Fara í efni

Flutningsjöfnunarstyrkir

Fréttir
Markmið laga nr. 160/2011, um svæðisbundna flutningsjöfnun, er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem eru með framleiðslu og lögheimili fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa þ.a.l. við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði.

Markmið laga nr. 160/2011, um svæðisbundna flutningsjöfnun, er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem eru með framleiðslu og lögheimili fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa þ.a.l. við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði.

Hvenær er hægt að sækja um?

Opnað hefur verið fyrir umsóknir inn á þjónustugátt. Umsóknarfrestur vegna flutninga ársins 2013 verður til 31. mars 2014. 

Hver getur sótt um?

Einstaklingar og lögaðilar sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • einstaklingar sem stunda atvinnurekstur og eru með lögheimili á styrksvæði og lögaðilar sem eru með starfsemi og heimilisfesti á styrksvæði (sjá útskýringu á styrksvæði hér neðar).
  • umsækjandi þarf að stunda framleiðslu á vöru sem fellur undir c-bálk íslensku atvinnugreinaflokunarinnar ÍSAT2008.
  • innanlandsmarkaður þar sem framleiðsluvaran er seld, til dæmis útflutningshöfn, þarf að vera í að minnsta kosti 245 km frá framleiðslustað. Með öðrum orðum þarf að flytja tilbúna framleiðsluvöru að lágmarki 245 km frá framleiðslustað til þess að flutningur verði styrkhæfur.
    • hluti markaðar er innan við 245 km. fjarlægð = Þá er ekki er hægt að sækja um flutning á tilbúinni framleiðsluvöru né flutningi á hráefni.
    • hluti markaðar er í meira en 245 km. fjarlægð =  Þá er hægt að sækja um styrk fyrir flutningi á framleiðsluvörunni og því hráefni sem flutt er meira en 245 km. á framleiðslustað. Athugið að halda þarf sölu og innkaupum á þeim hluta sem sótt er um styrk fyrir, aðgreindum í bókhaldi.

Hvað er styrkurinn hár?

Hámark styrkja er 200.000 evrur á þriggja ára tímabili. Miðað er við ESA gengið ár hvert (158,38 kr fyrir árið 2014 eða 31,676 m.kr.). Hægt er að fá alla upphæðina greidda á fyrsta ári ef heildarkostnaður gefur tilefni til. Athugið að hér gildir samtala fyrir alla opinbera styrki, hvort sem það er í formi flutningsstyrkja og/eða annarra styrkja. Ef það kemur í ljós að fjárhæð flutningsjöfnunarstyrks er komin umfram hámarkið, ber umsækjanda að endurgreiða flutningsjöfnunarstyrkinn í heild. Það er því á ábyrgð umsækjanda að fylgjast með upphæðum styrkja.

Undantekningar og takmarkanir

Ekki eru veittir styrkir:

  • til aðila sem skulda skatta eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi.
  • til aðila sem hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota á síðastliðnum fimm árum fyrir dagsetningu umsóknar.
  • vegna útflutnings, nema vegna kostnaðs við flutning innanlands að útflutningshöfn. 

Hvað er styrkhæf framleiðsla á vöru?

Vara getur verið fullunnin eða hálfunnin. Fullunnin vara er tilbúin til nýtingar eða neyslu. Hálfunnin vara er ílag sem notað er við framleiðslu. Til þess að flutningur á vöru reynist styrkhæfur þarf að hafa átt sér stað ummyndun efnis í nýjar afurðir sem falla undir c-bálk í íslensku atvinnugreinaflokkuninni á styrksvæði. Þá telst flutningur á umbúðum styrkhæfur. Umsóknum verður synjað ef umsóknaraðili er ekki skráður í c-bálkinn og/eða er ekki með framleiðslu sem fellur undir c-bálkinn.

Hvert er styrksvæðið?

Til styrksvæða teljast þau svæði þar sem heimilt er að beita byggðaaðstoð samkvæmt byggðakorti ESA 2008-2013. Um þrjú svæði er að ræða. Á þessari mynd má sjá skiptingu svæðanna.

  1. Svæði 1 - Framleiðendur á svæði 1 sem flytja vörur með viðurkenndum flutningsaðila eða flytja sjálfir vörur að uppfylltum skilyrðum til eða frá styrksvæði, geta fengið 10% styrk ef lengd ferðar er að lágmarki 245 km.
  2. Svæði 2 - Framleiðendur á svæði 2 sem flytja vörur með viðurkenndum flutningsaðila eða flytja sjálfir vörur að uppfylltum skilyrðum til eða frá styrksvæði, geta fengið 10% styrk ef lengd ferðar er 245 - 390 km, en 20% styrk ef lengd ferðar er meira en 390 km.
  3. Svæði sem ekki er styrkhæft.

