Endurvinnsluvika 15. til 19. september 2008
Reykjavík, 11.9. 2008
Vikuna 12.19. september verður haldin endurvinnsluvika í fyrsta sinn á Íslandi.
Að átakinu stendur Úrvinnslusjóður í samvinnu við umhverfisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, Sorpu, Gámaþjónustuna, Íslenska gámafélagið og Endurvinnsluna. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra mun setja endurvinnsluvikuna 12. september.
Lögð verður áhersla á að kynna mikilvægi endurvinnslu fyrir íslenskt samfélag, sérstaklega á pappa, pappír og plasti. Sérstök áhersla verður lögð á kynningu fyrir unglinga þar sem kannanir benda til að fólk á aldrinum 16-20 ára standi sig einna verst í flokkun sorps. Flestir framhaldsskólar landsins munu taka þátt í endurvinnsluvikunni.
Hvatt verður til kennslu um mikilvægi endurvinnslu í lífsleikni í framhaldsskólum og hefur verið útbúið sérstakt kennsluefni af þessu tilefni. Jafnframt hefur verið útbúin undirsíða á vef Úrvinnslusjóðs þar sem gefin verða góð ráð varðandi endurvinnslu fyrir allan almenning og þar verður einnig hægt að nálgast kennsluefnið.
Til viðbótar við þetta verða birtar auglýsingar þar sem hvatt er til endurvinnslu.
Kynningarátakið hefst formlega með fjölmiðlafundi sem haldinn verður á morgun, föstudaginn 12. september, kl. 11.30. Kynningarefni verður aðgengilegt sama dag á vef Úrvinnslusjóðs, www.urvinnslusjodur.is/endurvinnsluvika. Birting auglýsinga í tengslum við átakið hefst daginn eftir í dagblöðum og á vefmiðlum.
Vefborðar
Hannaður hefur verið vefborði þar sem átakið er kynnt. Borðinn verður notaður í vefauglýsingum auk þess sem gert er ráð fyrir að samstarfsaðilar og sveitarfélög setji hann upp á vefsíðum sínum daginn sem átakið verður ræst. Einnig er mælst til þess að upplýsingar um endurvinnslu og flokkun séu aðgengilegar á vefsvæði hvers sveitarfélags, þ.e. hvert má skila til endurvinnslu og hvernig flokkun er háttað.
Næstu skref
Mælst er til þess að sveitarfélögin komi eftirfarandi í framkvæmd:
Ø Sjái til þess að upplýsingar um endurvinnslu og flokkun séu aðgengilegar á vefsvæðum hvers sveitarfélags.
Ø Sjái til þess að söfnunartunnur /-gámar á söfnunarstöðvum sveitarfélaganna séu vel merktar svo ekki fari á milli mála hvert eigi að skila pappa, pappír og plasti.
Ø Setji upp á vefsíður sínar vefborða átaksins mánudaginn 15. september (borðinn verður sendur öllum samstarfsaðilum föstudaginn 12. september).
AP almannatengsl sjá um skipulagningu og framkvæmd átaksins fyrir hönd Úrvinnslusjóðs.
Með von um gott samstarf með samstilltu átaki getum við áorkað miklu!
Fyrir hönd Úrvinnslusjóðs,
Hrönn Hrafnsdóttir Guðlaugur Sverrisson
AP almannatengsl verkefnastjóri hjá Úrvinnslusjóði
sími 511 1230/820 4461 sími 517 4700
netfang hronn@appr.is netfang gudlaugur@urvinnslusjodur.is