Fara í efni

Fjölsóttur fundur um raforku og önnur framfaramál í Langanesbyggð

Fréttir

Vel mætt var á opinn fund með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem haldinn var í Þórsveri á Þórshöfn í Langanesbyggð. Þar opnaði á dögunum Holtið, glænýr veitingastaður heimamanna í þessu gamalkunnuga og rótgróna félagsheimili Langnesinga.

Mikill framfarahugur einkenndi fundinn og stóðu umræður langt fram á kvöld, en markmiðið var að kynna skýrslu starfshóps um eflingu samfélagsins á Langanesi. Íbúar ræddu meðal annars mikilvægi þess að byggja upp raforkuinnviði, enda sé aðgengi að raforku frumforsenda þess að tryggja samkeppnishæfi atvinnulífs. Einnig var áhugi mikill á jarðhitaleit og öðrum verkefnum sem eru til þess fallin að lækka húshitunarkostnað, styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu, og ekki síst að stuðla að bættri orkunýtingu á svæðinu. Þá ræddu íbúar hugmyndir um stofnun þjóðgarðs á utanverðu Langanesi og aðgerðaáætlun vegna mengunar á Heiðarfjalli, en slík áætlun er í vinnslu og byggir á ítarlegri rannsókn á vegum Umhverfisstofnunar á þessari fyrrum ratsjárstöð NATO. (sjá tengil hér að neðan)

Meðan á dvölinni stóð fór ráðherra, og þeir starfsmenn umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis sem með honum voru, í skoðunarferð um Langanesið. Sólin skein yfir landi og útsýni til allra átta, allt frá Sléttu til Smjörfjalla. Það var því ekki nema von þótt ráðherra hefði orðið tíðrætt um, ef vilji heimamanna stæði til þess, að þjóðgarður á þessu svæði yrði einstakur, innanlands og á heimsvísu.

https://ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2024/05/24/Mengun-yfir-vidmidunarmork-a-Heidarfjalli-a-Langanesi/