Fara í efni

"Auðvitað hafa ekki verð nein bitbein"

Fréttir
Svona mundi sameinað sveitarfélag líta út á landakorti. Mynd RÚV
Svona mundi sameinað sveitarfélag líta út á landakorti. Mynd RÚV

Rúv fjallaði um hugsanlega sameiningu Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps í gær og ræddi við oddvita sveitarfélaganna. 

Oddvitar Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps eru vongóðir um að íbúar samþykki að sameina sveitarfélögin. Stefnt er að því að kjósa um sameininguna 26. mars.

Kosið 26. mars
Sveitarstjórnir Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps áttu í óformlegum viðræðum um sameiningu allt síðasta ár. Þar voru kostir og gallar ræddir og kynningarfundir haldnir fyrir íbúa. Formlegar viðræður hafa svo staðið yfir á þessu ári. Þorsteinn Ægir Egilsson, oddviti Langanesbyggðar og formaður sameiningarnefndar segir viðræður hafa gengið þokkalega. „Það hafa verið tólf fundir í sameiningarnefndinni og það er stefnt að því að kjósa þarna 26. mars og viðræður hafa gengið bara þokkalega,“ segir Þorsteinn.

Nýtt 600 íbúa sveitarfélag
Langanesbyggð varð til við sameiningu Þórshafnarhrepps og Skeggjastaðahrepps árið 2006 en þar búa nú rúmlega 500 manns. Þó stærð Svalbarðshrepps sé nokkuð áþekk búa þar töluvert færri eða tæplega hundrað manns. Sigurður Þór Guðmundsson, oddviti Svalbarðshrepps segir að sveitarfélögin eigi margt sameiginlegt sem auðveldar ferlið. „Auðvitað byrjar þetta að okkar frumkvæði og við sóttumst eftir því við Langanesbyggð að þeir kæmu í sameiningaviðræður við okkur þannig að það er mjög ánægjulegt að við séum komin að þeim tímapunkti að kjósa.“

Engin bitbein
Sigurður segir viðræður hafa gengið vonum framar. „Auðvitað hafa ekki verið nein bitbein, við vissum það öll fyrifram, áður en við fórum í þetta að það væru nokkur atrið sem við þyrftum að skýra og hafa á hreinu og það hefur bara gengið mjög vel.“

Skiptar skoðanir
Þorsteinn segir þetta stóra ákvörðun fyrir fólkið á svæðinu. „Þetta er ákvörðun sem er tekin til framtíðar og henni verður ekkert snúið við. Ef að sameinignin verður samþykkt þá er þetta stór ákvörðun og það eru bara skiptar skoðanir, eins og gengur og gerist í stórum málum,“ segir Þorsteinn