Biðla til Ögmundar
3.apríl 2009
Við sættum okkur ekki við þetta og hættum ekki fyrr en þessi ákvörðun hefur verið afturkölluð. Við teljum öryggi okkar ógnað, segir Hilma Steinarsdóttir, íbúi á Þórshöfn. Hún er ein þeirra sem standa að undirskriftasöfnun meðal íbúa Langanesbyggðar til að mótmæla skertri þjónustu sjúkraflutninga. Jafnframt er skorað á heilbrigðisráðherra að veita nægilegu fjármagni til grunnþjónustu í byggðarlaginu.
Allir sjúkraflutningamenn Þórshafnar hættu störfum um mánaðamót en þeir líta svo á að heilbrigðisstofnun Þingeyinga hafi sagt upp samningum með breytingum á vaktafyrirkomulagi.
Síðastliðin tvö og hálft ár hefur verið greitt fyrir tæplega tvær stöður sjúkraflutningamanna á Þórshöfn en um áramót var ákveðið að greiða aðeins fyrir eina stöðu. Með því sparast 1.600 þúsund krónur á ári. Þessu undu sjúkraflutningamenn ekki og hættu störfum um síðustu mánaðamót. Nú eru 64 kílómetrar í næsta sjúkrabíl á Raufarhöfn en þessi leið er oft illfær. Það eru því að lágmarki 40 til 45 mínútur í sjúkrabíl.
Undirskriftasöfnun hófst í gær og var m.a. gengið í fyrirtæki í bænum. Þá liggja listarnir frammi á helstu stöðum og hægt er að nálgast þá á netinu.
Með undirskriftalistunum viljum við lýsa yfir óánægju og áhyggjum vegna ákvörðunar um að hafa aðeins einn sjúkraflutningamann á vakt við heilsugæsluna á Þórshöfn. Við teljum að öryggi íbúa í Langanesbyggð og Svalbarðshreppi sé ógnað og við skorum á heilbrigðisráðherra að veita nægilegu fjármagni í þá grunnþjónustu sem nauðsynleg er. Okkur hefur verið vel tekið en í sveitarfélaginu ríkir mikil reiði vegna þessarar ákvörðunar, segir Hilma Steinarsdóttir.
Bréf ásamt undirskriftalistunum verða send Ögmundi Jónassyni, heilbrigðisráðherra eftir helgi. Þá fá þingmenn Norðausturkjördæmis afrit af listunum.
Slóð á undirskriftalistann