Bremenports rannsakar aðstæður í Finnafirði
Þýska fyrirtækið Bremenports mun stofna fyrirtæki á Íslandi á næstunni og mun það félag standa straum að nauðsynlegum rannsóknum og athugunum í Finnafirði og mögulegri hafnargerð.
Allt frá árinu 2012 hefur EFLA verkfræðistofa unnið að málefnum hugsanlegrar Finnafjarðarhafnar með Bremenports.
Bremerhavenhöfn er 4. stærsta höfn í Evrópu og alfarið í eigu Bremen. Fyrr á árinu komu sérfræðingar félagsins til landsins og áttu viðtöl við sérfræðinga á ýmsum sviðum hér á landi. Við það tækifæri komu sérfræðingarnir víða við á Íslandi og sinntu störfum í Finnafirði sem er rétt sunnan við Þórshöfn á Langanesi, segir í fréttatilkynningu.
Rannsóknir Bremenports snúa að uppsetningu mælitækja á sjó og landi, umhverfisrannsóknum og jarðtæknirannsóknum. Rannsóknarsvæðið er bæði á landi og í sjó og er hlutinn á landi um 1000 ha að stærð. Áætlað er að rannsóknar- og úttektarvinna muni taka minnst þrjú ár.
Fyrsti áfangi rannsókna mun kosta um 45 milljónir króna og verður hann unninn árið 2014. Að þessari vinnu munu koma ýmsir sérfræðingar hér á landi.
„Það skal skýrt tekið fram að einungis að undangengnum rannsóknum og að því gefnu að þær komi jákvætt út verður hugað að hönnun og byggingu hafnarmannvirkja. Það má því fyrst reikna með framkvæmdum eftir 5-8 ár héðan í frá,“ segir í tilkynningu frá EFLU.
/mbl.is