Fara í efni

Fjárheimtur Brekknafólks

Íþróttir
Góðan og blessaðan daginn.Langaði að segja ykkur frá skemmtilegum fjárheimtum sem Kristín Kristjánsdóttir og Úlfar Þórðarson á Syðri-Brekkum lentu í í dag sunnudaginn 13.apríl. Frést hafði af 8 vetra

Góðan og blessaðan daginn.

Langaði að segja ykkur frá skemmtilegum fjárheimtum sem Kristín Kristjánsdóttir og Úlfar Þórðarson á Syðri-Brekkum lentu í í dag sunnudaginn 13.apríl. Frést hafði af 8 vetra tvílembdri kind nálægt Skoruvík á Langanesi í gær og þótti henni svipa til einnar kindar þeirra hjóna sem ekki skilaði sér sl. haust.

Hjónin á Brekkum, ásamt sonum,  tengdadóttur og barnabörnum lögðu þá upp í leitarferð í morgun og voru vart komin fram undir Höfða þegar húsbóndinn, Úlfar, kom auga á kindina ásamt tveimur gimbrum.

Nú hófst eltingarleikur sem endaði þannig að Kristján, Þórður og Adam Árni,fóstursonur Kristjáns, nálguðust féð eins og ljón í vígahug og á einu og sama andartakinu voru þær handsamaðar, hver með sinn "smala" ofan á sér:) Kindin reyndist vera  Silfurlín, en hún hafði verið talin af, ásamt lömbum sínum þar sem hún skilaði sér ekki í haust.  Þær voru allar ótrúlega vel á sig komnar þrátt fyrir óblíðan vetur á Langanesinu.

Að sjálfsögðu voru eigendurnir fundinum fegnir og ekki mátti betur sjá en féð væri það líka þegar það var komið í hús á Sætúni.

Kv.Kristín Heimisdóttir.