Fólk leitar í atvinnuöryggið
ATVINNUMÁL Að minnsta kosti fjórar fjölskyldur eru að flytja eða eru þegar fluttar á Þórshöfn á Langanesi.
Fólkið kemur bæði af höfuðborgarsvæðinu og annars staðar að af landinu, að sögn Björns Ingimarssonar, sveitarstjóra Langanessbyggðar.
"Við höfum verið með ágætlega stöðugt atvinnulíf í nokkuð langan tíma," segir Björn. "Við erum utan þenslusvæða. Við höfum því ekki upplifað neina þenslu og þar af leiðandi engan samdrátt. Atvinnulífið er í góðum gír og okkur hefur sárvantað fólk, til að mynda í öll þjónustustörf."
Spurður um húsnæðismál á svæðinu segir Björn að nánast allt húsnæði sé í notkun Þórshafnarmegin.
Til þessa hafi hins vegar verið laust húsnæði Bakkafjarðarmegin á nesinu.
"Það hefur einnig verið mikill uppgangur í atvinnulífinu þar frá því í vor þegar Toppfiskur hóf þar fiskvinnslu," bætir hann við.
Björn segir að fólkið sem er að flytja til Þórshafnar sé yfirleitt menntað fagfólk sem mikill fengur sé að fyrir staðinn. Hann segir brottflutning fólks af staðnum hafa verið talsverðan á undanförnum árum en íbúafjöldinn sé nú nokkuð stöðugur.
Fréttablaðið - jss