp á svæðinu hafa alltaf verið í hópi þeirra stærstu á landinu.

Fjöll og fell

Eins og áður er rakið er landslagið ekki fjöllótt. Áberandi fjöll í landslaginu eru fljótt upptalin. Landslagið er aflíðandi og ekki skörp skil milli heiða og láglendis. Hér verður getið nokkurra einkenna í landslaginu.

Gunnólfsvíkurfjall er tilkomumikið og hátt fjall, 709 m.y.s., með hömrum og klettabeltum í, einkum að sunnan og austanverðu. Sagt er að áður hafi fjallið verið grasi vaxið og alfararvegur meðfram því sjávarmegin til Fagraness. Fjallið er nú mest allt í skriðum og melum. Fjallshlíðin sjávarmegin er nú brött og ekki fær mönnum, hafi hún einhvern tíma verið það. Fjallið er hluti af Langanesi og í kringum það eru nokkur smærri fjöll eða fell. Í góðu skyggni er gríðarlegt útsýni af fjallinu og sést þaðan allt suður til Herðubreiðar og Dyngjufjalla. Á fjallinu er ratstjárstöð sem byggð var á 9. áratug síðustu aldar, ein fjögurra á landinu sem hluti af íslenska loftvarnarkerfinu. Fjallið er vinsælt til gönguferða.

Smyrlafell

Stendur fyrir ofan bæinn Fell í Finnafirði, en bærinn hefur einnig stundum verið nefndur Smyrlafell. Fellið er 164 m.y.s. og að álíta eins og austasta oddann af Sauðaneshálsi og Brekknaheiði og er álíka á hæð.

Hágangar

Hágangarnir eru tvö fjöll sem liggja nærri hvort öðru, Ytri- og Syðri Hágangur. Ytri-Hágangur er sérstakt fjall, gras- og gróðurlaust norðarlega á öræfum fram af miðri sveitinni. Niður af því ganga smálækkandi og dældóttar urðir og hálsar til sjávar milli Þorvaldsstaða og Skeggjastaða. Ytri-Hágangur er 923 m.y.s. en Syðri-Hágangur 952 m.y.s.Fjöllin eru úr móbergi og alsett smátindum og fönnum.

Skálafjöll/fell

Svonefnd Skálafjöll eru í reynd ekki annað en þrír hnjúkar eða hálsar á Sandvíkurheiði vestanverðri, Vestasta-Skálafell, Mið-Skálafell og Austasta-Skálafell. Hæst fara þau 366 m.y.s.

Straumvötn

Ár á svæðinu eru nokkrar, en almennt ekki vatnsmiklar. Ræður þar einkum jarðfræði á svæðinu, en bergið er sprungukennt. Landslagið á heiðum er mjög mýrlent og rennur vatnið þannig ekki síður neðan jarðar en í ánum. Lax gengur í margar ár á svæðinu, en aðeins í seinni tíð hefur hafa farið fram framkvæmdir til að bæta búsetuskilyrði og laxgengd í þeim. Hér eru taldar helstu ár á svæðinu.

Fossá

Lítil spræna á mörkum sem skildu áður að Skeggjastaðahrepp og Þórshafnarhrepp. Rennur móti austri um Fossdal við Gunnólfsvíkurfjallog steypist með beinum fossi fram af bjargi í sjó fram í Bakkaflóann.

Geysirófa

Áin á upptök sín úr svonefndu Ásselsvatni í Vatnadal á Brekknaheiði. Lítil á sem rennur móti austri í krókum í Gunnólfsvík í Finnafirði norðanverðum. Skömmu þar sem Geysirófa kemur í sjó rennur í hana svonefndur Bjarnalækur sem á upptök sín vestan Fossdals, norðan Gunnólfsvíkurfjalls, á svipuðum slóðum og Fossá. Við upptökin eru vatnaskil og rennur Bjarnalækur vestur meðan Fossá rennur austur og beint til sjávar.

Krókavatnsá

Áin fellur úr Krókavatni á Fellsheiði og sameinast Finnafjarðará skömmu ofan Finnafjarðarbotns.

Finnafjarðará

Áin kemur að nokkru leyti úr Krókavatni í Fellsheiði og kallast þá Krókavatnsá, og að nokkru leyti framan af Hallgilsstaðaheiði sunnanverðri. Í raun réttri lítil á með grjótfarvegi en verður þó nokkur í vatnavöxtum. Hún fellur í Finnafjarðarbotn.

