Skipulagslýsing um fyrirhugað deiliskipulag
Auglýsing um skipulagsmál í Langanesbyggð
Skipulagslýsing um fyrirhugað deiliskipulag
Sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkti á fundi sínum þann 2. júlí 2020 að auglýsa og
leita umsagnar um eftirtalda skipulagslýsingu í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010:
Hafnartangi, Bakkafirði
Skipulagslýsing fyrir deiliskipulag
Skipulagssvæðið er um 4,7 hektarar að stærð og miðast skipulagsmörk við strandlengjuna og götu við Hafnargötu og Kötlunesveg. Þar eru íbúðarhús og atvinnuhúsnæði þar sem rekin er ýmis starfsemi. Nyrst á tanganum er kaupfélagshúsið og gamla höfnin sem ber vott um sögu og uppruna þéttbýlisins. Svæðið er skilgreint sem miðsvæði, athafnasvæði og opið svæði til sérstakra nota í gildandi aðalskipulagi.
Bakkafjörður er skilgreindur sem brothætt byggð og er fyrirhugað deiliskipulag mikilvægur liður til að styrkja innviði samfélagsins. Með bættri aðstöðu styrkist aðdráttarafl Bakkafjarðar og grundvöllur fyrir ferðafólk að dvelja á svæðinu.
Helstu viðfangsefni deiliskipulagsins verða:
- Skilgreining á lóðamörkum og byggingarreitum
- Aðkoma að svæðinu, bílastæði og salernisaðstaða
- Göngustígar um svæðið, á bakkanum og niður í fjöru
- Dvalarsvæði með bekkjum og skiltum um sögu svæðisins
- Svæði fyrir náttúrulaug úr grjóti
- Ásýnd svæðisins, gróður og lýsing
Skipulagslýsingin verður til sýnis á skrifstofu sveitarfélagsins og á heimasíðu Langanesbyggðar, www.langanesbyggd.is. Óskað er eftir ábendingum og sjónarmiðum um efni lýsingarinnar frá íbúum og umsagnaraðilum. Ábendingar skulu vera skriflegar og merktar “Skipulagslýsing – Hafnartangi, Bakkafirði ” og skal nafn sendanda, kennitala og heimilisfang koma fram.
Frestur til að skila inn ábendingum um skipulagslýsinguna er til miðvikudagsins 22. júlí 2020. Þær skal senda á:
Langanesbyggð, skipulag
Fjarðarvegi 3, 680 Þórshöfn
eða á netfangið skipulag@langanesbyggd.is