Fara í efni

Ályktun sveitarstjórnar um fyrirkomulag utankjörfundar atkvæðagreiðslu

Fréttir
Svohljóðandi ályktun var samþykkt samhljóða á aukafundi sveitarstjórnar í dag, 17. maí 2018 um fyrirkomulag utankjörfundar atkvæðagreiðslu vegna sveitarstjórnarkosninga 26. maí nk.

Svohljóðandi ályktun var samþykkt samhljóða á aukafundi sveitarstjórnar í dag, 17. maí 2018 um fyrirkomulag utankjörfundar atkvæðagreiðslu vegna sveitarstjórnarkosninga 26. maí nk.

Sveitarstjórn Langanesbyggðar mótmælir harðlega þeirri mismunun sem kjósendur dreifðari byggða búa við vegna takmarkaðra möguleika á að greiða atkvæði utan kjörfundar.

Vegna ákvörðunar sýslumanna, sem tekin er í kjölfar tilmæla frá dómsmálaráðuneyti, að bjóða eingöngu upp á utankjörfundar atkvæðagreiðslu á skrifstofum sínum, en ekki t.d. á skrifstofum sveitarfélaganna. Eins og gert er fyrir alþingis- og forsetakosningar. Þurfa kjósendur á landsbyggðinni að ferðast um langan veg til að kjósa utan kjörfundar. Bakkfirðingar og aðrir íbúar Langanesbyggðar þurfa t.d. að aka um 300-400 km ef þeir vilja kjósa á skrifstofu sýslumanns á Húsavík eða á Reyðarfirði.

Sveitarstjórn telur að þessi ákvörðun sýslumanna mismuni kjósendum og geri mörgum íbúum stórra svæða á landsbyggðinni í raun ókleift að kjósa utan kjörfundar. Skrifstofur sýslumanna eru eingöngu opnar á vinnutíma almennra starfsmanna og síðan getur tekið 5-6 daga að koma bréfi á áfangastað, úti á landi a.m.k., eins og reynslan sýnir. Það er því ekki raunhæft fyrir kjósendur sem búa í dreifbýli að kjósa utan kjörfundar eins og fyrirkomulaginu er fyrir komið við þessar kosningar.

Einnig telur sveitarstjórn Langanesbyggðar mikla þversögn felast í því að fela sveitarstjórn skipan yfirkjörstjórnar, samningu og staðfestingu kjörskrár en treysta svo ekki heimafólki fyrir því að sjá um utankjörfundar atkvæðagreiðslu. Það er álit sveitarstjórnar að ráðuneyti sem og sýslumenn þurfi að skýra þessa þversögn og af henni leidda mismunun kjósenda.

Sveitarstjórn átelur hið algjöra skilningsleysi stjórnvalda á aðstöðu og rétti kjósenda í dreifðum byggðum landsins og skorar á stjórnvöld að bregðast við hið snarasta.