Saurbæjará

Kemur úr Saurbæjarvatni þar á heiðinni og rennur móti hafi við Saurbæ í Finnafirði. Fremur lítil á með grjótfarvegi. Vex nokkuð í rigninu og leysingum. Í ána hefur verið sett stíflumannvirki og hún virkjuð fyrir heimarafstöð í Saurbæ.

(Litla) Kverká

Áin sprettur upp norðan undir svonefndum Arnarfjöllum og fellur móti norðaustri í Miðjfarðará milli Miðfjarðarnessels og Kverkártungu. Áin fellur þegar ofar dregur í djúpu gili og þótti ill yfirferðar en blessunarlega ekki í alfararleið.

Miðfjarðará

Miðfjarðará er mesta vatnsfall í sveitinni og fellur móti hafi í Miðfjarðarbotn. Vatnasvið árinnar er um 300 ferkílómetrar. Hún dregst saman úr Litlu-kverká og mörgum lækjum úr heiðinni að austan og vestan, en á eiginleg upptök sín á Vopnafjarðarheiðinni í svonefndum Miðfjarðarárdrögum. Í hana falla smærri lækir, s.s. Stórilækur og Þverfellslækur. Vísast rennur hún undir byggð í djúpu gili en ekki eiginlegum gljúfrum. Í henni eru nokkrir fossar, þeir helstu Fálkafoss, Bæjarfoss og Sniðfoss. Í ánni er góð laxveiði og hefur hún verið í útleigu undanfarin ár. Á síðustu árum hefur verið ráðist í umfangsmiklar framkvæmdir til að auka laxagöngu og bæta búsvæði. Árið 2017 voru byggðir þrír laxastigar í ánni og vegir lagðir uppi með henni. Vonir standa til að laxgengd muni stóraukast í ánni. Áformað er að reisa nýtt veiðihús við ána á næstu árum.

Hölkná

Fremur vatnslítil á en þó nokkuð löng. Hún á upptök sín í svonefndum Hölknárdrögum langt uppi á heiði og hlykkjast til sjávar. Sagnir herma að góð lax- og silungsveiði hafi verið í ánni áður fyrr, en í seinni tíð var veiði í ánni orðin að engu. Um aldamótin 2000 tóku nokkrir þekktir athafnamenn á sviði laxveiði ána á leigu og hafa byggt hana upp af myndarskap, þannig að nú er aftur orðin laxveiði í ánni, sem vex ár frá ári.

Djúpilækur

Neðan við bæinn sem dregur nafn sitt af honum rennur Djúpilækur. Hann kemur þar ofan af heiðinni og verður nokkuð mikill í vatnavöxtum.

Staðará

Áin sprettur upp norðan undir svonefndri Urðarhlíð Í Skeggjastaðaheiði og rennur til norðausturs. Í ána fellur önnur á sem nefnist Rauðá.

Dalhúsaá

Dalhúsaá kemur undan Urðarhlíð og fellur móti norðaustri hjá Dalhúsum í Gæsagilsá.

Gæsagilsá

Gæsagilsá á upptök sín í Urðinni svonefndri norðaustur af Hágöngum í Gæsagilsárdrögum, rennur þaðan fyrst um sinn til norðausturs og síðan nokkurn veginn beint til hafs, sumstaðar í djúpu gili og heitir Bakkaá síðasta spölinn.

Bakkaá

Áin sem nefnist Bakkaá verður til eftir að þrjár ofangreinda ár hafa safnast saman í eina. Fyrst fellur Dalhúsaá í Gæsagilsá og heitir áin áfram Gæsagilsá. Nokkru frá ströndinni fellur Hölkna í ána og eftir það nefnist hún Bakkaá. Hún rennur svo um Bakkasand og til sjávar. Þekktust er áin fyrir að þar veiddist stærsti lax sem veiðst hefur á stöng á Íslandi. Árið 1992 veiddist þar 43ja punda lax, sem talinn var vera 11 ára gamall og hafa átt uppeldi í ánni.

Hölkná

Önnur tveggja Hölknáa í sveitinni. Kemur m.a. úr Hólmavatni og fleiri vötnum. Fellur móti norðvestri og norðri í Gæsagilsá utan við Dalhús. Á þessi, sem er áþekk hinum næsttöldu, rennur sumstaðar í gljúfrum, þar sem hún myndar fossa tvo, sem ekki eru háir. Þegar þessar þrjár ár, Hölkná, Gæsagilsá og Dalhúsaá, eru komnar saman, nefnast þær Bakkaá. Eftir það fellur hún á sléttu út að sjávarsandi, svonefndum Bakkasandi, gerir þar á sig krók meðfram sandinum til vesturs, tekur svo í sig Staðará og Rauðá svonefnda; fellur svo eftir það í einum ós í sjó.

