Andlát: Jóhann Ingimarsson
Jóhann Ingimarsson eða Nói eins og hann var kallaður lést sunnudaginn 10. janúar síðastliðinn á Akureyri.
Nói fæddist 23. júlí 1926 og hefði því orðið níræður nú í sumar.
Nói var fæddur og uppalinn í Ingimarshúsi niður við höfnina á Þórshöfn en Ingimarshúsið var ekki langt frá gömlu sundlauginni á Þórshöfn.
Faðir hans var Ingimar Baldvinsson og móðir hans var Oddný Friðrika Árnadóttir.
Nói eignaðist þrjár dætur með Diddu konu sinni (Guðrúnu Helgadóttur), þær Kristínu, Helgu og Guðrúnu. Einnig á Nói dótturina Kristínu Guðrúnu. Bjuggu þau á Akureyri.
Nói nam húsgagnasmíð og síðar hönnun í Kaupmannahöfn. Hann rak lengi vel húsgagnaframleiðslu og síðar húsgagnaverslunina Örkina hans Nóa á Akureyri.
Nói var mikill listamaður og var alltaf hlýtt til gömlu heimahaganna enda heimsótti hann Þórshöfn og Langanes ávallt þegar að tækifæri gafst til.
Nói er höfundur tveggja útilistaverka í Langanesbyggð og hafði hann sjálfur frumkvæði að því að þeim listaverkum væri fundinn staður á svæðinu. Listaverkin eru eftirfarandi:
- Valdi vatnsberi, járn skúlptúr (Lystigarðinum Þórshöfn) til minningar um Guðvald Jón Sigfússon, síðasta vatnsberann á Þórshöfn
- Tundurdufl, Minnisvarði um stríðsógnina (milli Skoruvíkur og Skála).
NBS