Fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 samþykkt
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2024 - 2026 var samþykkt á 8. fundi sveitarstjórnar fimmtudaginn 1. desember. Í skýrslu sveitarstjóra er fjallað um skýrsluna.
Við allan samanburð tekna og gjalda fyrir þetta ár og næsta ár, borið saman við síðustu ár verður að taka tillit sameiningar sveitarfélaganna um mitt þetta ár. Í raun hafa framlög jöfnunarsjóðs vegna sameiningarinnar á þessu ári ekki mikil áhrif á rekstrarreikninginn sem slíkan en meiri áhrif á efnahaginn þar sem framlagið í ár fór að mestu í að greiða niður yfirdráttarskuldir og smærri skuldir við lánastofnanir – eða þær skuldir sem hægt var að greiða niður eða hagstætt að greiða. Þetta létti þó óneitanlega undir með rekstrinum.
Gert er ráð fyrir að samantekinn rekstur A og B hlutar sveitarsjóðs verði góður á næsta ári eða með rúmlega 58 milljóna króna afgangi en á yfirstandandi ári verði afgangur um 44 milljónir króna. Með því má ætla að hægt verði að halda lántökum í lágmarki á næsta ári að því gefnu að ekki verið farið út í miklar eða stórar framkvæmdir. Fjárfestingar á árinu 2023 stefna í að verða um 140 milljónir en allt viðhald samkvæmt viðhaldsáætlun er komið inn í rekstraráætlun og verður gjaldfært árið 2023. Á hinn bóginn bíða okkar mjög stór verkefni á næstu árum og framhjá því verður ekki litið. En - á heildina litið er staða sveitarsjóðs góð hvar sem litið er á lykiltölur rekstrar.
Rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða á A og B hluta er áætlaður á næsta ári tæplega 141 milljón en fjármunatekjur og gjöld eru áætlaðar um 82 milljónir á næsta ári. Á yfirstandandi ári er samkvæmt útkomuspá gert ráð fyrir að niðurstaða án fjármagnsliða verði um 149 milljónir en að teknu tillitil til fjármagnsliða verði afgangurinn eins og áður segir 44 milljónir króna. Svo há fjármagnsgjöld skýrast að mestu leiti af verðbótum og vaxtahækkunum en þær verða líklega um í 105 milljónir á þessu ári en fara vonandi lækkandi næstu ár.
Helstu forsendur áætlunarinnar eru um 8,1% hækkun flestra gjalda vegna verðbólgu en útsvar er óbreytt þar til lög um hlutfallslega aukningu úrsvars sveitarfélaga úr 14,52% í 14,78% verða að veruleika í fjárlögum til að mæta auknum útgjöldum til félagsþjónustu, sérstaklega til málefna fatlaðra. Rúmlega 17 milljóna króna bakreikningur vegna félagsþjónustu fyrir árið 2021 kom okkur vægast sagt í opna skjöldu. Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir 2022 má búast við reikningi að upphæð um 19 milljónir króna vegna félagsþjónustunnar fyrir yfirstandandi ár.
Hækkun leikskólagjalda verður 6% og til að koma til móts við barnafjölskyldur er ráðgert að hækka frístundastyrk og jafnvel tengja hann við líkamsrækt í íþróttamiðstöðinni en þessar hugmyndir sem eru í vinnslu verða kynnar við umræðu um gjaldskrár sem verður á dagskrá síðustu funda byggðaráðs og sveitarstjórnar þetta árið.
Heildartekjur A-hluta á næsta ári eru áætlaðar rúmur milljarður króna og A og B hluta 1315 milljónir króna. Veltufé frá rekstri er gert ráð fyrir að verði 145 milljónir króna á móti 136 milljónum í ár. Við stöndum því betur fjárhagslega en mörg önnur sveitarfélög en – eins og sagt var hér á undan þá eru mörg stór og fjárfrek verkefni framundan.
