Einleiksflauta tæknivæðist
Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari verður á ferð á Langanesi í næstu viku og heldur tónleika á Kaffi Smala á mánudagskvöldið 11. júní, en sá staður hefur nýlega verið opnaður á Farfuglaheimilinu á Ytra Lóni. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30.
Tónleikarnir bera yfirskriftina Einleiksflauta tæknivæðist en þar er auk þverflautunnar notast við ýmsa tækni. Sjálf segir Áshildur um tónleikana: Það má segja að flautan sé eins konar eins manns hljómsveit sem lætur gamminn geysa í þessari efnisskrá sem fer yfir víðan völl. Ég hef valið verk sem bæði eru í uppáhaldi hjá mér og eru vinsæl meðal áheyrenda sem og glænýtt verk sem flautuleikarann og tónskáldið Þuríður Jónsdóttir var samdi sérstaklega fyrir mig á árinu. Meira en helmingur verkanna krefst tækni af einhverju tagi, s.s. vídeó, hljóðupptöku, uppmögnunar eða bergmálspedals. Þaðan kemur titillinn. Þar sem ég mikil áhugamanneskja um þátttöku áheyrenda verða áheyrendur verða beðnir um að taka þátt í flutningnum með því að gefa frá sér ýmis hljóð sem tengjast flautuleik.
Á efnisskránni eru klassísk verk eftir C.Ph.E. Bach og Karg-Elert og ekki er hægt að hugsa sér einleiksflaututónleika án þessa að Syrinx eftir Debussy fái að óma. Það er án efa þekktasta flautusólóið sem nokkurntíman hefur verið samið.
Þeir Davidovsky og Þorsteinn Hauksson semja fyrir flautu og rafhljóð með 30 ára millibili og er gaman að bera þau saman. Verkið Techno Yaman eftir R. Dick er fyrir flautu, hljómborð og trommuheila er mjög áhorfendavænt, taktvisst og exotískt. The Great Train Race eftir Ian Clarke frá 2008 hefur farið eins og eldur í sinu meðal flautuleikara, heyrn er sögu ríkari en verkið lýsir á ævintýralegan hátt ofsaakstri þunglamalegra gufulesta. Verkið 6 tónamínútur í vídeó-útgáfu eftir Atla Heimi Sveinsson er 6 mínútulangar myndir með tilheyrandi tónlist.
Loks er það Jakabossa Jóga eftir Þuríði Jónsdóttur. Tónskáldið lætur eftirvarandi orð falla um verkið:
"Jakabossa Jóga er ný tegund af jóga (svona til hliðar við Kundalini joga, Raja joga.... og öll þessi skrýtnu nöfn)! Hljóðfæraleikarinn og áheyrendur flytja verkið í sameiningu. Tveir úr salnum bera heimatilbúnar hljóðkórónur og hinir framkalla örfá, endurtekin hljóð eftir fyrirmælum sem birtast á skjá á sviðinu. Margir segja að það sé skemmtilegra að flytja tónlist en að hlusta á aðra flytja tónlist. Hér fá allir að vera með! Afturhvarf til upphafsins? Það eru aðeins nokkrar aldir í sögunni sem við þekkjum skiptinguna performer/ áheyrendur. Tónlistin hefur verið til með manninum frá fyrstu tíð og iðkuð af hópi fólks að gera eitthvað SAMAN: Vinna úti á ökrunum, blíðka guðina, skemmta sér... "
Áshildur Haraldsdóttir nam flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk síðan háskólaprófum frá The New England Conservatory of Music, Juilliard skólanum í New York og Konservatoríinu í París. Hún hefur unnið til verðlauna í fjórum alþjóðlegum tónlistarkeppnum og hljóðritað fimm einleiksgeisladiska. Auk þess að koma reglulega fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur hún leikið einleik með hljómsveitum í fjórum heimsálfum og komið fram í útvarpi og sjónvarpi í yfir 20 löndum. Áshildur hefur verið meðlimur í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 2004. Árið 2010 var Áshildur sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín á vettvangi íslenskrar tónlistar.