Akursels gulrætur opna vinnslu á Þórshöfn
Í sumar og haust hefur fyrirtækið Akursels gulrætur unnið að því að flytja starfsemi sína til Þórshafnar og Þistilfjarðar. Fyrirtækið selur úrvals lífrænar gulrætur og því afar ánægjulegt að fá slíka starfsemi hingað. Eigendur fyrirtækisins eru þau Sara Stefánsdóttir og Árni Sigurðsson, ásamt foreldrum Söru Sigurbjörgu Jónsdóttur og Stefáni Gunnarssyni. Á dögunum var smá opnunarteiti þar sem þessum áfanga var fagnað, en fyrirtækið hefur nú fengið pláss í öðrum helmingi vöruskemmu Landflutninga og Ísfélagsins að Langanesvegi 1. Þar eru gulræturnar þvegnar og pakkaðar en þau keyptu ný tæki inn í húsnæðið sem er mikill munur að sögn Söru. Í sumar var nær öll uppskeran enn að Katastöðum í Öxarfirði þar sem þau hafa búið undanfarin ár, en fyrirtækið hefur nú leigt jörðina Flögu í Þistilfirði og stefnt er að því að færa ræktunina þangað. Þegar mest lætur í illgresis baráttunni eða uppskeru og pökkun, starfa um 8 manns við fyrirtækið en á ársgrundvelli eru þetta um 3-4 stöðugildi. Þorsteinn Ægir oddviti Langanesbyggðar færði þeim blóm fyrir hönd sveitarfélagsins með árnaðaróskum um farsælan rekstur.