Frá skólanum á aðventunni
Þann 1. desember komu kennaranemarnir okkar til starfa og er óhætt að segja að þeirra hafi verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Um leið og þau eru boðin velkomin til starfa langar mig til að þakka þeim sem hlupu undir bagga í manneklunni sem blasti við okkur í haust, en þar eiga þær Steinunn Guðnadóttir og Vilborg Stefánsdóttir einna stærstan hlut, en þær störfuðu sem afleysingakennarar frá skólabyrjun og út nóvember. Þeirra er nú sárt saknað og eiga þær kærar þakkir skildar fyrir störf sín hér í skólanum. Ekki síður langar mig að þakka starfandi kennurum sem bættu á sig mikilli vinnu svo takast mætti að halda uppi skólastarfi á haustmánuðum.
Þann 1. desember breyttust einnig stundaskrár hjá flestum bekkjum og fengum við svigrúm til að skipta 5.-6. bekk í stærðfræði og 1.-2. bekk í sundi. Þessar breytingar þóttu okkur mjög brýnar og mælast þær vel fyrir hjá kennurum og nemendum.
Alltaf fjölgar í skólanum hjá okkur en nemendur eru nú 77 talsins, 3 hafa bæst við síðan í haust og orðið þröngt um suma árgangana, sérstaklega þá yngri sem eru í samkennslu.
Þá skiptir miklu máli að samskiptin séu í lagi og að nemendur mæti úthvíldir og geðgóðir í skólann.
Jólafríið hefst þann 19. des. Fram að hádegi þann dag eru nemendur í skólanum að leggja lokahönd á skreytingar og föndur. Frí er á milli 12 og 14. Mötuneytið er opið eins venjulega fyrir þá sem skráðir eru þar. Kl. 14 mæta nemendur síðan á litlu-jól í heimastofum sínum, þar sem þeir eiga jólalega stund með umsjónarkennurum. Um kl. 15 safnast allir saman í félagsheimilinu þar sem dansað verður í kringum jólatréð og jólasveinarnir kíkja í heimsókn. Allir eru velkomnir að koma og dansa með okkur!
Njótið aðventunnar,
Kveðja frá Grunnskólanum.