Aflamark Byggðastofnunar
Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar aflaheimildir til að styðja við fámenn byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.
Á fyrsta fiskveiðiári verkefnisins, 2013–2014, hafði stofnunin 1.800 þorskígildistonn til ráðstöfunar. Magnið hefur aukist á hverju fiskveiðiári og úthlutaði stofnunin rúmlega 5.000 þorskígildistonnum á síðasta fiskveiðiári.
Í gildi eru samningar á ellefu stöðum; Bakkafirði, Breiðdalsvík, Djúpavogi, Drangsnesi, Flateyri, Grímsey, Hrísey, Raufarhöfn, Suðureyri, Tálknafirði og Þingeyri.
Markmið verkefnisins er að auka byggðafestu í þeim sjávarbyggðum sem; a) standa frammi fyrir alvarlegum og bráðum vanda vegna skorts á aflaheimildum eða óstöðugleika í sjávarútvegi, b) eru háðastar sjávarútvegi og eiga minnsta möguleika á annarri atvinnuuppbyggingu, c) eru fámennar, fjarri stærri byggðarkjörnum og utan fjölbreyttra vinnusóknarsvæða.
Aflamarkinu hefur nú verið úthlutað í sjö ár. Úthlutunin hefur alls ekki gengið hnökralaust fyrir sig en ekki verður fram hjá því litið að aflamarkið hefur átt mikinn þátt í að viðhalda störfum á stöðum sem byggja afkomu sína að öllu eða mestu leyti á sjávarútvegi. Þannig hefur aflamarkið stuðlað að aukinni byggðafestu á þessum stöðum og í einhverjum tilfellum viðhaldið þrótti í atvinnulífinu til að byggja upp nýja starfsemi sem getur tekið við hlutverki kvótabundins sjávarútvegs að því er fram kemur í skýrslu Byggðastofnunar fyrir árið 2020.