Fjölmennt á Jólamarkaði
Hinn árlegi Jólamarkaður á Þórshöfn var um helgina í íþróttahúsinu og var vel mætt að vanda. Vissulega setti smá strik í reikninginn að það var nóg annað um að vera þar sem enn eru síldarvaktir og fjölmennt meiraprófsnámskeið á sama tíma en á móti kemur að nágrannar okkar fjölmenna sem er vel. Á staðnum voru 22 söluaðilar með alls kyns varning, kaffihús foreldrafélagsins á sínum stað og happdrætti 8 bekkjar. Markaðurinn er búinn að festa sig í sessi enda var þetta í 9. sinn sem hann er haldinn. Skemmtilegur dagur sem margir koma að, enda þarf nokkrar hendur til að skella upp svona markaði.
Á hverju ári er keppni þar sem eitthvað góðgæti er töfrað fram. Í ár var þetta Laugardagslukka, eitthvað gott til að hafa á laugardegi og voru veglegir vinningar. Líney Sigurðardóttir bar sigur úr býtum með Bounty-bombu.
Ljósmyndir Gréta Bergrún