Bréf frá formanni Slysavarnafélagsins Landsbjargar
17 okt 2008
Meðal efnis:
Bréf frá formanni SL
Um Björgun 2008
Gisting á Björgun 2008
Æskulýðssjóður menntamálaráðuneytisins
Námskeið í sporrakningum
Nýr kostur í bílamálum
..................................................................
Ágæta björgunar- og slysavarnafólk.
Þar sem efnahagsmál íslensku þjóðarinnar hafa nú færst til verri vegar, þá vil ég upplýsa ykkur um að stjórn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar stendur nú útkallsvaktina og undirbýr félagið sem best til að mæta þeim efnahagslegu þrengingum sem ganga nú yfir íslenskt samfélag. Stjórn félagsins vinnur að þessu máli í nánu samstarfi við framkvæmdastjóra félagsins og aðra starfsmenn þess. Um þessar mundir er unnið að ráðagerð innan félagsins um aðhald í rekstri og öðrum viðbrögðum sem tryggja hagsmuni þess og eininga þess sem best. Af þessum sökum má búast við einhverjum breytingum á starfsháttum og áherslum sem unnið hefur verið eftir.
Þrátt fyrir þetta gerum við okkur öll grein fyrir skyldum félagsins og einingum þess fyrir íslenskt samfélag. Við vitum að félagið okkar og einingarnar ætla að halda áfram að vera til og starfa áfram líkt og þær hafa gert hingað til. Við ætlum að halda áfram að halda merki og hugsjónum félagsins hátt á lofti og hlúa að slysavarnareldmóðinum og björgunarhugsjóninni. Á svona tímum þurfum við eimitt að huga sérstaklega að félagsandanum í öllum einingum og í innviðum félagsins.
Þegar erfiðleikar steðja að, þá þurfum við öll að standa saman í baráttunni fyrir bjartri framtíð fyrir björgunarsveitir og slysavarnardeildir á Íslandi. Við þurfum að standa saman og mæta með skilningi breytingum á hlutum sem okkur fram til þessa hafs þótt svo sjálfsagðir. Við þurfum einnig að líta á okkar eigin einingar og leggja á ráðin með hvaða hætti þær geta brugðist við.
Náttúruöflin munu og eru sífelt að minna á sig. Slys og óhöpp munu halda áfram að eiga sér stað, þannig að þörfin fyrir okkar fórnfúsa starf er mikil. Þetta þurfum við m.a. að hafa að leiðarljósi þegar við undirbúum okkur undir komandi fjáröflun, sem er salan á Neyðarkallinum. Í þeirri söluherferð verðum við að leggja áherslu á mikilvægi björgunarsveitanna og slysavarnardeildanna og benda fólki jafnframt á að hagnaður af sölunni verði allur nýttur í þágu þjóðarinnar þ.e. hér innanlands.
Framundan er einnig ráðstefnan Björgun 2008. Hún verður haldinn líkt og gert hefur verið ráð fyrir, þó svo að sparnaðar sé gætt við skipulagningu og uppsetningu hennar. Ég vil sérstaklega hveta félagsmenn að fjölmenna á ráðstefnuna, bæði til þess að upplifa þar frábæra fyrirlestra (jafnt innlenda sem erlenda) og ekki síður til þess að koma og hittast í góðra vina hópi. Við þurfum á því að halda að hittast og heyra hvert í öðru. Þetta er afar mikilvægt á tímamótum eins og þeim sem við upplifum.
Með félagskveðju
Sigurgeir Guðmundsson
formaður
Slysavarnarfélagsins Landsbjargar
..................................................................
Upplýsingar um ráðstefnuna Björgun 2008.
Ráðstefnan Björgun 2008 verður haldin helgina 24. - 26. október á Grand Hóteli í Reykjavík. Félagar eru hvattir til að skrá sig sem fyrst á heimasíðu félagsins, www.landsbjorg.is.
Gefið hefur verið út ráðstefnurit þar sem er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar. Það má finna á PDF formi hér.
Þeir sem ætla í hátíðarkvöldverð í Bláa lóninu á laugardagskvöldið eiga þess kost að nýta sér rútuferðir til og frá staðnum.
Rúta fer frá Grand Hótel klukkan 18:00 fyrir þá sem ætla ofan í Bláa Lónið fyrir kvöldverð og svo kl. 19:15 fyrir aðra. Rútur fara til baka frá Bláa Lóninu kl. 23:00.
..................................................................
Gisting á meðan ráðstefnan Björgun 2008 stendur yfir.
Nokkrar sveitir á höfuðborgarsvæðinu geta tekið á móti félögum utan af landi sem hafa hug á að sækja ráðstefnuna Björgun. Þeir sem áhuga hafa á að nýta sér slíka gistingu geta haft samband við tengiliði sveitanna.
