310 kílómetrar - nýtt hlaupabretti!
Það fór ekki framhjá mörgum þegar hlaupagarpurinn, stórhuginn og ljúfmennið Ránar Jónsson geystist um þorpið á hverjum einasta degi júlímánaðar sl. sumar. Ránar taldi það ekki eftir sér að hlaupa 10 kílómetra hvern dag mánaðarins til að safna áheitum til kaupa á nýju hlaupabretti í íþróttahúsið, og naut við það dyggrar aðstoðar Hildar Kristínar Aðalbjarnardóttur og Andreu Bjarkar Sigurvinsdóttur. Viðbrögð þorpsbúa, einstaklinga og fyrirtækja létu heldur ekki á sér standa og nú er komið nýtt og glæsilegt hlaupabretti í húsið. Það ætti því ekki að vera neinum að vanbúnaði að hella sér í heilsuræktina og slíta af sér aukakílóin eftir jólaóhófið
Af þessu tilefni verður frítt í sal og sund á morgun, föstudaginn 6. janúar, frá kl. 15-19. Brettið verður síðan vígt með formlegum hætti kl. 17 og eru allir boðnir velkomnir.