2000 kinda fjárhús í Langanesbyggð?
Atvinnuþróunarverkefni á Langanesi eru vel þess virði að leggja fé í þau. Þetta segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, sem hefur fulla trú á verkefnunum. Fljótlega á að kynna fjárfestum hugmyndir um stærðar sauðfjárbú.
Langanesbyggð kynnti í nóvember stöðu atvinnuþróunarverkefna á svæðinu. Þar var sagt frá hugmyndum um Þjónustumiðstöð fyrir olíuleit á Drekasvæði. Einnig voru kynntar hugmyndir um öflugt sauðfjárbú og kræklingaeldi. Björn segir verkefnin öll í þokkalegu horfi. Verið sé að leita til ríkis og Byggðastofnunar eftir fjármagni til að gera þarfagreiningu vegna verkefnisins.
Þá segist Björn búast við að fljótlega verði leitað til fjárfesta um að leggja fé í Strandabúið þar sem ætlunin er að vera með 2.000 fjár. Björn er bjartsýnn á að allar hugmyndirnar geti orðið að veruleika.