Börn hjálpa börnum!
Þriðjudaginn 9.mars munu nemendur úr 5. og 6. bekk ganga í hús og safna peningum fyrir bástödd börn úti í heimi, m.a. á Indlandi. Þessi söfnun er á vegum ABC samtakanna. Krakkarnir verða á ferðinni á milli 18.00-20.00
"ABC barnahjálp vill hvetja landsmenn til að leggja sitt af mörkum og taka vel á móti börnunum sem banka upp á"
Heimasíða ABC samtakanna: http://abc.is/
Í nánar eru upplýsingar um söfnunina, þessar upplýsingar eru teknar beint af heimasíðu samtakanna.
Börn hjálpa börnum 2010
Forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson tók á móti 30 grunnskólabörnum úr Álftanesskóla mánudaginn 15. febrúar. Börnin eru fulltrúar þeirra barna sem munu á næstu dögum og vikum ganga í hús og safna fé til hjálpar börnum á Indlandi og Burkina Faso. Einnig er hægt að leggja inn á reikning söfnunarinnar nr. 515-14-110000, kt. 690688-1589. Nánari upplýsingar má finna á www.abc.is.
Söfnunin stendur til 20. mars og er ætlunin að safna fyrir brýnustu þörfum í ABC barnahjálp.
Bygging barnaskóla á Indlandi og alvöru búsáhaldabylting í Burkina Faso er meðal þess sem safnað verður fyrir í söfnuninni Börn hjálpa börnum 2010.
Börn hjálpa börnum, árlegt söfnunarátak ABC barnahjálpar fer nú fram í 13. sinn og taka á fjórða þúsund börn í á annað hundrað grunnskólum þátt í söfnuninni með því að ganga í hús og safna fjárframlögum í bauka. Barnaskóla á Indlandi sem mun þjóna um 250 börnum sem búa á El Shaddai barnaheimilinu í Tamil Nadu á Suður-Indlandi, en ABC barnahjálp setti heimilið á fót árið 1995 og hefur rekið það síðan. Heimilið hefur leyfi til að reka skóla við heimilið og er starfræktur skóli á heimilinu fyrir flest börnin. Mjög brýnt er nú að byggja fullnægjandi skólahúsnæði til þess að leyfið verði ekki afturkallað.
Börnin sem dvelja á heimilinu hafa komið úr mjög slæmum aðstæðum og eiga ekki í önnur hús að venda.
Áætlaður kostnaður við rúmlega 200 fermetra skólahúsnæði er um níu og hálf milljón kr.
- Einnig verður safnað fyrir 150 sólarofnum fyrir fátækar fjölskyldur í Burkina Faso. Hver ofn kostar um 5000 - 6000 kr. og getur slíkur ofn gerbreytt lífi fjölskyldu til hins betra.
Fyrstu 150 ofnarnir verða afhentir fjölskyldum barnanna í ABC skólanum, en þar sem fjölskyldurnar borga ofnana smám saman til baka geta aðrar 150 fjölskyldur fengið slíkan ofn fyrsti hópurinn hefur greitt fyrir ofnana sína.
Kostir við slíka ofna eru fjölmargir:
- - Sparar fjölskyldum bæði vinnu, tíma og peninga þar sem ekki þarf lengur að sækja/kaupa eldivið. Þetta dregur úr óæskilegri vinnu barna og eykur líkur á að það séu til peningar fyrir mat.
- -Dregur úr óæskilegu skógarhöggi og tilheyrandi jarðvegseyðingu, sem er sérstaklega mikilvægt í Burkina Faso þar sem þjóðin heyr harðvítuga baráttu við eyðimörkina sem færist nokkra kílómetra lengra inn í landið á hverju ári.
- -Dregur úr mengun. Sólarofninn nýtir eingöngu sólarorkuna og er án mengunar í stað þess að nú er alls staðar eldað á eldiviði sem skapar mikinn reyk og mengun, sem er sérstaklega heilsuspillandi ef eldað er innan dyra.
- -Getur virkað sem atvinnutæki þar sem hægt er að baka í honum brauð og kökur sem hægt væri að selja á markaðinum.
- -Hitnar ekki að utan og því minni líkur á að börn og fullorðnir brenni sig við eldamennskuna heldur en þegar er eldað á opnum eldi.
- -Heldur jöfnum hita á matnum, ekki þarf að hræra í pottinum og engin hætta er á að maturinn brenni við.
- -Er framleiddur í Burkina Faso og framleiðsla hans skapar atvinnu í landinu þar sem flestir eru atvinnulausir.
- -Er ódýr og virkar sérstaklega vel í Burkina Faso þar sem sólin skín næstum alltaf.
Þar sem fjölskyldur ná að draga úr útgjöldum með notkun ofnsins og skapa tekjur þá eiga þær möguleika á að borga andvirði hans til baka á einhverjum tíma. Þetta skapar möguleika fyrir fleiri fjölskyldur að eignast ofn með slíkum hætti. Með litlu framlagi er því hægt að koma af stað alvöru búsáhaldabyltingu sem umbyltir lífi æ fleiri fjölskyldna til góðs.