HSSK getur tekið á móti 15 manns, tengiliður er Elvar, sími 694 1870.
HSSR getur tekið á móti 10-15 manns, tengiliður er Hlynur, sími 893 0336.
HSG getur tekið á móti 15-20 manns, tengiliður er Hörður, sími 862 6571.
Björgunarsveit Hafnarfjarðar getur tekið á móti 20 manns, tengiliðir eru Júlíus, sími 665 6143 og Ingólfur, sími 895 1484.
Björgunarsveitin Kyndill er með bedda fyrir átta manns, tengiliður er Hlynur, sími 664 3498.
..................................................................
Æskulýðssjóður menntamálaráðuneytisins
Næsti umsóknarfrestur í Æskulýðssjóð menntamálaráðuneytisins er 1. nóvember 2008. Hlutverk sjóðsins er að styrkja eftirtalin verkefni á vegum æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka:
1. Sérstök verkefni sem unnin eru fyrir börn og ungmenni og/eða með virkri þáttöku þeirra.
2. Þjálfun forystufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða
3. Samstarfsverkefni æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka.
Hvorki er heimilt að styrkja árvissa viðburði eða fasta viðburði í félagsstarfi, svo sem þing, mót eða þess háttar viðburði, né ferðir hópa.
Umsóknarfrestur í Æskulýðssjóð er fjórum sinnum á ári, 1. febrúar, 1. apríl, 1. september og 1. nóvember og er umsóknarfrestur auglýstur hverju sinni.
Vakin er sérstök athygli á að umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á umsóknarvef Stjórnarráðsins á vefslóðinni http://umsóknir.stjr.is
Nánari upplýsingar um Æskulýðssjóð og umsóknarferlið er að finna á vef menntamálaráðuneytis. Einnig veitir Pálína Kristín Garðarsdóttir upplýsingar í síma 545 9500 eða í tölvupósti á palina.gardarsdottir@stjr.is
..................................................................
Námskeið í sporrakningum
Í tengslum við ráðstefnuna Björgun 2008 ætla félagarnir Ross Gordon og Tony Wells frá SARINZ á Nýja Sjálandi að vera með námskeið í sporrakningum og fyrstu viðbrögðum á vettvangi fyrir leitarhópa.
Námskeiðið hefst klukkan 09:00, fimmtudaginn 23. október í Skógarhlíðinni og er það opið öllu björgunarsveitafólki og öðrum þátttakendum á Björgun 2008. Þeir sem sótt hafa Fagnámskeið í leitartækni og þeir sem starfa í leitarhópum eru sérstaklega hvattir til að mæta.
Ekkert þátttökugjald er á námskeiðinu. Skráning fer fram hjá Björgunarskólanum í síma 570 5900 eða með tölvupósti á sigosig@landsbjorg.is. Auglýsingu fyrir námskeiðið má finna hér.
Frábært tækifæri - ekki missa af þessu!
..................................................................
Nýr möguleiki í bílamálum björgunarsveita
Bílaleigan Ísak ehf. er nýlegt fyrirtæki í ferðaþjónustunni og hefur sérhæft sig í leigu á breyttum jeppum. Þessir jeppar, 9 Land Rover Defender 110, voru einkum hugsaðir sem nýtt afþreyingarinnlegg í ferðaþjónustuna með lestarferðum fyrir hópa undir íslenskri leiðsögn (Convoy Tours). En þegar Hjálparsveit skáta í Kópavogi leigði nýverið einn bílanna til nýliðaæfingar í Þórsmörk yfir helgi sást að þessir bílar myndu geta nýst vel til að brúa bilið þegar nægur bílakostur björgunarsveita er ekki fyrir hendi, eins og við björgunaræfingar, í útköll eða þegar upp kemur skammtíma bílaskortur vegna viðgerða eða kaupa á nýjum farartækjum.
Landróverum jeppaleigunnar Ísaks var breytt af SSGísla. Þeir eru af 2008 árgerð með nýrri og eyðslugrannri dísilvél, 6 gíra kassa, sídrifi og mjög vel útbúnir á 38 Arctic Trucks dekkjum með afkastamikilli loftdælu, góðri VHF-stöð með almennum rásum ferðaklúbba, með GPS-tæki, kaðli og skóflu og tappasetti. Mögulegt er einnig að fá með þeim tengdamömmubox og auka eldsneytisbrúsa.
Komi til þess að björgunarsveitir landsins þurfi á þessum bílum að halda mun Ísak mun bjóða þeim sérkjör nú í vetur, að því tilskildu að vanir og varkárir bílstjórar verði settir á bílana. Tryggingarmál eru samkomulagsatriði í hvert skipti.
Nánari upplýsingar um þessa bíla má fá á www.4x4rental.is , info@isafoldtravel.is og/eða 544 8866, og sjá má mynd af þeim hér.