Hafnará

Áin hefur upptök sín í svoefndum Kríutjörnum í Hafnarheiði og slær sér þaðan fyrst til norðurs og síðan tl vesturs. Tekur í sig svonefnda Fossá, sem rennur úr Álftavatni á heiðinni. Áin er mjög lítil og farvegur hennar er grunnur nema við sjóinn. Þar fellur hún í nokkuð djúpu gili.

Viðvíkurá

Viðvíkurá kemur bæði úr Krókavatni og kallast þá Þverá, og líka úr Viðvíkurvatni. Hún fellur um Viðvíkurdal móti norðaustri til sjávar.

Stapaá

Stapaáin er lítil spræna milli Viðvíkur og Strandhafnar. Hún er á sveitarmörkum milli Langanesbyggðar (áður Skeggjastaðahrepps) og Vopnafjarðarhrepps. Hún fellur fram af bjargi og í sjóinn.

Stöðuvötn

Töluvert er af vötnum í sveitinni, en þau eru almennt ekki stór. Veiði er í flestum vatnanna, en þau eru misjafnlega aðgengileg. Vegna þess hversu langt er að mörgum vatnanna hefur vatnaveiði þótt takmörkuð hlunnindi á svæðinu fyrir ábúendur jarðanna. Helst er að nefna eftirgreind vötn.

Þernuvatn

Þernuvatn er á sýslumörkum (N-Þing. og S-Múl.). Það er 0,35 km² og í 197 m hæð yfir sjó. Fossá fellur úr því til Þistilfjarðar. Þangað er ekki akfært, svo að ganga verður 6-7 km frá þjóðvegi. Mikið er af bleikju í vatninu, fremur smárri, en sæmilega góðri.

Krókavatn

Krókavatn er á Fellsheiði fyrir ofan bæinn Fell, um 5 km frá botni Finnafjarðar inn af Bakkaflóa. Eins og Þernuvatn er það á sýslumörkum. Það er 0,56 km², nokkuð djúpt og í 166 m hæð yfir sjó. Krókavatnsá fellur úr því til Finnafjarðar. Þarna veiðist vatnableikja og urriði að jöfnu. Við vatnið er hús. Þjóðbraut lá áður rétt norðan vatnsins en nú er þjóðvegurinn allfjarri. Hægt er að komast að vatninu á jeppa.

Saurbæjarvatn

Saurbæjarvatn er á Saurbæjarheiði, í um 161 m. hæð yfir sjó.

Reiðaxlarvatn

Vatnið er í Miðfjarðarnesselsheiði, nokkuð stórt.

Djúpavatn

Djúpavatn er í svonefndum Lambafjöllum í Miðfjarðarheiði. Vatnið er það stærsta í sveitinni og er, eins og nafnið gefur til kynna, alldjúpt. Mikill fiskur er í vatninu, en hann er erfitt að veiða með stöng, m.a. vegna þess hversu djúpt vatnið er. Vatnið er langt frá þjóðveginum, en hægt er að komast þangað á vel útbúnum bílum á um tveimur tímum.

Staðarvatn

Vatnið er 0,24 km², nokkuð djúpt á parti og í 264 m hæð yfir sjó. Lítið rennur til þess á yfirborði en Gæsagilsá fellur úr því, sem er nokkurt vatnsfall. Þess vegna hafa verið leiddar likur að því að uppsprettur séu í vatninu sjálfu, enda vandséð hvaðan vatnið í því annars kemur. Ekki er akfært að vatninu, en komast má akandi í 6 km fjarlægð. Í vatninu er sæmilegasta bleikja.

Hundsvatn

Eitt af vötnunum í vatnaklasanum á Sandvíkurheiði. Vatnið er við þjóðveginn. Ágæt bleikja er í vatninu.

Miðheiðarvatn

Eitt af vötnunum í vatnaklasanum á Sandvíkurheiði.

Bakkavatn

Bakkavatn er 0,33 km², grunnt og í 241 m hæð yfir sjó. Lækur rennur úr því norður til Hölknár. Þjóðvegurinn (85) liggur skammt vestan vatnsins. Stór og góð bleikja er í vatninu.

Álftavatn

Nokkurt vatn, ekki langt fyrir ofan þorpið Bakkafjörð.

Vegurinn upp á Gunnólafsvíkurfjall að ratsjárstöðinni. Þaðan er útsýni yfir allt sveitarfélagið og niður á Austfirði.

Uppfært 3. maí 2024
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?