Flugslysaæfingin á Þórshafnarflugvelli tókst vel
Stór flugslysaæfing var haldin á Þórshafnarflugvelli síðastliðinn laugardag, 18. apríl. Rúmlega 80 manns komu að æfingunni frá Þórshöfn og stöðum í nágrenninu. Æfð voru viðbrögð ýmissa viðbragðsaðila ef flugslys bæri að höndum á flugvellinum, samkvæmt flugslysaáætlun Þórshafnarflugvallar.
Á myndinni eru Stanislawa Burba og Elfa Benediktsdóttir í mikilvægum hlutverkum fórnarlamba. Áverkarnir eru að sjálfsögðu vel heppnuð förðun. Myndina tók Sóley Vífilsdóttir.
Markmið æfingarinnar var eins og í öllum flugslysaæfingum að leiða saman þá viðbragðsaðila sem hafa hlutverki að gegna við flugslys á flugvellinum, samfara því að tryggja fræðslu á sviði hópslysaviðbúnaðar. Mikil áhersla er lögð á að undirbúningur og framkvæmd hverrar æfingar sé fyrst og fremst á könnu heimamanna því tilgangurinn er að þjálfa fólk í að takast á við þær aðstæður sem upp koma við raunverulegt flugslys eða hópslys. Fræðsla og undirbúningur í hinum ýmsu starfseiningum dagana fyrir æfingu var því ekki síður fróðlegur en æfingin sjálf.
Margir aðilar koma að æfingu sem þessari, má þar nefna starfsfólk flugvallarins, heilbrigðisstofnanir, lögregluna, slökkvilið, Rauða krossinn, björgunarsveitir, Biskupsstofu, Landhelgisgæsluna, rannsóknarnefnd flugslysa og ýmsa fleiri. Einnig tóku þátt 21 leikari sem léku fórnarlömb slyssins og voru mjög mikilvægir til að gera aðstæður sem raunverulegastar. Flugstoðir höfðu yfirumsjón með æfingunni.
Á rýnifundi í lok æfingar var fólk sammála um að æfingin hefði tekist vel, mikil þekking væri í hinum ýmsu starfseiningum og hjá viðbragðsaðilum og æfingin hefði verið mjög lærdómsrík og góð þjálfun.
Farþegar um Þórshafnarflugvöll á síðasta ári voru tæplega 1500 manns samkvæmt heimasíðu Flugstoða.