Flytja út lifandi kúfskel frá Langanesi
20.jan 2008
Sælkerum í Frakklandi og á Spáni býðst brátt að sporðrenna lifandi kúfskel úr Þistilfirði. Ísfélag Vestmannaeyja og Matís þróa nú aðferðir við að koma skelfisknum lifandi frá Langanesi og alla leið á borð evrópskra veitingahúsa.
Sérhæft skip til kúffiskveiða, Fossá, hefur í áratug verið gert út frá Þórshöfn en sérstakur plógur grefur skelina upp af sandbotni. Skelin hefur síðan verið flutt í land, opnuð og verkuð, og innihaldið selt til í Bandaríkjanna í súpuframleiðslu. Sú vinnsla hefur hins vegar ekki borgað sig og því freista menn þess nú að prófa nýjar aðferðir í von um að fá hærra verð fyrir skelina.
Siggeir Stefánsson, framleiðslustjóri Ísfélagsins á Þórshöfn, segir verkefnið snúast um að ná kúfskelinni lifandi í land, halda henni lifandi, láta hana sandhreinsa sig, og finna pökkunaraðferð til að koma henni lifandi á erlenda markaði.
Frá Þórshöfn þarf að koma skelinni fyrst með flutningabílum 730 kílómetra vegalengd til Keflavíkur og þaðan með flugvélum, og síðan áfram til veitingahúsa í mið og sunnanverðri Evrópu þar sem gestir opna sjálfir skelina og borða hana lifandi.
Þótt mikil hefð sé fyrir því að borða lifandi skeldýr á þessum mörkuðum, og þetta sé áhugavert, segir Siggeir að markaðsmálin eigi enn eftir að skýrast.
frétt af Visir.is
Fréttin af stöð 2.