Fara í efni

Ákall til samfélagsins

Fréttir

Útbreiðsla Covid19 faraldursins er hröð þessa dagana og róður heilbrigðisstofnana þyngist verulega dag frá degi. Hjúkrunar- og dvalarheimilið Naust hefur undanfarnar vikur verið í viðbragðsstöðu og undirbúið sig til að takast á við þessar fordæmalausu aðstæður.

Stuðningur samfélagsins er okkur ómetanlegur. Það er gott að finna fyrir stuðningi og starfsfólk hefur staðið sig frábærlega við gjörbreyttar aðstæður sem krefst fullrar einbeitingar alla daga, mikils álags og þrautseigju. Búið er að fjárfesta í einni spjaldtölvu til að auka afþreyingu íbúa og koma þeim í myndsamband við sína nánustu á meðan að heimsóknarbanni stendur. En einnig þarf að fjárfesta í góðum heyrnartólum svo íbúar sem eru heyrnarskertir eigi auðveldara með að heyra í sínum nánustu.

Íbúar hjúkrunarheimilanna eru í miklum áhættuhópi gagnvart Covid19, bæði vegna aldurs en einnig eru flestir með undirliggjandi sjúkdóma sem gera þá útsettari fyrir að veikjast alvarlega. Sökum þess er rík ástæða til þess að fjölga súrefnisvélum heimilanna til að vera betur í stakk búin til að takast á við þennan vágest. Þó svo að daglegar aðgerðir okkar og undirbúningur taki mið af því að halda honum frá okkur þurfum við að vera undir allt búin. Eins er ýmis annar búnaður sem gæti aðstoðað okkur í þessu verkefni, og er hægt að nefna morfíndæla, vökvadæla, loftdýnu.

Við sendum því ákall til fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga á svæðinu um að styðja heimilin við kaup á súrefnisvélum og frekari búnaði sem nýtist okkur vel. Við erum öll almannavarnir og það er einmitt á svona stundum sem það er mikilvægt að geta leitað til nærsamfélagsins eftir nauðsynlegum stuðningi.

Hjúkrunarheimilin hafa þörf fyrir fjölgun súrefnisvéla, hver vél kostar 177.560 krónur og áætlum við kaup á tveimur nýjum vélum.  Ykkar stuðningur gæti reynst lífsnauðsynlegur og því leitum við til ykkar eftir aðstoð við kaup á þessum vélum.

 

Með ósk um góð viðbrögð.

Virðingarfyllst,

Sólrún Arney Siggeirsdóttir

Hjúkrunarforstjóri Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Nausts

Netfang: naust@langanesbyggd.is

Langanesbyggð 24. mars 2020

 

Þeir sem vilja styrkja hjúkrunarheimilið er bent á að hægt er að leggja inn á reikning Langanesbyggðar 0179-05-400561, kt. 420369-1749.