Fara í efni

Björn S. Lárusson ráðinn sveitarstjóri sameinaðs sveitarfélags Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps

Fréttir

Björn S. Lárusson hefur verið ráðinn sveitarstjóri sameinaðs sveitarfélags Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps frá og með 1. september 2022 og verður ráðningarsamningur við hann tekinn til staðfestingar á næsta sveitarstjórnarfundi.
Starf sveitarstjóra var auglýst þann 16. júní og bárust 4 umsóknir um starfið. Ráðningaferlið var unnið í samstarfi við ráðningaþjónustu Mögnum á Akureyri. Við þökkum umsækjendum einlæglega sýndan áhuga.
Björn er með B.Sc. próf í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og markaðsmál og nam skipulagsmál ferðamála í Lillehammer í Noregi. Auk þess hefur hann stundað nám í samskiptum, almannatengslum og verkefnastjórnun. Björn er menntaður leiðsögumaður og hefur starfað sem slíkur í fjölmörg ár. Hann hefur sinnt starfi skrifstofustjóra í Langanesbyggð og verið þar staðgengill sveitarstjóra. Björn hefur víðtæka stjórnunar- rekstrar- og verkefnastjórnunarreynslu m.a. í tengslum við uppbyggingu hótela hérlendis og erlendis. Hann var framkvæmdastjóri samfélagssamskipta og almennatengsla hjá Bechtel á Reyðarfirði í tengslum við uppbyggingu álvers Alcoa. Björn var markaðs- og atvinnufulltrúi Akraneskaupstaðar um árabil og kom þar meðal annars að stefnumótun og verkefnum í tengslum við opnum Hvalfjarðarganga.
Einnig var Björn fréttamaður, fréttaritari og dagskrárgerðarmaður hjá Rúv í 12 ár. Björn er kvæntur Eydísi Steindórsdóttur.

Við bjóðum Björn velkominn til starfa og horfum saman björtum augum til framtíðar sveitarfélagsins.

Fh.sveitarstjórnar
Sigurður Þór Guðmundsson
Oddviti