Miða skal við kílómetralengd sem gefin er upp á síðu Vegagerðarinnar og er miðað við aðalleið.

Hvað er styrkhæfur flutningskostnaður?

Sá kostnaður sem stofnað er til vegna flutnings vöru innan lands. Virðisaukaskattur eða hvers konar endurgreiðsla af hendi flytjanda telst ekki til flutningskostnaðar. Að sama skapi ber að draga frá flutningskostaði aðra styrki sem veittir hafa verið vegna flutninga. Þá telst kostnaður vegna hleðslu og geymslu á vörum ekki til flutningskostnaðar né heldur afgreiðslugjöld eða stykkjavörugjöld. Kostnaður vegna innanbæjaraksturs ekki styrkhæfur. Reikningar vegna styrkhæfra flutninga þurfa að hafa verið greiddir og færðir í bókhald umsækjanda.

Hvað er styrkhæfur flutningsmáti?

Ávalt skal velja hagkvæmustu flutningsleið, hvort sem er á sjó, landi eða lofti. Eingöngu eru veittir flutningsjöfnunarstyrkir ef vara er flutt með flutningsaðila sem með samningi tekur að sér vöruflutning fyrir annan, eiganda, sendanda eða móttakanda vörunnar. Framleiðanda er þó heimilt að flytja vöru sína sjálfur svo fremi að kostnaði vegna flutnings vöru til eða frá styrksvæði sé haldið aðgreindum frá öðrum kostnaði í bókhaldi hans. Einnig ber að halda sölutölum hvers styrksvæðis aðgreindum.

Hvaða gögnum þarf að skila inn með umsókn?

Þau gögn sem skila þarf inn með umsókn og hægt er að setja inn sem viðhengi með umsókn eru:

  • Afrit af reikningum vegna flutnings. Ef um mikið magn af reikningum er að ræða, er best að deila möppu á Dropbox (anna@byggdastofnun.is) eða þjappa reikningum í zip file og senda með umsókn.
  • Útfyllt excel skjal (sjá nánari útskýringu á því hér neðar)
  • Staðfesting á að umsækjandi skuldi ekki skatta eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi. Slík staðfesting fæst hjá Sýslumanni.
  • Afrit af skýrslunni VOG. Skýrslan veitir upplýsingar um mál á vanskilaskrá, uppboðsmál, rekstrarsögu, kaupmála og fjárræðissviptingar. Slík skýrsla fæst hjá CreditInfo.
  • Stutta greinargerð um fyrirtækið og framleiðsluna. Hvernig fer framleiðsla fram? Hvaða hráefni og umbúðir þarf til að koma vörunni á markað? Tilgangurinn með þessu er að veita þeim sem yfir umsóknina fara nánari upplýsingar um framleiðsluna og starfsemi.
  • Upplýsingar um aðra styrki frá opinberum aðilum á á síðastliðnum 3 árum, ef við á.

Mögulegt er að óskað verði eftir frekari gögnum en talin eru hér upp. 

Excel skjal

Þetta excel skjal má fylla út í eða nota sem viðmiðunarskjal. Athugið að um nokkra flipa er að ræða, og skal fylla inn í það sem við á eins og skýrt er út í fyrsta flipa. Í skjalinu er hægt að sjá hvaða upplýsingar það eru sem þurfa að liggja fyrir með umsókn. Flest flutningafyrirtæki geta skaffað rafrænt yfirlit, yfir ákveðið tímabil, með flestum af þeim upplýsingum sem fram þurfa að koma. 

Hvenær er styrkur greiddur út?

Eins fljótt og auðið er. Mikilvægt er að úbúa umsóknargögn samkvæmt leiðbeiningum hér að ofan til að flýta fyrir afgreiðslu umsókna.

Umsjón með framkvæmd laganna

Samkvæmt breytingu á lögum nr. 160/2011 um svæðisbundna flutningsjöfnun, sbr. lög nr. 128/2012, hefur Byggðastofnun verið falin umsjón með framkvæmd laganna.

Umsjónaaðili verkefnisins hjá Byggðastofnun er Anna Lea Gestsdóttir, anna@byggdastofnun.is

Hikaðu ekki við að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna.

Byggðastofnun Ártorg 1 550 Sauðárkrókur Sími: 455-5400 Tölvupóstur: postur@byggdastofnun.is 

Lög og reglugerðir