Fara í efni

Fjárveitingar til að rannsaka Drekasvæðið

Fundur
28. nóv. 2007 23:30 Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis leggur til, að tæplega 160 milljónum króna verði á næsta ári varið til rannsókna á svonefndu Drekasvæði við Jan Mayen-hrygg til að undirbúa

28. nóv. 2007 23:30
 
Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis leggur til, að tæplega 160 milljónum króna verði á næsta ári varið til rannsókna á svonefndu Drekasvæði við Jan Mayen-hrygg til að undirbúa sérleyfi til rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á svæðinu.

Ríkisstjórnin samþykkti á árinu 2005 að hefja undirbúning olíuleitar á Drekasvæðinu við Jan Mayen-hrygg.

Iðnaðarráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti  og umhverfisráðuneyti standa saman að verkefninu um leit, rannsóknir og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæði árin 2008 til og með 2011.

 Heildarkostnaður vegna verkefnisins verður 175,6 milljónir árið 2008, 108,6 milljónir árið 2009, 66,6 milljónir árið 2010 og 73,6 milljónir árið 2011.

Meirihluti fjárlaganefndar  leggur til, að Orkustofnun fái  101,4 milljóna króna tímabundið framlag til að hefja undirbúning að útgáfu sérleyfa til rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæðinu.

Þá leggur nefndin til að Hafrannsóknastofnun fái 51,2 milljóna króna heimild á næsta ári til athugana á umhverfi og lífríki fyrirhugaðs olíuleitarsvæðis á Drekasvæði við Jan Mayen-hrygg. Gert er ráð fyrir að stofnunin fái 32 milljónir til rannsóknanna 2009.

Loks er lagt til að Umhverfisstofnun fái 5 milljóna króna tímabundið framlag til að undirbúa stjórnsýslu og starf í vinnuhópum OSPAR-samningsins um verndun Norðaustur-Atlantshafsins vegna undirbúnings olíuleitar á Drekasvæðinu.

Fram kemur í tillögum fjárlaganefndar, að í tengslum við undirbúning á útboði sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á svæðinu sé lögð áhersla á að samtímis verði gerðar athuganir á lífríkinu. Svæðið sé tiltölulega lítið rannsakað og   rannsóknir á umhverfisáhrifum því grundvöllur þess að unnt sé að meta ávinning og áhættu við fyrirhugaða olíu- og gasleit.

Fyrirhugað er að gera m.a. nákvæmt kort af botngerð og lögun svæðisins með fjölgeislamælingum en slíkt kort auðveldar mat á straumum, skilyrðum lífvera á og við botninn og útbreiðslu þeirra. Þá er gert ráð fyrir að búsvæði og lífverusamfélög verði kortlögð á þeim svæðum sem líklegast er að verði fyrir röskun vegna rannsókna og vinnslu á olíu og gasi.