Fara í efni

Auglýsing um skipulagsmál í Langanesbyggð Skipulagslýsing – Tunguárvirkjun í Þistilfirði

Fréttir

Sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkti á fundi sínum þann 30. janúar 2025 að kynna skipulagslýsingu vegna vinnu við breytingu á Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 og við nýtt deiliskipulag vegna Tunguárvirkjunar í Þistilfirði.

Tunguárvirkjun ehf. hefur áform um að reisa vatnsaflsvirkjun í Tunguá í Þistilsfirði með áætlað uppsett afl 2,1 MW og árlega orkuframleiðslu upp á 12 GWst. Virkjunin verður tengd við dreifikerfi Rarik. Markmið skipulagsins er að skapa svigrúm fyrir uppbyggingu virkjunarinnar. Framleiða á hreina og endurnýjanlega orku inn á dreifikerfi raforku og efla þannig orkuöryggi á svæðinu á sjálfbæran hátt. Markmiðiðer einnig að tryggja að framkvæmdir valdi sem minnstum neikvæðum áhrifum á umhverfið og að vandað verði til umhverfisfrágangs. Um er að ræða sameiginlega lýsingu fyrir aðalskipulagsbreytingu og deiliskipulag.

Skipulagsgögnin eru aðgengileg hér á heimasíðu Langanesbyggðar, á skrifstofu sveitarfélagsins og á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar, skipulagsgatt.is, undir málsnúmerunum 129/2025 fyrir aðalskipulagsbreytinguna og 130/2025 fyrir deiliskipulagið. Skipulagsgögnin verða aðgengileg frá fimmtudeginum 6. febrúar til og með föstudagsins 28. febrúar 2025. 

Óskað er eftir ábendingum og sjónarmiðum frá almenningi og umsagnaraðilum. Ábendingar skulu vera skriflegar og merktar „Tunguárvirkjun í Þistilfirði - skipulagslýsing“ og skal nafn sendanda, kennitala og heimilisfang koma fram. Þær skal senda á: Langanesbyggð Langanesvegur 2, 680 Þórshöfn eða á netfangið bjorn.sigurdur.larusson@langanesbyggd.is. Ábendingar verða hafðar til hliðsjónar í skipulagsvinnunni en þeim verður ekki svarað með formlegum hætti.

Tunguárvirkjun í Þistilfirði 

Björn S. Lárusson
Sveitarstjóri Langanesbyggðar