Borleyfi á Drekasvæði boðin út eftir ár
18. desember 2007
Leyfi til að rannsaka og bora eftir olíu og gasi á Drekasvæðinu svokallaða verða boðin út hinn 15. janúar eftir rúmt ár. Bæði innlend og erlend félög hafa sýnt áhuga á þessum leyfum.Þetta var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Drekasvæðið er við Jan Mayen hrygginn og hefur lengi verið rætt um um að bora þar eftir olíu. Í sumar veitti ríkisstjórnin 55 milljónir króna í forrannsóknir á svæðinu og nú er svo komið í rannsóknum að menn telja að í byrjun árs 2009 verði þar hægt að bjóða út sérleyfi til rannsókna og vinnslu á olíu og gasi.
Að sögn Einars Karls Haraldssonar, aðstoðarmanns iðnaðarráðherra, þurfa fyrirtæki að hafa góðan tíma til að undirbúa umsóknir um slík sérleyfi og því er þetta tilkynnt nú. Ef eitthvað finnst af olíu og gasi í vinnanlegu magni verður það þó ekki fyrr en eftir áratug sem menn geta farið að bora eftir olíu.
Bæði innlend og erlend félög hafa sýnt svæðinu áhuga enda er á Drekasvæðinu sami setgrunnur og er við Noreg og hefur reynst frændum okkar þar drjúgur til olíuvinnslu.
visir.is