Fjárhagsáætlun 2018 afgreidd í sveitarstjórn
Fjárhagsáætlun Langanesbyggðar árið 2018 var samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnar 14. desember sl.
Skv. henni eru tekjur A- og B-hluta sveitarsjóðs áætlaðar samtals 883 m.kr. og gjöld samtals 732 m.kr. Því eru áætlaðar um 103 m.kr. í afgang af rekstri, sem nemur um 12% af tekjum ársins, en niðurstaða fyrir fjármagnsliði er jákvæð um 150 m.kr. skv. áætluninni. Fjármagnskostnaður er áætlaður um 47,5 m.kr. sem nemur um 5% af tekjum næsta árs. Fjárhagsstaða sveitarfélagsins hefur styrkst undanfarið og verður skuldahlutfall þess 77% í árslok, skv. útkomuspá.
Ákveðið er að ráðast í spjaldtölvuvæðingu grunnskólans á Þórshöfn á næsta ári og gerðar verði umtalsverðar endurbætur og lagfæringar á íþróttamiðstöðinni Veri. Þá var ákveðið að hefja undirbúning að stækkun hjúkrunar- og dvalarheimilisins Nausts auk nokkurra annarra verkefna sem samþykkt voru í aðgerðaáætlun næsta árs. Vegna byggingar nýs leikskóla á næsta ári hækka skuldir sveitarfélagsins um 90 m.kr., í um 573 m.kr. í lok árs 2018, en gert er ráð fyrir að þær verði komnar undir 390 m.kr. í árslok 2021.
Skv. þriggja ára áætlun, 2019-2021 er gert ráð fyrir hækkun tekna um 110 m.kr. en gjalda um 14 m.kr. og að rekstrarafgangur verði rétt undir 130 m.kr. árið 2021. Á tímabilinu er áætlað að rekstrarniðurstaða verði jákvæð um 5,1% í lok þessa árs, en verði á bilinu 11,7-13,1% á til ársins 2021. Enn fremur er gert ráð fyrir að hlutfall fjármagsliða lækki úr 5,5% í 3,5% í árslok 2021, með aukinni getu sveitarfélagsins til að borga niður lán.