Fasteignagjöld munu taka nokkrum breytingum vegna sameiningar sveitarfélaganna eins og tillögur hér á undan voru tíundaðar í fundargerð byggðaráðs sem samþykkt var. Þannig mun fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði lækka úr 0,625% í 0,6% sem er um 4% lækkun. Fasteignamat í mörgum sveitarfélögum úti á landi er lágt sem leiðir til mikils mismunar þegar að því kemur að byggð verða íbúðarhús þar sem veðhlutfall miðast við fasteignamat.
Í janúar taka gildi ný lög um breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald – EES reglur um hringrásarhagkerfi nr. 103/2021. Þessi lagabreyting hefur í för með sér miklar breytingar fyrir sveitarfélög og unnið er hörðum höndum að því að koma til móts við þær kröfur sem settar eru fram í lögunum. Lögin krefjast mikillar heimavinnu okkar og eitt okkar fyrsta verk á næsta ári er að undirbúa móttökusvæði sem verður þannig úr garði gert að það getur tekið á móti og flokkað sorp sem ætti að draga töluvert úr kostnaði og einfalda móttöku.
Í Þjónustumiðstöð verður bætt við einu stöðugildi og farið verður í að endurskilgreina hlutverk og störf til að ná sem mestum árangri og þeim markmiðum sem sett voru á sínum tíma þegar áhaldahús og umsjón hafna voru sameinuð undir Þjónustumiðstöðina. Verkefni er varða sorpmál fá aukið vægi í þessari vinnu vegna endurskipulagningar móttökustöðvar.
Enn fremur eru uppi hugmyndir um endurskilgreiningu starfa við íþróttamiðstöðina þannig að öllum kröfum um öryggi og aðgengi verði framfylgt. Stóra verkefnið sem snýr að gagngerum endurbótum á VERI bíður okkar og fer ekkert, en vonandi batnar ástandið á lánamarkaði, aðföngum og vinnuafli þannig að hægt verði að fara sem fyrst í þessar framkvæmdir.
Eins og undanfarin ár er hallarekstur á Dvalarheimilinu Nausti en hann hefur farið minnkandi frá árinu 2019 þegar hann var um 41 milljón króna. Á næsta ári má búast við að hann verði um 25 milljónir króna þrátt fyrir aukið framlag ríkisins, meðal annars vegna Covid á þessu ári sem þó hefur að öllum líkindum ekki staðið undir auknum kostnaði vegna faraldursins.
Sameiginlegur kostnaður jókst verulega á þessu ári af ýmsum ástæðum. Ber þar helst að nefna launakostnað vegna vinnu við sameiningu sveitarfélaganna sem kostaði mikla aukavinnu. Tvennar kosningar voru á árinu og í kjölfar kosninga komu svo sveitarstjóraskipti. Gert er ráð fyrir sameiginlegur kostnaður verði um 10 milljónum króna lægri á næsta ári þrátt fyrir að ráðið verður í stöðu gjaldkera og launafulltrúa þannig að skrifstofan verður fullmönnuð. Mikið álag hefur verið á starfsfólki vegna ýmissa mála svo sem sameiningar, sveitarstjórnarkosninga, skipan nýrra fulltrúa í nefndir og nýrra fulltrúa í sveitarstjórn en slíkt fylgir ætið kosningum til sveitarstjórna.
Þegar öllu er á botninn hvolft stendur sveitarfélagið Langanesbyggð vel fjárhagslega, gagnstætt mörgum sveitarfélögum, en eins og ég hef áður komið inná, þá bíða okkar mörg og stór verkefni sem sum hver þola litla bið. Í því efni þurfum við að fara fljótlega í endurskoðun á 3ja ára áætlun til að gera ráð fyrir þessum framkvæmdum. Þær varða íþróttahúsið, höfnina, frárennslismál, húsnæðismál og sorpmál svo eitthvað sé nefnt.