Byggðaráð álytkar aftur um lokun bifreiðaskoðunarstöðvar á Þórshöfn
Byggðaráð Langanesbyggðar hefur að öðru sinni ályktað um lokun Frumherja á bifreiðaskoðunarstöð fyrirtækisins á Þórshöfn. Ályktunin er svohljóðandi:
Um leið og svör Frumherja eru þökkuð, er bent á eftirfarandi: Um er ræða lögbundna skoðun bifreiða, sem allar bifreiðar verða að undirgangast. Frumherji er með samning við ríkið um þessa skoðun og fyrirtækið var einkavætt á þeim forsendum að það sinnti þessari þjónustu við íbúa. Kostnaður bifreiðaeigenda við akstur til Vopnafjarðar eða Húsavíkur á opnunartíma Frumherja er talsverður, sérstaklega fyrir atvinnubíla sem jafnvel þurfa að fara fleiri ferðir vegna tengivagna og annars búnaðar. Til viðbótar kemur að bifreiðaeigendur þurfa flestir að taka sér frí úr vinnu heilan dag til að komast með bifreiðar sínar til skoðunar. Frumherji hefur verið með aðstöðu á svæðinu til skoðunar bifreiða og það gengið vel og því er þeim fullyrðingum hafnað um „fábrotnar“ aðstæður sé um að ræða. Rauntilgangur Frumherja virðist því fyrst og fremst vera að draga úr þjónustu við bifreiðaeigendur til að lækka eigin rekstrarkostnað. Einnig vill byggðaráð benda á að það sé gagnstætt byggðastefnu stjórnavalda að skerða þjónustu ríkisins í hinum dreifðari byggðalögum landsins eins og Frumherji gerir með þessari ákvörðun sinni.
Byggðaráð krefst þess að Frumherji og ríkisvaldið tryggja að skoðun bifreiða verði áfram á Þórshöfn og öðrum nærliggjandi byggðarlögum eins og verið hefur.