Ágætu viðtakendur
Undirritaður tilkynnir að laugardaginn 09. ágúst n. k. mun Vopnafjarðarhreppur opna með formlegum hætti Múlastofu, menningarsetur Jóns Múla og Jónasar Árnasonar í Kaupvangi. Voru þeir bræður fæddir á Vopnafirði og stendur hús foreldra þeirra, Kirkjuból, enn. Vill undirritaður, f. h. Vopnafjarðarhrepps, bjóða ykkur til opnunarinnar eru hlutaðeigandi beðnir um að staðfesta komu sina eða þakka gott boð.
Í stuttri kynningu sýningarhönnuðar, Björns G. Björnssonar, segir m.a.:
Þannig eru málavextir, að Vopnafjarðarhreppur er að setja á fót lítið menningarsetur, MÚLASTOFU, til heiðurs þeim bræðrum Jóni Múla og Jónasi Árnasonum, en þeir fæddust á Vopnafirði og voru þar fyrstu árin. Í Múlastofu verður sýning, sem ég er að hanna og setja saman, um líf og list þeirra bræðra, og þar á að gefa gestum kost á að hlýða á og horfa á brot úr verkum þeirra, lögum og leikritum.
Múlastofa er s. k. Non-Profit menningarstofnun þar sem ekki er um að ræða neins konar framleiðslu eða dreifingu á efni, heldur aðeins um að ræða notkun innan stofunnar fyrir gesti hennar, í fræðslu- og menningarskyni., líkt og í söfnum og skólum.
Múlastofa er sett upp í góðu samstarfi við fjölskyldur og afkomendur Jóns Múla og Jónasar og þau eru öll samþykk þessum ráðagerðum og hafa veitt samþykki sitt fyrir notkun þess efnis sem um ræðir. Ég reikna með að höfundar séu í langflestum tilvikum þeir bræður sjálfir, og þá er það mál afgreitt með samþykki þeirra, eða afkomenda þeirra.
Í tengslum við Múlastofu verður árleg menningarhátíð haldin, Einu sinni á ágústkvöldi, og fer strax af stað í ár. Má telja nafnið vel viðeigandi. Vettvangur opnunar setursins er í (eða við) Kaupvangi laugardaginn 09. ágúst n. k. svo sem áður greinir og hefst formleg dagskrá kl. 14:00. Að afloknum stuttum ræðuhöldum verður setrið opnað, gestir fara um Kaupvang eins og húsrúm leyfir. Um kvöldið, kl. 20:00, mun stórsveit Eyþórs Gunnarssonar leika lög Jóns Múla í félagsheimilinu Miklagarði - ef að líkum lætur verða tónleikarnir öllum eftirminnilegir enda tilefnið einstakt og listamennirnir framúrskarandi.
Sunnudaginn 10. er komið að heimamönnum að skemmta í félagsheimilinu með þátttöku samkórs Vopnafjarðar, heimasveitar, ungra Vopnfirðinga er unnu í söngsmiðju Kristjönu Stefánsdóttur um Vopnafjarðardaga. Um kvöldið mun hljómsveit Pálma Gunnarssonar, Park Projekt, bjóða upp á jasssveiflu í anda Jóns Múla í Kaupvangi, verður það án alls efa mögnuð skemmtun.
Með bestu kveðju og von um að sjá ykkur öll laugardaginn 09. ágúst n. k.,
-Magnús Már Þorvaldsson, menningarmálafulltrúi Vopnafjarðar