Fimbulfjör á þorrablóti
Hundrað og tuttugu manns sóttu þorrablót Grunnskólans á Þórshöfn s.l. fimmtudagskvöld þar sem börn og fullorðnir skemmtu sér saman. Óhætt er að segja að Þorramaturinn hafi runnið ljúflega niður við söng, glens og gaman.
Nemendur slógu í gegn með fjölbreyttum skemmtiatriðum og greinilegt að söngmenningin blómstrar í skólanum. Líney stjórnaði kór yngri nemenda sem sungu um hann Snorra, Þorraþrælinn og fleiri lög tengd Þorranum. Sjötti og sjöundi bekkur sá um kynninguna og stóðu Margrét og Bergþóra sig vel í hlutverkum kynna auk þess sem Anna María flutti fróðlegan pistil um Þorrann.
Áttundi bekkur reyndi á leikræna tilburði foreldra sem voru greinilega sumir að stíga sín fyrstu skref á sviði. Níundi bekkur bauð kennurum og foreldrum upp á stóladans og tíundi bekkur stóð fyrir eyðibýlagetraun þar sem Nornirnar þrjár báru sigur úr býtum. Atriði kennara þar sem þorrablótsgestir spreyttu sig á því að stökkva yfir sauðalegg og reisa horgemling vakti mikla kátínu og rúsínan í pylsuendanum var svo óborganlegt atriði foreldra þar sem Vúdúdúkkur voru í aðalhlutverki.