Ær láta lömbum í þúsundatali
22 mars 2008
Gunnar Björnsson bóndi á Sandfelli í Öxarfirði sem ómskoðað hefur ær á Norður- og Austurlandi vill fá embætti yfirdýralæknis og Landbúnaðarstofnun til að rannsaka ýtarlega hvað getur valdið því að ungar ær hafa látið lömbum í þúsundatali. Hann segir tjón bænda mikið.
Umtalsvert tjón hefur orðið hjá bændum að sögn Gunnars Björnssonar sem nú ómskoðar ær fyrir bændur á Austur- og Norðurlandi fimmta árið í röð. Á síðasta ári varð hann var við slíkt tjón á um 30 bæjum. Dæmi eru um að ær hafi látið allt að þriðjungi lamba á einum og sama bóndabænum.
Ærnar eða gemlingarnir láta lömbunum í flestum tilvikum eftir fjörutíu til áttatíu daga meðgöngu að því er virðist. Eðlilegur meðgöngutími ánna er um 146 dagar. Hið furðulega er að engin merki eru um fósturlát heldur sogar líkami ærinnar lambið sem er á leiðinni til sín, segir Gunnar.